Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur fór á dögunum í tantranudd með kærastanum. Hún segir að upplifun sín hafi verið jákvæð. „Mér fannst þetta svolítið merkilegt,“ segir hún.
Sigga Dögg hefur slegið rækilega í gegn í fræðslu- og skemmtiþáttunum Allskonar kynlíf á Stöð 2. Þar rýnir hún í hin ýmsu málefni tengd kynlífi ásamt aðstoðarmanni sínum Ahd Tamimi.
Hún var einnig að gefa út netnámskeið, sem er hægt að kaupa á vefsíðu hennar. Þar fer hún yfir hvernig á að tala um kynlíf við börn á aldrinum 0-18 ára. Sigga Dögg hefur einnig skrifað nokkrar bækur og heldur úti afar vinsælli Instagram-síðu.
View this post on Instagram
Sigga Dögg segir að hún sjái fyrir sér að mörg pör hefðu gott af því að fara í Tantranudd. Hún lýsir aðstæðum.
„Þetta var þannig að ég var allsber, kæró í stuttbuxum og konan sem var að kenna honum að nudda mig, því við fórum í þannig tíma, hún var á brjóstunum og í nærbuxum,“ segir hún.
Sigga Dögg segist hafa spurt konuna um ástæðuna fyrir fatavalinu. „Hún gerir það til að setja sig ekki ofar mér. Til að vera eiginlega með mér í nektinni, sem mér fannst alveg meika sens. Mér fannst það ekki óþægilegt. Það hefði getað verið óþægilegt að vera eina nakta manneskjan. En þau passa að skapa þægilegt rými og þetta snýst svolítið um að skapa öryggi og leyfa sér nánd í snertingu og leyfa sér að finna það sem maður finnur,“ segir Sigga Dögg og bætir við að þetta hefði ekki verið kynferðislegt.
„Eða það var ekki mín upplifun að þetta væri kynferðislegt.“
„Mér finnst gott það sem [kennarinn] tók fram. Sérstaklega fyrir konur, og sérstaklega konur sem eru í sambandi með karlmanni, þá er oft mikil vænting á konur um kynlíf og þær eiga erfitt með að taka á móti nánd og einlægri og innilegri snertingu því þær eru svo mikið í hausnum á sér: „Hvenær þarf ég að borga fyrir mig? Þetta er nú að fara að kosta mig eitthvað. Hvers er vænst af mér?“ En þarna ertu að fá rými þar sem þú ert í klukkutíma eða tvo þar sem er verið að koma blíðlega við þig og þú bara færð að finna: „Hvernig upplifi ég þetta í líkamanum mínum? Hvernig líður mér? Hvað finnst mér þægilegt? Hvað ekki?“ Í svona öryggi þar sem þú skuldar engum neitt nema peninginn eftir á,“ segir hún.
„Þetta kostar alveg pening. Þetta er ekki ókeypis. Sumir myndu kalla þetta dýrt en aðrir ekki. Það er misjafnt hvert þitt verðmat er og það er allt í lagi. Fólk má rukka sem það vill fyrir þjónustuna sína.“
Hér að neðan má sjá verðlistann hjá Tantra Temple, þar sem þau fóru í nudd.
Sigga Dögg viðurkennir að hún hefði líklegast ekki getað farið í svona nudd fyrir þremur árum.
„Mér hefði ekki liðið vel. Ég hefði verið óróleg og með mikla óeirð í líkamanum og það er kannski líka svolítið lýsandi fyrir þetta, af hverju ég var með svona mikla fordóma fyrir þessu og er núna bara eitthvað ókei hér er ýmislegt sem ég er tilbúin að skoða og kanna og pæla í.“