Páll Óskar, Bríet og Herra Hnetusmjör munu troða upp á tónlistarhátíð Kótelettunnar sem haldin verður á Selfossi dagana 9. – 11. júlí. Hátíðin hefur aldrei verið glæsilegri en hátt í 20 tónlistarmenn- og konur munu koma fram á tveim sviðum.
Auk þeirra þriggja munu Stuðlabandið, Sprite Zero Klan, Love Guru, GDRN ásamt hljómsveit, Jói Pé & Króli, DJ Rikki G auk fjölda annara stíga á stokk á hátíðinni.
„Við erum mjög ánægð með valið á listamönnum. Þetta er fjölbreyttur og flottur hópur listamanna sem mun stíga á svið. Eftirvæntingin er gríðarleg,“ segir Einar Björnsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.
Kótelettan er nú haldin í ellefta skipti. Hátíðin átti að fara fram dagana 11.-13. júní næstkomandi en í ljósi gildandi sóttvarnalaga var ákveðið að færa hana aftur um einn mánuð til 9. til 11. júlí þegar, samkvæmt áætlun stjórnvalda, á að vera búið að aflétta öllum takmörkunum innanlands. Miðasala á hátíðina hefst í dag klukkan 18:00 á www.kotelettan.is þar sem einnig verður hægt að nálgast nánari upplýsingar og dagskrá hátíðarinnar í ár.