Undir yfirborðið eru þættir á Hringbraut í umsjón Ásdísar Olsen og fjallar um lífsspeki, sálarlíf, mannlega möguleika og leitina að hamingjunni.
Í næsta þætti ræðir Ásdís við Áslaugu Öddu Maríusdóttur, unga konu sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi og lýsir reynslu sinni.
„Það er komið að því að hlusta á konur sem hafa orðið fyrir nauðgun og yfirgangi ofbeldisfullra karla og spyrja þær hvernig þeim líður, hvað þær þurfa og hvað við getum gert til að hjálpa!,“ segir á Facebook-síðu þáttarins.
Undir yfirborðið hefur birt stutt brot úr næsta þætti þar sem Áslaug opnar sig um reynslu sína. Þar segir hún það erfitt að halda áfram eftir að hafa lent í kynferðisofbeldi.
„Það er ömurlegt að finnast þú svo ógeðsleg og hata sjálfa þig svo mikið að þú vilt bara skaða sjálfa þig af því að þú átt ekkert gott skilið. Og þú berð enga virðingu fyrir sjálfri þér, því af hverju ættir þú að bera virðingu fyrir sjálfri þér? Enginn annar ber virðingu fyrir þér. Af hverju ætti ég að hugsa vel um sjálfa mig og bera virðingu fyrir mér þegar það er komið svona fram við mig. Mig langar ekki að vera í þessum líkama og mig hefur oft ekki langað til að lifa vegna þess að það er bara erfitt að halda áfram.“
Ásdís Olsen auglýsir eftir konum sem eru tilbúnar að koma fram og tjá sig um reynslu sína og hafa ráð til þeirra sem vilja hjálpa.
„Mig langar ekki að vera í þessum líkama og oft langar mig ekki til að lifa,“ segir Áslaug Adda Maríusdóttir í þessu…
Posted by Undir yfirborðið on Sunday, May 9, 2021