Í mars 2017 fór Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, formaður Samtaka um líkamsvirðingu, í viðtal hjá Sindra Sindrasyni á Stöð 2. Viðtalið var afar umdeilt og reyndust eftirköst þess mjög erfið fyrir Töru Margréti. Hún greinir frá þessu í forsíðuviðtali nýjasta tölublaði Vikunnar.
Tara Margrét segir að fyrir viðtalið hefðu hún og Sindri farið yfir spurningarnar sem hann ætlaði að spyrja hana.
„En í útsendingunni fór hann út fyrir handritið og spurði mig allt annarra spurninga en ákveðið hafði verið. Á einum tímapunkti spurði hann hvort fordómarnir komi ekki innan frá og ég ákvað bara að nota það sem ég hafði lært á ráðstefnunni, að við fæðumst fordómalaus en það sé samfélagið sem kenni okkur staðalímyndirnar og fordómana. Og ef þú þekkir ekki ákveðna tegund fordóma eða kannast ekki við þá er það vegna þess að þú hefur ekki orðið fyrir þeim og þar af leiðandi ertu í forréttindastöðu. Ég svaraði honum á þá leið að svona spurning geti bara komið frá manni í forréttindastöðu en Sindri tók það til sín persónulega og taldi meðal annars upp að hann væri hommi. Í geðshræringunni náði ég ekki almennilega að útskýra hvað ég ætti við,“ segir Tara Margrét í Vikunni.
Viðtalið má sjá hér að neðan.
Tara Margrét segir að við hefði tekið fjölmiðla- og samfélagsmiðlastormur sem var ellefu daga að ganga yfir. „Ég skil að þetta hafi komið illa út í fyrstu en það var auðvitað bara vegna þess að ég fékk ekki tækifæri til að útskýra almennilega hvað forréttindastaða væri og fólk vissi ekkert hvað ég átti við. Ég man að ég hélt að lífi mínu væri lokið því umræðan var þannig.“
Hún segir að feitt fólk hafði samband við hana eftir viðtalið og sagðist hafa hringt sig inn veikt í vinnu í kringum þetta því það þorði ekki út úr húsi. „Það upplifði heiminn ekki öruggan. Ég held samt að þetta hafi þurft að koma upp og þegar ég horfi til baka finnst mér þetta hafa verið þess virði, því þarna hófst umræða um forréttindi og fitufordóma.“
Tara segir að umræðan hafi loksins byrjaði að snúast við eftir að hún svaraði fyrir sig í pistli sem vakti mikla athygli.
Þú getur lesið viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.