fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Jón Viðar hakkar í sig Kötlu – Baltasar enginn Bergman og gefur tvo af tíu í einkunn

Fókus
Laugardaginn 19. júní 2021 10:20

Samsett mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einn helsti leiklistargagnrýnandi þjóðarinnar til margra ára, Jón Viðar Jónsson, er þekktur fyrir að synda á móti straumnum. Í færslu sem birtist á Facebook-síðu hans í gærkvöld, fer hann yfir sjónvarpsþættina Kötlu, en hann er ekki parsáttur með þá.

Katla er íslensk vísindaskáldskaparsería sem er nú sjáanleg á Netflix. Það eru þeir Baltasar Kormákur og Sigurjón Kjartansson sem standa á bak við seríuna, en þau Börkur Sigthorsson og Thora Hilmarsdóttir sáu um leikstjórn ásamt Baltasar.

Jón Viðar segist hafa eytt kvöldi sautjánda júní í að horfa á þættina, en tekur fram að hann hefði getað eytt því betur. Hann segir seríuna vera „einhvern mesta fyrirgang sem sést hefur í íslensku sjónvarpi“ og segir hið mannlega drama ekki ná máli. Þá spyr hann hvort Baltasar sé farinn að líta á sjálfan sig sem einhverskonar sálfræðileikstjóra, líkt og Ingmar Bergman, þar sem að þættirnir séu steypa.

Þá segir Jón að honum hafi hreinlega verið farið að finnast þættirnir fyndnir þegar leið á, og segir þá ágætis uppistöðu í næsta áramótaskaup.

Jón Viðar gefur þó einhver hrós, og það sérstaklega til leikara þáttanna. Hann minnist sérstaklega á frammistöðu hins unga Hlyns Harðarsonar, sem hann segir hafa verið svakalega góðan.

Í lok greiningar sinnar gefur Jón Viðar seríunni einkunn. Á skalanum einum til tíu gefur hann tvist, og eina og hálfa stjörnu af fimm. Hann segir sorglegt að sjá „svona mikilli fagkunnáttu og svona miklum fjármunum sóað í svo lítilfjörlegt efni“. Hann segist hreinlega þurfa að horfa á eitthvað skemmtilegra að þessu loknu.

„Jæja, þá er maður búinn að sjá nýjustu afurð íslenskrar kvikmyndalistar, Kötlu eftir Baltasar Kormák. Varði þjóðhátíðarkvöldinu í það, en hefði sannarlega getað varið því betur, því að þetta er einhver mesti fyrirgangur sem sést hefur í íslensku sjónvarpi. Hávaðinn ærandi, tónlistin yfirþyrmandi (fín út af fyrir sig en herfilega ofnotuð), gosdrunur, læti í vélum, það var lítið eyrnagaman að láta þetta bylja á hlustum. Leikmynd og myndataka auðvitað smart eins og við er að búast – en til hvers er að vera smart ef hið mannlega drama nær ekki máli – og því fer víðs fjarri að það geri það hér.

Ef Baltasar væri nú bara að segja spennandi sögu með tilheyrandi eðlilegum og sjálfsögðum klisjum, en nei, onei, nú virðist Balti telja sig vera orðinn sálfræðileikstjóri, svona eins og Ingmar Bergman (kannski Berman afturgenginn úr jökulsprungu?! – þetta síðasta á að vera djók en það skilst ekki nema þið hafið haft ykkur í gegnum þessa steypu) því að steypa er það. Á vefnum imdb.com eru ýmis ágæt komment frá almennum áhorfendum, flest mjög krítísk, það er ekki síst þunglamaleg sagan sem menn kvarta undan, sumum finnst þetta alls ekki heldur vera nóg efni í þetta langa sjónvarpsseríu og er sjálfsagt hægt að taka undir það. En ég verð að bæta því við að þegar nær dró lokum var mér hreinlega farið að finnast þetta fyndið, og það flögraði iðulega að mér að hér væri komin ágætis uppistaða í næsta áramótaskaup, þá gjarnan með tengingu við Reykjanesgosið: allir væru rorrandi í einhvers konar gosvímu, mætandi sjálfum sér eða sínum nánustu á ýmsum aldursskeiðum og útgáfum, ég er viss um að snjallir sjónvarpskómíkerar gætu fengið eitthvað út úr þeirri hugmynd.

Síðasti þátturinn, þegar höfundurinn hnýtir loks saman þræðina sem hafa verið að þvælast hver um annan í fyrri þáttum, er svo stórkostlegt melódrama að leitun er á öðru eins, jafnvel í hinni fábrotnu og á margan hátt ófrumlegu kvikmyndamenningu okkar Íslendinga.

Um hinn leikræna þátt er í sjálfu sér ekki nema gott að segja, leikendavalið er vel heppnað, gaman að sjá ný og nýleg andlit innan um þau gömlu, þó að nóg sé löngu komið af þeim ágætu leikurum, Þorsteini Bachmann og Ingvari E. í áþekkum rullum. Einn leikari kom raunar virkilega og ánægjulega á óvart, og það er litli drengurinn, Hlynur Harðarson, sem mun hafa leikið einu sinni áður í bíómynd, hann var bara alveg svakalega góður í sínu hlutverki – sem er extra lofsvert þar sem sá þáttur myndarinnar er í meira lagi götóttur í handriti. Það er út af fyrir sig kúnst að ná fram góðum leik hjá börnum, svo að leikstjórinn má vel fá stjörnu fyrir það.

Ef ég ætti að gefa þessari mynd einkunn eins og þeir gera á imdb.com þá myndi hún fá 2 á skalanum 1 til 10, og ekki nema eina og hálfa stjörnu. Það er sorglegt að sjá svona mikilli fagkunnáttu og svona miklum fjármunum sóað í svo lítilfjörlegt efni. Og maður þarf helst að fa ser góðan skammt af einhverju sem er skemmtilegt og manneskjulegt og trúverðugt og grípandi til að jafna sig; fyrir mína parta ætla að halda áfram með The Kominsky Method, þar sem Michael Douglas hinn óviðjafnanlegi fer á kostum, eða hina hugljúfu sápu Virgin River. Báðar á Netflix – og mér er alveg sama þó þær séu amerískar!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér
Fókus
Fyrir 2 dögum

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur