Reddum málinu! vinnustaðakeppni þar sem fyrirtæki og stofnanir kepptu sín á milli í söfnun raddsýna á íslensku er nú lokið. Raddsýnin fara nú í gagnagrunn Samsróms sem verður opinn og aðgengilegur öllum sem vilja nýta hann í máltækni lausnir.
Menntaskólinn á Tröllaskaga sigraði í flokki lítilla fyrirtækja, Elko í flokki millistórra fyrirtækja og Advania sigruðu í flokki stórra fyrirtækja. Í heildina voru það starfsmenn Elko sem lásu flestar setningar eða alls 47.896, Menntaskólinn á Tröllaskaga las 42.470 setningar og starfsmenn Kerecis hf. lásu 33.657 setningar. Gríðarleg spenna myndaðist á lokasprettinum og var síðasti dagur keppninnar sá langstærsti til þessa, en þá voru lesnar upp 115.000 setningar.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú afhentu sigurvegurum keppninnar viðurkenningar í móttöku á Bessastöðum á degi íslenskrar tungu. Forseti Íslands og forsetafrú eru verndarar Almannaróms.
Notkun og þróun máltæknilausna er á fleygiferð og notkun raddstýringa sífellt algengari. Í náinni framtíð tölum við ekki aðeins við tækin okkar heldur munu þau geta talað fyrir okkar hönd, hringt símtöl og sent fyrir okkur skilaboð. Allar þessar framfarir þjóta áfram án okkar og mögulega íslenskunnar ef ekkert er að gert.
Söfnun raddsýna, þróun á gagnagrunni með íslensku sem nota má til að kenna tölvum og tækjum að skilja íslensku og fleira er eitt mikilvægasta samstarfsverkefni þjóðarinnar. Saman getum við tryggt framtíð íslenskunnar og að tungumálið okkar verði hluti af stafrænni framtíð.
Alls söfnuðust 366.241 raddsýni í Reddum málinu en 350 fyrirtæki og stofnanir voru skráð til leiks. Alls tóku 2700 manns þátt en 69% raddsýnanna voru lesin af konum. Keppt var í þremur flokkum eftir stærð vinnustaða.
Aðstandendur Reddum málinu þakka öllum sem tóku þátt kærlega fyrir sitt framlag. Áfram má taka upp raddsýni og leggja verkefninu lið á samromur.is og hvetjum við karlmenn sérstaklega til að leggja verkefninu lið ásamt þeim sem tala íslensku ekki sem sitt móðurmál.
Reddum málinu er samstarfsverkefni Almannaróms – Miðstöðvar máltækni, Háskólans í Reykjavík og Símans. Átakið byggir á Samrómi, lausn sem safnar raddsýnunum saman.