Þrándur Þórarinsson listmálari stendur fyrir listasýningunni Gasalega lekkert en hún hefst á laugardaginn í Gallery Port á Laugavegi. Málverk eftir Þránd sem verður á sýningunni hefur vakið mikla athygli.
Umrætt málverk er af Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að kyssa hringinn á Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja.
„Ég hef fengið mikil viðbrögð, þetta vakti mikla athygli. Ég hef sjaldan fengið jafn mikil viðbrögð við mynd,“ segir Þrándur í samtali við DV en Bjarni og Þorsteinn hafa sjálfir ekki haft samband við hann. „Ég er alltaf að bíða eftir því að þeir setji sig í samband.“
Myndin er til sölu og óskar Þrándur eftir tilboðum í hana. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem málverk hans vekja umdeilda athygli en hann er einnig maðurinn á bakvið verk á borð við Nábrókar-Bjarna og Klausturfokk.
Eins og áður kom fram hefst sýningin nú á laugardaginn 3. júlí en hún stendur allt til fimmtudagsins 15. júlí. Hægt er að lesa meira um sýninguna hér.