5 Uppáhalds „Guilty pleasures“ leikonunnar Sólveigar Guðmundsdóttur eru eins ófyrirsjánlegar og hún sjálf. Sólveig er ekki bara afbragðs listakona heldur er hún lífskúnster af guðs náð. Hún sér fegurð og lúxsus í einföldum hlutum eins og fasteignavefsíðuhangsi og elskar sund og Skeifuna.
Sund
„Ég elska að vera í vatni – hvort sem það er í sundlaug, potti, sjósund eða bara í baði ef það er það eina sem er í boði. Gufubað, svett og gufugusa eru líka þarna meðtalin – þetta er fyrir mér lúxusinn í lífinu.“
Nudd
„Ég er í nautsmerkinu og mikið gefin fyrir að láta mér líða vel. Ég á alltaf bókaða tvo nuddtíma fram í tímann hjá nuddaranum mínum sem ég get ekki dásamað nógu mikið. Það endurstillir mig algjörlega. Einu sinni var ég að sýna leikverk í Kína og það var nuddstofa við hliðina á íbúðinni okkar – þá fór ég 6 sinnum í nudd á 8 dögum. Það var líka alveg stórkostlegt og alls ekkert of mikið!“
Fasteignavefur MBL
„Ég er algjör fasteignaperri – skoða reglulega hvað er í boði, og hvað er spennandi, fylgist með verði , svæðum, og veit alltaf nákvæmlega hvað er í gangi hverju sinni…. Það stuðaði mannin minn svolítið þegar við vorum nýflutt að ég var ennþá alltag að skoða – en ég er meira að þessu bara til að fylgjast með, fá inspírasjón en ekki endilega til að fara og kaupa. Ég slaka bara eitthvað svo á að vafra um fasteignavefinn. Ég var í felum með þetta lengi vel – en hef nú komist að því að ég er langt frá því að vera sú eina sem stunda þetta.“
Grænt Tony’s chocolate
„Nei í alvöru… má þetta bara? Dökkt og möndlur og sjávarsalt.“
Skeifan
„Fátt er betra en að fara skoða í búðir í Skeifunni. Þar er allt til alls – og ég mæli með því að fara þangað þegar það er stormviðvörun – þá er enginnn þar og maður fær frábæra þjónustu alls staðar.“