Ótrúlegt einbýlishús sem ritstjórinn Styrmir Gunnarsson reisti og bjó í alla tíð ásamt eiginkonu sinni, Sigrúnu Finnbogadóttur og fjölskyldu er nú komið á sölu. Styrmir lést þann 21.ágúst síðastliðinn, 83 ára að aldri, en Sigrún féll frá árið 2016. Hér má skoða húsið nánar.
Húsið glæsilega stendur Marbakkabraut 26 í Kópavogi og var byggt af hjónunum árið 1978. Það er 225,7 fermetrar að stærð og herbergin eru fimm talsins. Um er að ræða einstaka hönnunarperlu eftir arkitektinn Manfreð Vilhjálmsson og kemur fram í sölulýsingu hússins að það er eitt hið síðasta sem Manfreð teiknaði fyrir einkaðila.
Í sölulýsingunni er vísað í umsögn Péturs H. Ármannssonar arkitekts, „Staðsetningin er einstök og er leit að öðru húsi sem býður upp á jafn áhrifamikil tengsl við fjöruna og hafið. Njóta má útsýnis út yfir Fossvog og Skerjafjörð á báðum hæðum hússins í gegnum vandlega staðsett gluggaop, stór og smá. Innan við steypta útveggina og óháð þeim er svartlituð burðargrind úr timbri sem gólf og milliveggir efri hæðar hvíla á og mynda nokkurs konar „hús“ inn í húsinu“.
Húsið er með bröttu risþaki og því nokkuð ólíkt þeim módernísku húsum sem Manfreð er kunnastur fyrir. Það var hannað og byggt áður en nærliggjandi götur voru skipulagðar og því var mögulegt að reisa það fremst á bakkanum upp af ósnortinni fjöru.“
Aftur segir Pétur: „Fágætt er að finna einbýlishús þar sem allt fer saman: arkitektúr í hæsta gæðaflokki, sérhannaðar innréttingar af höfundi hússins sem varðveist hafa með upphaflegu útliti, og einstæð staðsetning á miðju höfuðborgarsvæðinu, fast við ósnortið fjöruborð með útsýni yfir Fossvog og Öskjuhlíð. Hér býðst einstakt tækifæri fyrir áhugafólk um arkitektúr og hönnun sem vill njóta á eigin heimili þess besta sem í boði er af því tagi hér á landi“.