Hjónin Joel og Lisa Guy bjuggu í borginni Knoxville í Tennessee. Þakkargjörðardagurinn þann 24. nóvember árið 2016 var sérstakur hjá hjónunum. Þau áttu fjögur börn, þ.e.a.s. Lisa átti þrjár dætur af fyrra hjónabandi en saman áttu þau soninn Joel Guy yngri, sem var 28 ára þegar sagan gerist. Joel Guy eldri var 61 árs og Lisa var 55 ára. Þetta kvöld sögðu þau afkvæmunum frá mikilvægri ákvörðun: Þau ætluðu bæði að setjast í helgan stein. Bæði voru í góðum störfum, Joel starfaði sem verkfræðihönnuður og Lisa var bókari. Joel eldri hafði nýlega misst vinnuna en Lisa ætlaði að segja upp, þau ætluðu að selja húsið og flytja í minna hús sem Joel hafði erft eftir móður sína.
Dætrunum og syninum Joel fannst þetta fín hugmynd og kvöldverðurinn var hinn ánægjulegasti. Dæturnar þrjár kvöddu tveimur dögum síðar en Joel gisti hjá foreldrum sínum fram til 29. nóvember en þá hélt hann til heimilis síns í Louisiana.
Frábær þakkargjörðarveisla var að baki og lífið brosti við fjölskyldunni. Ekkert gaf fyrirheit um þann ólýsanlega hrylling sem var í vændum.
Mánudaginn 29. mætti Lisa Guy ekki til vinnu sinnar. Hún svaraði heldur ekki í síma. Þar sem yfirmaður hennar þekkti hana af allt öðru en því að láta ekki vita af sér ef hún kæmist ekki til vinnu hafði hann fljótlega samband við lögreglu.
Lögregla ákvað að kanna ástandið. Á Guy-heimilinu voru allar aðstæður sérkennilegar. Tveir bílar voru fyrir utan húsið og það var ljós í anddyrinu. En þegar barið var að dyrum kom enginn til dyra. Hins vegar heyrðist ámátlegt hundsgelt innan úr húsinu.
Lögregluþjónarnir ákváðu að hafa samband við rannsóknardeildina sem mætti á vettvang. Eftir nokkrar vangaveltur og endurteknar tilraunir til að ná sambandi við húsráðendur ákvað lögreglan að ráðast til inngöngu.
Allt sem blasti við lögreglumönnunum innandyra var sérkennilegt og vakti óhug. Það var allt á rúi og stúi og torkennilegir hlutir blöstu við, til dæmis langir plastrenningar, klórbrúsar, stórir hnífar, sleggja og margt fleira sem hér verður ekki tiltekið.
Stór pottur var á eldavélinni og hiti á hellunni. Kyndingin hafði verið skrúfuð í botn og það var ákaflega heitt í húsinu. Sterk kemísk efnalykt fyllti húsið. Einhvers staðar í læstu herbergi gelti og ýlfraði hundur. Illur grunur sótti eðlilega að lögreglumönnunum en ekkert gat búið þá undir þann hrylling sem þeir áttu í vændum.
Það er spurning hve ítarlega er hægt að fara út í smáatriði um það sem við blasti í húsi Guy-hjónanna. Rannsóknarlögreglumenn sem komu að þessu máli segjast aldrei hafa séð jafn hryllilegan vettvang glæps.
Hjónin höfðu bæði verið myrt og líkamsleifar þeirra að miklu – en ekki öllu leyti – leystar upp í sýrubaði, í tveimur kerjum sem komið hafði verið fyrir í baðkari. Líkin höfðu verið aflimuð og höfuðin kraumuðu í pottinum stóra á hellunni í eldhúsinu.
Svo mikið var eftir af líkamsleifum föðurins að það tókst að leiða í ljós að hann hafði hlotið fjölmörg stungusár, þar á meðal varnarsár, hann hafði barist fyrir lífi sínu gegn árásarmanninum.
Ummerki voru um að morðinginn hefði ætlað að hreinsa upp eftir sig en hann hefði farið frá ókláruðu verki. Mattir illa þvegnir blóðblettir voru úti um allt á gólfteppinu. Tæki og efni til hreinsunar voru á staðnum en lítið notuð.
Frá upphafi rannsóknar var aldrei nein spurning um hver hefði framið glæpinn. Eftirlitsmyndavélar í Walmartverslun í nágrenninu sýndu Joel Guy yngri kaupa búnaðinn til að myrða foreldra sína og afmá verksummerki. Og þó að Joel yngri játaði aldrei neitt á sig var auðvelt að lesa í atburðarásina út frá gögnunum. Til dæmis sýndu ummerkin að Joel hafði byrjað að þrífa upp eftir sig, en af því hann var svo illa særður á höndum hafði hann yfirgefið svæðið og farið heim til sín en hann bjó í Louisiana. Hann hafði ætlað að koma aftur síðar og klára verkið en var ekki búinn að ljúka því er hann var handtekinn.
Á vettvangi skildi hann eftir sig sex blaðsíðna handskrifaða handbók um glæpinn og fráganginn eftir hann. Ljóst var af þeirri þeirri lesningu að glæpurinn hafði verið undirbúinn í þaula. Þrátt fyrir það var gífurlegur viðvaningsbragur á verkinu þegar horft er til þess hvað auðvelt var að finna hinn seka.
Joel yngri hafði lengi verið nokkuð utangátta í fjölskyldunni. Móðir hans Lisa sinnti honum þó mikið, hringdi í hann daglega. Það sem meira var, hún hélt honum uppi fjárhagslega, borgaði húsaleiguna hans í Louisiana og sendi honum peninga til uppihalds. Joel var skráður í nám en sinnti því illa og hann aflaði engra tekna. Móðir hans borgaði bókstaflega allt fyrir hann.
Í þessu liggur meginástæðan fyrir glæpnum svo langt sem hún nær. Hjónin höfðu nefnilega, samfara þeirri ákvörðun að setjast í helgan stein, ákveðið að hætta fjárstreyminu til Joels og ætluðu að láta hann standa á eigin fótum.
Í „handbókinni“ sem Joel skildi eftir á vettvangi upplýsir hann um þau áform sín að innheimta líftryggingu móður sinnar upp á 500 þúsund dollara. Til að hann teldist réttur viðtakandi fjárins varð hann að ryðja föður sínum einnig úr vegi.
En þessi atriði skýra ekki hinn ótrúlega ofsa sem einkenndi árásina né fáránlegt kæruleysi Joels eftir morðin. En gögnin afhjúpa einstaklega skítlegt eðli, sem og sú staðreynd að við réttarhöldin sýndi Joel engin merki um iðrun, en hann neitaði sök þrátt fyrir yfirþyrmandi sönnunargögn.
Sem fyrr segir var glæpurinn framinn í nóvember 2016 en dómur féll í málinu í nóvember síðastliðnum. Hlaut Joel Guy yngri tvöfaldan lífstíðardóm.