fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fókus

Sakamál – Óleysta ráðgátan á bak við Thomas Brown-hvarfið

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 8. maí 2021 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Thomas Brown var ungur maður, aðeins 18 ára gamall, vinsæll og vinmargur, þegar hann hvarf þann 23. nóvember árið 2016. Mál hans hefur vakið mikla athygli seinustu ár, sérstaklega eftir að líkamsleifar hans fundust árið 2019.

Hvað gerðist þessa örlagaríku nótt? Sumir telja að Thomas hafi, líkt og því miður er alltof algengt meðal ungra hvatvísra manna, framið sjálfsvíg. Enn fleiri telja þó að Thomas hafi verið myrtur, og að lögreglan í smábænum Canadian í Texas-ríki Bandaríkjanna hafi klúðrað málinu svo svakalega að það hljóti að vera viljaverk.

Kvöldið örlagaríka. 

Thomas Brown bjó í bænum Canadian með móður sinni Penny, stjúpföður Chris og bróður sínum Tucker. Það var ekkert drama á heimilinu umfram hefðbundnar uppákomur sem fylgja gjarnan táningum. Thomas var vinmargur og vinsæll í skólanum en gætti þess ávallt að vera kominn heim fyrir miðnætti til að valda móður sinni ekki áhyggjum.

Þennan örlagaríka dag hafði Thomas, kallaður Tom, líkt og svo oft áður farið út að hitta vini. Hann fór á rúntinn, greip sér skyndibita, hlustaði á tónlist og spjallaði við vinina. Allt í allt afar hefðbundinn dagur. Tom var kátur, þrátt fyrir að hafa nýlega slitið sambandi við kærustu sína og ekkert benti til þess að hann væri að hugsa um að skaða sjálfan sig.

Klukkan 23:00 um kvöldið skilaði Tom vinum sínum til sinna heima og fór í kjölfarið á bensínstöð til að dæla bensíni á bílinn. En hann skilaði sér ekki heim í kjölfarið.

Móðir hans Penny reyndi að senda honum skilaboð rétt eftir miðnætti þar sem hann var þá orðinn of seinn heim. Hún sá að skilaboðin höfðu borist honum en fékk ekkert svar. Nokkru síðar reyndi hún aftur en fékk þá tilkynningu um að móttakandi skilaboðanna væri með slökkt á símanum.

Þá stökk Penny með manni sínum út í bíl og ók um hverfið í leit að Tom. Þegar sú leit skilaði ekki árangri höfðu þau samband við lögreglu sem sendi lögreglumann á svæðið. Sá maður var Pyne Gregory og tók hann Tucker, bróður Toms, með sér í bílinn og óku þeir aftur um svæðið og svipuðust um eftir jeppanum sem Tom keyrði. Á þessari ferð benti Tucker lögreglumanninum á hlið nokkuð sem vanalega var læst, en var nú opið. Pyne sagðist þá ekki hafa tíma þar sem vakt hans væri búin.

Morguninn eftir höfðu fréttirnar um hvarf Toms borist um bæinn og margir buðu fram aðstoð sína við leitina. Meðal þeirra var einn vinur Toms sem fékk föður sinn til að kempa svæðið á þyrlu sinni. Þá fundu þeir jeppann.

Jeppinn á afskekktum stað 

Lögregla var kölluð til og skoðaði jeppann. Þar fundu þeir smá blóðslettu og sáu að persónulegar eigur Toms voru ekki í bílnum, þar á meðal fartölva hans, sími, bakpoki og fleira. Það sem undarlegt er þó við þessa vettvangsrannsókn er, og hefur vakið grunsemdir margra, er að enginn réttarmeinafræðingur var kallaður til, engir hanskar voru notaðir við rannsóknina, enginn sýni voru tekin úr þvagpoll sem var við bílinn og var bílinn afhentur fjölskyldu Toms þennan sama dag. En slíka hraða úrvinnslu hefur lögreglan í gegnum tíðina ekki verið þekkt fyrir.

Lögregla hafði þó fyrir því að skoða farsímagögn og komst að því að sími Toms hafði seinast tengst farsímaneti skömmu eftir miðnætti nálægt ruðningsvelli í margra kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem jeppinn fannst. Eins létu þeir leitarhunda leita á svæðinu í kringum jeppann sem rakti slóð Toms að á sem rennur þar í nágrenninu. En þar týndu þeir slóðinni.

Strax þennan sama dag greindi lögregla fjölskyldu Toms frá því að líklega hefði Tom tekið eigið líf, þrátt fyrir að ekkert lík hefði fundist. Annar möguleiki væri að hann hefði látið sig hverfa. Nokkrum mánuðum eftir að Tom hvarf merkti lögregla Tom sem strokubarn.

Blóðslettur sem lögreglan skoðaði ekki

Þetta vildi fjölskylda Toms ekki sætta sig við og réðu sjálfstæða rannsakendur í málið. Þeir rannsökuðu jeppann nánar og framkvæmdu skoðun með efninu lúminól sem lætur blóðbletti lýsast upp í útfjólubláu ljósi. Sú rannsókn sýndi fram á margar blóðslettur í bifreiðinni. Aðalrannsakandinn, Philip Klein, gerði þessa rannsókn síðar opinbera og sagði í viðtali að hann vildi að almenningur fengi að vita að hér væri ekki um sjálfsvíg að ræða.

„Við viljum að almenningur viti að þetta var ekki sjálfsvíg. Það var eitthvað sem gerðist þetta kvöld og einhver sem ber ábyrgð á því.“ Hann sagði enn fremur: „Við viljum að morðinginn viti hvað við vitum. Við viljum að hann viti að við erum að rannsaka málið. Við viljum að hann eða hún viti að þú kemst ekki upp með morð. Við viljum að hann viti að við erum á eftir honum.“

Rannsókninni miðaði þó ekkert áfram, hvorki hjá lögreglunni né Klein.

Bakpokinn finnst en lögregla heldur sig við strok-kenninguna

Í febrúar 2017 fannst bakpoki Toms um sex kílómetrum frá staðnum sem sporhundarnir töpuðu slóð hans, á sveitaveg sem bæjarbúar kalla Lake Marvin-veginn. Í töskunni var fartölva hans ásamt öðrum persónulegum eigum, en ekki sími hans. Bakpokinn fannst á þannig stað að ómögulegt þótti annað en að hann hefði viljandi verið skilinn þar eftir.

Það sem þótti undarlegra var að til að skilja bakpokann eftir einmitt á þessum stað hefði Tom þurft að ganga um sex kílómetra frá jeppa sínum, í myrkri, í gegnum mýri, yfir straumþunga á og í gegnum þéttann gróður. Annar möguleikinn var að Tom hefði gengið með fram götunum en þá hefði þetta verið 12 kílómetra ganga.  Samkvæmt gögnum úr eftirlitsmyndavélum hafði Tom lagt jeppa sínum þar sem hann fannst um klukkan sex um morguninn og aðeins nokkrum tímum síðar var hafinn fjölmenn leit af honum. Hann hefði því aðeins haft um klukkustund til að ganga þessa 12 kílómetra áður en sólin var komin upp og bæjarbúar farnir að leita hans.

Og hvers vegna hefði Tom átt að skilja pokann eftir einmitt þarna? Ef hann strauk að heiman hefði hann þá ekki viljað hafa eigur sínar með sér?

Lögregla tilkynnti fjölmiðlum í kjölfarið að þessi fundur breytti því ekki að enn væri gengið út frá því að Tom hafi strokið að heiman. Þetta var Klein óánægður með sem ákvað að stíga opinberlega fram og gagnrýna vinnubrögð lögreglu og koma skýrt fram þeirri trú sinni að um morðmál væri að ræða. Hann lét einnig í ljós að hann teldi að morðinginn hefði þekk til Toms.

Leita að sökudólg

Bæjarbúar fylgdust agndofa með þróun mála og margar kenningar fóru af stað um hver gæti hafa viljað sjá Tom dauðan.  Einhverjir töldu að Michael Caseltine, vinur Toms, væri morðinginn. Það hefði nefnilega sést til hans stundum að reykja kannabis.  Michael var ennfremur með fjarvistarsönnun. Annar sem var nefndur var Chris nokkur sem var ruðningsmaður með sögu um skapofsa.

Einhver hringdi í fógetann og sagði að Tom hefði verið sprautaður með sýru og gerandinn væri meðlimur í glæpahóp sem væri umfangsmikill í fíkniefnaheiminum. Önnur ábending barst um að Tom hefði verið myrtur af hjónum sem væru að selja amfetamín þar sem hann hefði séð til þeirra.  Enn aðrir töldu að Tom væri enn á lífi og töldu sig sjá hann á hverju götuhorni.

Rannsókninni miðaði þó ekkert áfram og í júlí 2017 steig Penny, móðir Toms, fram á blaðamannafundi og lýsti því yfir að hún hefði glatað öllu trausti til lögreglunnar í Canadian og vildi að ríkissaksóknari tæki við rannsókninni.

Tom og móðir hans, Penny

Sími sem ekkert gat grandað

Næsta vísbending í málinu kom haustið 2017 þegar Klein barst ábending frá nafnlausri manneskju um að lík Toms væri að finna nálægt Lake Marvin-veginum þar sem bakpokinn hafði fundist. Klein skipulagði því leit með fjölda sjálfboðaliða. Ekki fannst neitt lík en hins vegar fannst iphone sími af sömu gerð og Tom átti. Síminn var óskemmdur, þrátt fyrir að um ár væri liði síðan Tom hvarf og svæðið sem hann fannst á hafði verið slegið með sláttuvél nokkrum sinnum síðan þá. Klein taldi ljóst að þessi sími gæti ekki verið síminn hans Toms. Penny staðfesti það þar sem liturinn væri ekki réttur.

Það kom þó mörgum á óvart þegar lögregla gaf út í janúar 2018 að síminn hafi verið rannsakaður og hafi vissulega tilheyrt Tom. Þetta þótti afar dularfullt. Hafði einhver geymt símann í nærri ár og svo losað sig við hann þarna?

Grunsamlegi fógetinn

„Ég var sleginn,“ sagði Klein í viðtali. Hann ásamt teymi hans komst að þeirri niðurstöðu að einhver innan lögreglunnar hlyti að hafa komið símanum fyrir þarna og líklegastur væri sjálfur fógetinn, Nathan LewisKlein hafði aldrei treyst Nathan. Fógetinn hafði verið þekktur fyrir að áreita ungmenni og meðal annars hafði móðir Toms, Penny, lagt fram formlega kvörtun gegn honum eftir að hann gekk fram með offorsi gagnvart Tom ári áður en hann hvarf. Það var einnig Nathan sem stóð fyrir því að jeppi Toms var ekki færður til rannsóknar hjá lögreglu heldur skilað til fjölskyldunnar. Klein taldi jafnvel að Nathan væri viljandi að spilla rannsókninni.

Klein

Það hafði líka truflað Klein að Nathan neitaði þeirri beiðni að líkfundarhundur yrði fenginn til að þefa af bakpokanum þegar hann fannst. Hvers vegna ekki? Hafði Nathan eitthvað að fela? Var þetta einu sinni sími Toms sem fannst? Starfsmaður fógetans hafði líka haft samband við Penny skömmu eftir hvarfið til að fá að vita lykilorðið af símanum. Hvers vegna þurfti hann það ef síminn var ófundinn?

Nathan hafði líka komið fram með furðulegar tillögur, eins og að Tom væri samkynhneigður og hefði líklega stungið af með eldri manni eða að hann hefði fyrirfarið sér og móðir hans skammast sín svo fyrir það að hún faldi líkið.

Í febrúar 2018 tók ríkissaksóknarinn yfir málið. Engu að síður hélt fógetaembættið áfram að reyna að hafa afskipti af málinu.

Fundinn undir tré 

Í janúar 2019, klukkan 02:00 um nóttina var Pyne Gregory, lögreglumaður – sá sami og tók þátt í að leita af Tom nóttina sem hann hvarf – að leita af hreindýrshornum um tólf kílómetrum frá staðnum þar sem farsíminn fannst, og áfram skammt frá Lake Marvin-veginum. Gregory var samt enn á vaktinni en ákvað að fara að leita að hreindýrshornum í myrkrinu. Þar undir tré fann hann líkamsleifar – Tom var fundinn.

Ekki var hægt að ákvarða dánarorsök og gat lögregla ekki fundið nein sönnunargögn um morð, eða sönnunargögn um að um sjálfsvíg væri að ræða.

Einhverjir íbúar Canadian bentu á að ekki svo langt frá staðnum þar sem Tom fannst var tjaldsvæði og þar hafði afi hans fyrirfarið sér fyrir löngu síðan. Hann gæti því hafa ætlað að taka eigið líf á sama stað. Penny, móðir Toms, þvertók þó fyrir þann möguleika og sagði Tom ekki hafa vitað um örlög afa síns. Aðrir héldu að Tom hefði jafnvel verið drepinn af villtum hundum eða dáið af náttúrulegum ástæðum án þess að hafa ætlað sér það.

Rannsakendur frá ríkissaksóknara Texas voru komnir í málið og þeir afsönnuðu kenningu rannsakandans Kleins um blóðið í jeppanum. Lúminólið hafi verið að sýna gula málningu sem hafi endað í bílnum eftir að Tom og vinir hans voru að mála veggmynd fyrr um haustið 2016. Á fundi með ríkissaksóknara, fjölskyldu Toms, lögreglumönnum CanadianKlein og fleiri var rannsókn Kleins harðlega gagnrýnd. Sérstaklega sú kenning sem Klein hafði lagt fram að Tom hafi verið myrtur og morðinginn svo ekið um alla nóttina á jeppanum áður en hann losaði sig við hann. „Í smábæ í Texas, þar sem allir þekkja alla, hver myndi myrða einhvern og rúnta svo um á bíl þeirra alla nóttina?,“ spurði einn rannsakandinn.

Nathan Lewis

Ríkissaksóknari komst ennfremur að þeirri niðurstöðu að Nathan Lewis hafi ekkert rangt gert við rannsóknina. Engu að síður, þremur mánuðum eftir þá niðurstöðu, sagði Nathan upp starfi sínu.

Í ljós kom að Nathan var grunaður um brot í starfi, meðal annars að hafa falsað gögn um að starfsmenn hans væru með fullnægjandi þjálfun í starfið. Nathan segir það þó ekki ástæðu uppsagnarinnar og hefur ekki viðurkennt skjalafals. „Ég fékk bara nóg af því að vera látinn ganga í gegnum þetta allt, allar lygarnar og sögusagnirnar og samfélagsmiðlar svo ég sagði bara „Ég er búinn að fá nóg af þessu. Þetta er ekki það sem ég samþykkti að vinna við. Þetta er fáránlegt,“ sagði hann í viðtali.

Ein lífseig sögusögnin er að Nathan eða lögreglumaðurinn Pyne hafi hitt Tom þessa nótt, miðað á hann byssu til að ógna honum en óvart hleypt af. Síðan hafi þeir reynt að hylja spor sín og villa um fyrir rannsókninni.

Nathan hafði líka bent á að gögn úr símanum sem fannst hafi bent til þess að Tom hafi verið að kynna sér sjálfsvíg áður en hann dó. Hins vegar sagði Nathan að það hafi fundist í vafrasögu úr „leyniham“ (e. privacy modenetvafra. En samkvæmt upplýsingum frá Apple er ekki hægt að nálgast slíka vafrasögu.

Nathan hefur líka haldið því fram að móðir Toms, Penny, viti meira en hún hefur látið upp. Jafnvel að hún sé viðriðin hvarfið. „Hún er snarbiluð,“ sagði Nathan í viðtali.

Pyne hefur verið rekinn úr lögreglunni fyrir brot í starfi ótengdu andláti Toms. Gerði það heldur ekkert til að draga úr sögusögnunum.

Það er samt aðeins eitt ljóst. Með hverju árin minnka líkurnar á að sannleikurinn um hvað gerðist þann 23. nóvember 2016 komi nokkurn tímann í ljós.  Hver ók bílnum hans Toms og skildi hann eftir þar sem hann fannst? Hver kom bakpokanum fyrir það sem hann fannst? Og hvernig var síminn í prýðilegu ástandi eftir rúmt ár utandyra og hvers vegna var hann búinn að skipta um lit?

Samkvæmt lögreglunni er líklegasta skýringin að Tom hafi ákveðið að enda líf sitt, þó að ekki sé hægt að skýra hvers vegna hann hafði fyrir því að dreifa eigum sínum á margra kílómetra leið þessa nótt, eða hvers vegna tankurinn á jeppanum var nánast tómur þegar hann fannst þrátt fyrir að Tom hafi fyllt á hann kvöldið áður.

Í huga fjölskyldu Toms og vina er þó önnur trú. Þau trúa því að í smábænum þeirra Canadian gangi morðingi laus. Morðingi sem líklega mun komast upp með ódæðið.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna