fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Eigandi „lífstílsmerkis“ áhrifavaldanna þvertekur fyrir að selja vörur af Ali Express – „Ég vona innilega að þetta breyti ekki ímynd ykkar á merkinu sjálfu!“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 3. september 2021 11:30

Samsett mynd/Skjáskot af Metta.sport.is og Pétur Kiernan.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrirtækið Metta Sport ehf., sem rekur samnefnda netverslun, hefur verið sakað um að selja vörur frá Ali Express sem eigin hönnun. Þetta nýja „lífstílsmerki“ eins og það er kallað á vefsíðu fyrirtækisins hefur vakið mikla athygli hérlendis á skömmum tíma enda hefur rjóminn af áhrifavöldum landsins tekið þátt í að auglýsa vörumerkið. Forsvarsmaður fyrirtækisins vísar því alfarið á bug að vörurnar séu keyptar af Ali Express. Hann sendi frá sér yfirlýsingu rétt í þessu sem má lesa neðar.

Treysta á áhrifavalda í markaðssetningu

Metta er nýtt íþróttavörumerki á Íslandi, eða „lífstílsmerki“ eins og það er kallað á vefsíðu fyrirtækisins.

Ef þú ert á samfélagsmiðlum hefur innkoma fyrirtækisins á íslenskan markað örugglega ekki farið framhjá þér. Nokkrir stórir áhrifavaldar hafa auglýst fyrirtækið og má finna myndir af þeim á vefsíðu Metta. Þar á meðal íþróttakonan og hlaðvarpsstjórnandinn Edda Falak, plötusnúðurinn Dóra Júlía og kraftlyftingakonan Arnhildur Anna.

Fleiri þekktir Íslendingar sem eiga það sameiginlegt að vera vinsælir á samfélagsmiðlum hafa auglýst vörurnar á Instagram. Meðal annars Sunneva Einarsdóttir, leikkonan Kristín Pétursdóttir, fjölmiðlakonan Birna María Másdóttir, rappararnir Aron Can og Flóni, World Class-erfinginn Björn Boði, fyrirsætan Andrea Röfn, söngkonan Guðrún Eyfjörð og leikkonan Donna Cruz.

Metta hefur enn sem komið er einbeitt sér að netverslun en verður um helgina með „pop-up“ verslun í Síðumúla. Á vefsíðu fyrirtækisins kemur fram að: „Metta er nýtt íslenskt lífstílsmerki sem einsetur sér að bæta daglegt líf fólks með hagkvæmum og vönduðum klæðnaði.“

Keimlíkt vörum á Ali

Í gær vakti Twitter-notandi athygli á því að peysa frá Metta er keimlík peysu sem fæst á Ali Express.

Peysan á Metta kostar 11.990 kr. en á Ali kostar hún 2879 kr. Sendingarkostnaður og tollgjöld ekki meðtalin.

Peysan til vinstri á Metta og hin á Ali Express.

Tístið hefur vakið þó nokkra athygli og við nánari eftirgrennslan hefur DV fundið fleiri vörur á Ali Express sem eru afar sambærilegar þeim sem má versla á Metta, eins og þessi íþróttatoppur.

Á Ali Express er einnig hægt að kaupa sumar vörurnar með sérvöldu „logo“ en vörurnar sem eru á Metta eru merktar með „M“.

Eigandi Metta tjáir sig

Í samtali við DV þvertekur Pétur Kiernan, eigandi Metta Sport ehf, fyrir að Metta verslaði vörur á Ali Express heldur kaupir hann frá erlendum birgja sem virðist einnig selja öðrum. Pétur sagðist ætla að bregðast við fyrirspurn DV með því að gefa út fréttatilkynningu tilkynningu um málið rétt í þessu sem má lesa hér að neðan.

Metta Sport var stofnað þar sem við töldum þörf á meiri fjölbreytni í íþróttafatnaði á Íslandi. Eftir margra mánaða leit að framleiðanda sem gat boðið upp á gæðavörur og prufur á þeim  í samráði við afreksfólk í íþróttum var ákveðið að semja við framleiðanda í Kína. Metta Sport býður eingöngu upp á vönduð efni og fer framleiðslan í Kína fram undir ISO-14001  umhverfisstaðli. Metta Sport flytur  hins vegar inn vörur frá mörgum mismunandi framleiðendum og er lífsstílslínan okkar m.a. framleidd í Portúgal úr 100% lífrænum bómul og töskurnar frá Bandaríkjunum. Við höfum aldrei leynt því hvar fötin okkar eru framleidd og stendur það m.a. inni í hverri flík.

Að gefnu tilefni vill Metta Sport greina frá þeim kostnaði sem bætist ofan á innkaupsverð varanna en það er margt sem þarf að taka inn í myndina eins og flutning, virðisaukaskatt, rekstur, fjármagnskostnað, merkingar, lagerkostnað, markaðssetningu, fríar sendingarleiðir til viðskiptavina o.fl. Því miður er það algengt vandamál að framleiðendur selji umframframleiðslu án vörumerkis í lausasölu á undirverði og eru stærstu vörumerki í heimi í sömu aðstæðum hvað þetta varðar.

Metta Sport er lífstílsmerki og concept sem búið var til í þeim tilgangi að auka úrval og fjölbreytni á Íslandi og skapa ákveðna upplifun. Markmiðið er að bjóða upp á hágæða vöru á betra verði en hingað til hefur boðist. Ég vona innilega að þetta breyti ekki ímynd ykkar á merkinu sjálfu!

Metta Sport

Þess má geta að Pétur hefur áður vakið athygli í fjölmiðlum. Þannig fjallaði Fréttablaðið um auglýsingaherferð Landsbankans árið 2019 sem snerist um sparnað ungs fólks og bar yfirskriftina: „Ungt fólk og peningar.“

Pétur var andlit herferðinar en ástæðan fyrir fjölmiðlaumfjölluninni var sú að hann var kynntur til leiks sem  22 ára námsmaður með takmarkaðar tekjur, en skartaði á sama tíma 4 milljóna króna úri í innslögunum. Þess má geta að málið var tekið fyrir í Áramótaskaupinu sama ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram