„Það er ennþá víða pottur brotinn og mér hefur til dæmis verið sögð saga tveggja systkina sem var farið mjög illa með á fósturheimili bara rétt fyrir aldamótin síðustu, svo illa að þau bera þess aldrei bætur,“ segir Kristján Hreinsson, skáld og rithöfundur. Kristján hefur nýlega sent frá sér sögulegu skáldsöguna „Lökin í golunni.“ Sagan gerist í ónefndu héraði ekki mjög fjarri Reykjavík, á stríðsárunum og teygir sig inn í sjöunda áratug síðustu aldar er höfuðborgin tekur við sem sögusvið í lokaköflunum.
Um er að ræða örlagasögu tveggja systra sem sendar eru hvor á sitt fósturheimilið eftir að móðir þeirra deyr og faðirinn er ekki lengur í stakk búinn til að sjá fjölskyldunni farborða. Vinnuþrælkun, kynferðisleg áreitni og barsmíðar eru á meðal þess sem systurnar þurfa að þola í vistinni og önnur þeirra er í lífshættu vegna ofbeldis húsmóður sinnar.
Aðspurður segist Kristján ekki í vafa um að fósturbörn hafi verið myrt á íslenskum sveitabæjum í gegnum tíðina án þess að rétt hafi verið úrskurðað um dánarorsök. Í sögunni gengur systrunum illa að sækja réttlæti sér til handa og kvartanir þeirra fá ekki viðeigandi afgreiðslu, þær mega sín lítils gagnvart frændhyglinni og samtryggingunni sem einkenna kerfið sem þarna er við völd.
Það er ekki ætlunin að rekja söguþráð bókarinnar mikið til að spilla ekki ánægjunni fyrir væntanlegum lesendum en óhætt er að mæla með bókinni, blaðamaður hafði mikla ánægju af lestri hennar. Þetta er efnismikil skáldsaga þó að hún sé ekki ýkja löng, rúmlega 240 blaðsíður, stórt og bráðlifandi persónugalllerí, dramatísk frásögn og lifandi sögusvið. Stórfín sumarlesning, í senn spennandi saga og heilmikið hugarfóður.
Systurnar tvær sýna ótrúlega þrautseigju og viljastyrk, þær eru afskaplega vandaðar og hreinlyndar manneskjur. Skáldskapur fjallar oftar en ekki um mannlega bresti en það vill gleymast að afar margt fólk er vel innrætt, stálheiðarlegt og lítt þjakað af karakterbrestum. Gott dæmi um hreinlyndi og andlegan styrk systranna er að þeim tekst að fyrirgefa misgerðarfólki sínu. „Þær eru fullar af hreinni fyrirgefningu af því þær eiga engan annan kost. Stundum setur lífið manni stólinn fyrir dyrnar og segir: Þú neyðist til að fyrirgefa og fyrirgefa af heilum hug, ekki að þú leyfir fólki að abbast upp á þig aftur og aftur heldur ákveður þú að þú ætlir ekki að erfa neitt við einn né neinn,“ segir Kristján.
Þó að um skáldsögu sé að ræða á ýmislegt í sögunni fyrirmyndir í raunverulegum atburðum. Sjálfur segist Kristján ekki frekar en þessar sögupersónur hans erfa neitt við þá sem hafa gerst sekir um að láta börn þjást, gagnrýni hans snýr ekki að einstaklingum heldur samfélaginu. „Hvernig getum við sem manneskjur boðið upp á að það sé búið til samfélag sem leyfir svona lagað, að börnum sé bara kastað út og suður og það skipti engu máli hvernig farið er með þau. Ég veit að þetta viðgengst enn í dag og það gerir þá kröfu á mig að ég verð að koma þessu frá mér,“ segir Kristján en tekur jafnframt fram að ástandið í málaflokknum í heild hafi vafalaust stórbatnað. Það sé einnig margt frábært og vandað fólk sem taki að sér fósturbörn og þannig hafi það alltaf verið. Samtryggingin og frændhyglin hafi einnig stórminnkað þegar kemur að samsetningu barnaverndanefnda og ákvörðun varðandi fósturbörn.
Skáldskapur og raunveruleiki
Fyrir utan að vera stútfull af lifandi persónum og dramatískum átökum þá er „Lökin í golunni“ nokkuð margslungin saga. „Hið sögulega svið eru átökin úti í heimi en síðan eru átökin inni í sögunni sjálfri í raun af svipuðum toga,“ segir Kristján og er sammála blaðamanni um að hvítu lökin sem koma fyrir í sögunni séu tákn um þá fegurð og innri hamingju sem persónurnar sækjast eftir enda hvíti liturinn þekkt tákn fyrir frið og hreinleika.
Söguefnið er sótt í raunveruleikann en hefur verið mótað og lagað til svo það falli inn í þá samsetnngu sem vel spunnin saga er. „Ég hef þetta úr ýmsum áttum, bæði úr minni eigin fjölskyldu og víða annars staðar frá. Sem skáld yrki ég þarna inn á milli til að binda þetta saman og gefa þessu réttan blæ. Þegar ég var að skrifa barnabækurnar um Afa ullarsokk þá byggði ég þær dálítið á minni æsku, ég notaði til dæmis pabba minn í nokkrar persónur og frænda minn í nokkrar aðrar persónur. Systurnar tvær í „Lökin í golunni“ eiga sér ekki beinar fyrirmyndir úr minni fjölskyldu heldur eru þær búnar til úr alls konar aðstæðum og fólki.“
Kristján minnir á að engar tvær manneskjur upplifi raunveruleikann á sama hátt og því hafi hver manneskja ávallt sína sögu af segja frá sömu atvikum og aðrir hafa upplifað. Enginn möguleiki sé á því að tvær manneskjur upplifi sömu aðstæður eins. Þess vegna sé munurinn á sannri sögu og skáldsögu sjaldan augljós.
Fjölbreyttur ferill og margt í pípunum
Kristján Hreinsson er þekktastur fyrir kveðskap og dægurlagatexta en hann er afskastamikill rithöfundur og „Lökin í golunni“ er ellefta skáldsaga hans. Sumar skáldsagnanna eru fyrir börn, aðrar fyrir fullorðna. Hann er líka nýbúinn að gefa út ljóðabók og barnabók og það er margt framundan.
„Ég á núna að minnsta kosti sex óútgefnar skáldsögu sem eru að mestu leyti fullgerðar og hausinn á mér er stútfullur af hugmyndum. Ég á mjög margt ósagt. Sagnfræði og heimspeki eru mér hugfólgnar greinar og það er ljóst að það eiga eftir að koma út eftir mig fleiri sögulegar skáldsögur.“