Einkaþjálfarinn, fjölmiðlamaðurinn og rithöfundurinn Egill „Gillz“ Einarsson er þekktur fyrir að vera séður í tekjuöflun og ekki síður fjárfestingum. Auk verkefni í fjölmiðlum á hann og rekur fjarþjálfunarfyrirtækið Fjarþjálfun.is þar sem færri komast að en vilja að æfa undir handleiðslu vöðvatröllsins.
Fréttablaðið greindi frá því í lok árs 2019 að Egill hefði keypt tvær íbúðir á Ásbrúarsvæðinu og leigði þær út. Í skriflegu svari til Fréttablaðsins á sínum tíma leysti Egill frá skjóðunni um hver galdurinn væri að byggja upp eignasafn en hann fælist í reglusemi og aðhaldi.
Það er greinilegt að þessi lífspeki er að virka vel því að fasteignaveldi Gillz heldur áfram að tútna út.
Síðan umfjöllun Fréttablaðsins birtist hefur Egill bætt við fimm íbúðum á Ásbrú í eignarsafn sitt auk þess sem hann keypti nýlega íbúð í Þorlákshöfn, heimabæ nýkrýndra Íslandsmeistara í körfubolta sem getur varla en hækkað fasteignaverð. Áætla má að verðmæti eignasafns Egils sé vel á annað hundrað milljónir króna og herma heimildir að hann sé hvergi nærri hættur fjárfestingum.
Á Egill nú þrjár íbúðir í húsi við Lindarbraut á Ásbrú, tvær við Grænásbraut og tvær til viðbótar við Vallhallarbraut í gegnum eignarhaldsfélag sitt. Eignin á Þorlákshöfn er í fjölbýlishúsi við Sambyggð og því er ljóst að Egill hefur í nógu að snúast við að halda utan um öll þau 25 kílóa járn sem hann er búinn að fleygja út í eldhafið.