Leikarinn Will Smith greinir frá því að hann og eiginkona hans, leikkonan Jada Pinkett Smith, séu í opnu hjónabandi. Hann segir frá þessu í viðtali í nýjasta tölublaði tímaritsins GQ.
Will Smith opnar sig um óhefðbundið samband þeirra hjóna og segir að eftir að hafa „aðeins verið með hvort öðru stóran hluta sambands“ þeirra þá ákváðu þau að opna það.
„Hjónaband má ekki vera fangelsi fyrir okkur,“ segir hann.
Will og Jada hafa verið gift í tæplega 24 ár. „Jada hefur aldrei trúað á hefðbundið hjónaband. Hún á fjölskyldumeðlimi sem voru í óhefðbundnum samböndum. Svo hún ólst allt öðruvísi upp en ég,“ segir Will.
„Við ákváðum að vera bara með hvort öðru stóran hluta sambands okkar en nú höfum við gefið hvort öðru traust og frelsi til að finna eigin leið.“
Will segir að hann myndi ekki ráðleggja neinum að gera það sama og þau. „En þessi reynsla og upplifun sem við höfum gefið hvort öðru og skilyrðislausi stuðningurinn, er að mínu mati, ást í sinni tærustu mynd.“
Will og Jada viðurkenndu í mjög hreinskilnum þætti af Red Table Talk í fyrra að Jada hefði átt í sambandi með tónlistarmanninum August Alsina árið 2015.
Hjónin voru þá ekki búin að ákveða að opna sambandið og hafði framhjáhaldið mikil áhrif á parið sem skildi að borði og sæng um tíma.
„Hjónabandið okkar var ekki að ganga. Við gátum ekki lengur látið eins og ekkert væri. Okkur leið báðum hörmulega og það þurfti eitthvað að breytast,“ sagði Will.