fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fókus

Sakamál – Furðulegt mál drengs sem var ákærður fyrir að skipuleggja sitt eigið morð

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 15. maí 2021 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hæfileikaríkir skáldsagnahöfundar ættu erfitt með að finna upp á söguþræði sem þeim sem átti sér stað í þessu máli,“ sagði dómarinn David Maddison í Manchester, Bretlandi, þegar hann í maí árið 2004 dæmdi í einu furðulegast máli sem hafði komið inn á borð til hans frá upphafi.

Stunguárás í húsasundi

Árið var 2003. Sunnudaginn 29. júní hringdi hinn sextán ára gamli Mark í lögregluna í Manchester. Hann sagði að besti vinur hans, John hefði verið stunginn af óþekktum aðila í afskekktu húsasundi. Þegar lögreglu bar að gerði var John fluttur á gjörgæslu með tvö stungusár, annað mjög djúpt sem hafði skaddað nýru hans og lifur. Læknum tókst að bjarga lífi hans en John þurfti þó að dvelja í viku á sjúkrahúsinu undir eftirliti.

Lögregla hóf samstundis að rannsaka árásina. John var aðeins fjórtán ára gamall og vakti það óhug í samfélaginu að þar gengi laus maður sem réðist með slíkum hætti að barni. Fljótlega fóru þó að renna tvær grímur á rannsakendur. Eftirlitsmyndavélar nærri húsasundinu sýndu aðra mynd en Mark hafði lýst. Þar hafði nefnilega enginn óþekktur maður verið á ferðinni heldur aðeins drengirnir tveir.

Rannsóknin fór því að beinast gegn Mark, sem var ítrekað yfirheyrður en gaf alltaf upp mismunandi atburðarás og það sem lögregla gróf upp í kjölfarið leiddi í ljós nokkuð sem enginn hafði getað látið sér detta til hugar og varð til þess að John, þolandi árásarinnar, var einnig ákærður.

Ég elska þig gaur

Mark og John eru tilbúin nöfn, dulnefni, þar sem drengirnir tveir voru ólögráða og nöfnum þeirra því haldið frá fjölmiðlum til að vernda friðhelgi þeirra. Nöfnin Mark og John festust við málið eftir grein sem birtist í Vanity Fair þar sem ítarlega er farið yfir atburðarásina.

Það var Mark sem stakk John þennan örlagaríka dag. Þeir höfðu mælt sér mót í verslunarmiðstöð þar sem Mark keypti hníf og bað hann John um að velja hann. Mark fannst einhvern veginn þægilegra að hugsa til þess að John hefði sjálfur valið hnífinn sem yrði síðar stungið inn í hálfstálpaðan líkama hans. Mark vissi hvað hann þyrfti að gera en hann var þó kvíðinn.

Honum var óglatt og hann svimaði svo drengirnir fengu sér sæti. Mark reyndi að útskýra fyrir John hvernig honum liði og sagði að hann gæti þurft að gera svolítið þennan dag. John sagði ekkert.

Síðan fóru þeir inn í húsasund þar sagði Mark við John að hann yrði að drepa hann. Þar eyddi drengirnir yfir klukkustund þar sem Mark hélt hnífnum upp að John og sagði „Þú verður að leyfa mér að gera þetta“. Mark lýsti stundinni síðar með eftirfarandi hætti: „Ég var ekki við stjórnina. Mér leið ekki eins og ég væri ég. Ég setti hnífinn að maga hans og þrýsti. Hnífurinn fór inn og það byrjaði að blæða í gegnum bolinn hans. Ég faðmaði hann þar sem ég vildi ekki meiða hann. Síðan stakk ég hann aftur.“

„Ég elska þig gaur,“ sagði Mark við John áður en hann stakk hnífnum á kaf í maga hans. John veinaði af sársauka.

„Hringdu á sjúkrabíl! Ég er að deyja,“ öskraði John.

Uss….Fólk gæti heyrt í þér, gerðu það hafðu hljótt,“ svaraði Mark.

„Þú hefur drepið mig,“ sagði John þá og Mark svaraði: „Ekki segja þetta. Ekki láta þetta vera það seinasta sem þú segir.“

Aldrei á meðan á árásinni stóð sagði John leynikóðann „6969″ sem hefði þó getað komið í veg fyrir stunguna. Tuttugu mínútum síðar fjarlægði Mark hnífinn úr maga Johns og hringdi á sjúkrabíl. Hann treysti sér þó ekki til að greina yfirvöldum frá því að hann hafi verið að verki, eða hvers vegna hann hafði gert það. Enda hefði verið erfitt fyrir lögreglu að trúa frásögn hans.

Tilbúið líf á spjallrásum

Hvað gæti staðið að baki því að unglingsdrengur ráðist á sinn besta vin með þessum hætti og hvers vegna endaði John með að vera ákærður í málinu? Til að svara því þarf að horfa nokkuð aftur í tímann.

John var afburðagreindur drengur en var utangarðs í skólanum og hafði orðið fyrir einelti. Hann hafði því leitað á náðir Internetsins til að eignast vini. Það nægði honum þó ekki og stundaði hann það að búa til gerviaðganga að spjallrásum, bjó þar til persónur sem hann lék og skapaði þeim ólíkan bakgrunn, persónuleika og talsmáta – með mjög sannfærandi hætti.

Það var á einni slíkri spjallrás sem hann kynntist Mark í febrúar 2003. Einmitt þá var John að leika hlutverk 16 ára stúlku sem var í leit af ástarsambandi. Mark og þessi tilbúna stúlka hófu stafrænt samband en fljótlega varð John ljóst að tilfinningarnar sem hann fann fyrir voru enginn skáldskapur. Hann byrjaði því líka að tala við Mark sem hann sjálfur. En hann lét ekki þar við numið. Hann skapaði persónu á eftir persónu til að tala meira við Mark, bæði sem stelpur og strákar. Hann fékk meira að segja Mark til að senda kynferðislegar myndir og myndskeið í þeirri trú að það væri stúlka sem væri að taka við sendingunum.

En John varð fljótlega afbrýðisamur ef Mark sýndi kvenkynspersónum hans áhuga og þurftu þær því að hverfa. Rachel var ein persónan og hún var „myrt“ eftir að hafa verið beitt hrottalegu ofbeldi. Að sjálfsögðu var það gerandi hennar sem greindi Mark frá morðinu – sem var enn ein manneskjan sem John hafði búið til. Önnur kona var Lindsay og þegar Mark varð ástfanginn af henni þá lenti hún líka í hræðilegum aðstæðum og féll í dá.

Sjö kíló af samskiptum

Allt í allt þurfti lögregla að fara yfir 133 gígabæt af samskiptum sem útprentuð voru rúmlega sjö kíló af þyngd. Sérfræðingar sem fóru yfir samskiptin sögðu að þetta væri ótrúlega útpælt. Persónurnar voru sannfærandi, höfðu sín eigin einkenni og John tókst að halda utan um þetta allt saman þótt að persónurnar væru farnar að hlaupa á tugunum.

Það var þó örlagavaldur þegar John bjó til persónuna Janet DobinsonJanet þessi var fertug frá London og hún útskýrði fyrir Mark að hún væri að vinna fyrir bresku leyniþjónustuna og sagði honum frá ævintýralegum sögum úr starfinu. Hún sagði að Bretland þyrfti þjónustu Marks og hann væri nú orðinn njósnari hennar hátignar með leyfi til að drepa.

Til að sanna sig sem njósnari þyrfti hann að myrða John.

Sá enga leið út 

Þegar þarna var komið til sögu voru John og Mark búnir að hittast í raunheimi og voru vinir. En John vildi vera meira en vinur Marks og varð þunglyndur af óendurgoldinni ást, og var orðinn alvarlega háður Internetinu. Allt lífið hans var á netinu og það var allt lygi. Honum fannst hann vera orðinn fangi Internetsins og sá enga leið út úr því, sérstaklega ekki leið út úr því þar sem hann þyrfti ekki að missa Mark.

Janet útskýrði fyrir Mark að John væri með heilaæxli sem væri banvænt og jafnframt væri það nauðsynlegt í þágu þjóðaröryggis að John myndi deyja. Að launum fengi Mark gífurlega fjárhæð í laun auk þess sem Janet ætlaði að veita honum kynferðislega greiða. Eins yrði ferill Marks í leyniþjónustu hennar hátignar tryggður.  Mark þyrfti að drepa John og hann þyrfti að segjast elska hann á meðan hann gerði það.

Janet tók þó fram að ef John eða einhver annar kæmi og segði leyniorðið „6969″ þá ætti Mark að stoppa og hætta við.

John notaði þó aldrei kóðann þegar á hólminn var komið.

Eftir að þetta allt kom í ljós við rannsókn lögreglu var ljóst að John hafði sjálfur skipulagt árásina. Hann var því ákærður fyrir að hvetja til morðs og fyrir að hindra lögreglurannsókn.

Hann var dæmdur í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi og bannað að hafa samband við Mark eða nota Internetið án eftirlits.

Mark fékk tveggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir tilraun til manndráps og var meinað að hafa samband við John.

„Ég hef verið auli,“ sagði Mark í dómsalnum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja

Óvænt heimsókn til ömmu slær í gegn meðal netverja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu

Söngkonan Xenna syngur lög Taylor Swift í Hörpu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“

Bragi Valdimar varpar fram tilllögum að nýju nafni fyrir „Singles Day“