Bandarísk móðir birti átakanlega færslu á Facebook eftir að 10 ára sonur hennar kom grátandi heim úr skólanum eftir að hafa orðið fyrir aðkasti skólafélaga. Með færslunni birti hún mynd af grátbólgnum syni sínum og benti öðrum foreldrum á að brýna fyrir börnum sínum hversu mikið orð geta meitt. Færslan hefur vakið mikla athygli og er fjallað um hana í fjölmiðlum víða um heiminn.
Móðirin, Jill Struckman, segir að hún og sonur hennar, Evan, hafi lagt mikla vinnu í hrekkjavökubúning hans, en Evan kaus að klæða sig upp sem Tony Stark, auðkýfinginn úr Marvel-heiminum sem er betur þekktur sem Iron Man.
Þau voru afar stolt af útkomunni og hélt Evan spenntur og glaður af stað í skólann. Aðeins 20 mínútum síðar fékk Jill símtal frá skólanum, Evan hafði orðið fyrir aðkasti og var grátandi á skrifstofunni. „Þau sögðu, Evan er hérna og hann er í mjög miklu uppnámi,“ segir Jill.
„Svo virðist sem að börn í skólavagninum (sem voru ekki einu sinni sjálf í búningum) hafi sagt honum að hann liti heimskulega út,“ skrifar Jill í átakanlegri færslu á Facebook.
„Evan fór upp í skóla og hljóp beinustu leið inn á baðherbergi þar sem hann þvoði sér í framan.“
Jill segir að sonur hennar hafi verið í svo miklu uppnámi og það miður sín að hann vildi ekki mæta í hrekkjavökuteitið sem skólinn var að halda.
Jill segir að hana hafi verkjað í hjartað þegar Evan hringdi og flýtti hún sér upp í skóla og sótti son sinn. Hann hafði þá þegar fjarlægt alla andlitsmálningu sem þau höfðu haft svo mikið fyrir að setja framan í hann um morguninn.
„Hann sagði bara aftur og aftur: „Við lögðum svo mikla vinnu í þetta.“ Hann hafði áhyggjur af því hvernig mér myndi líða, sem segir ykkur mikið um persónuleika hans,“ sagði Jill í samtali við Today.
Þegar Evan var kominn heim sagði hann móður sinni að krakkarnir í skólavagninum hafi sagt að hann liti asnalega út og að allir myndi gera grín að honum og við það hafi Evan orðið miður sín.
Jill deildi upphaflega sögu Evans á Facebook til að benda öðrum foreldrum á að brýna fyrir börnum sínum að orð geta meitt.
„Svona lítur litli Tony Stark minn út núna. Við erum bæði grátbólgin og erum á leiðinni að kaupa okkur ís. Börn þurfa að gera sér grein fyrir að orð meiða“
Saga Evans fékk þó farsælan endi, Jill náði að stappa í hann stálinu og hann samþykkti að lokum að fara aftur upp í skóla í hrekkjavökuboðið. Móðir hans hjálpaði honum með andlitsmálninguna og skutlaði honum svo í skólann.
„Hann var svolítið hræddur þegar hann gekk aftur inn í skólann. En hann endaði með að skemmta sér vel. Og hann var svo stoltur af sjálfum sér. Þetta var uppákoma sem mun hafa mikil áhrif á líf hans. Ef hann hefði ekki snúið aftur þá hefði það brotið hann niður.“