Tónlistarkonan Berglind Saga Bjarnardóttir, sem gengur undir listamannanafninu Saga B, gefur út tónlistarmyndband í dag sem hún segir vera kynþokkafullt en textinn er skoplegur að hennar sögn. „Mig langaði að gera eitthvað öðruvísi. „Classy, sexy“ og valdeflandi. Þetta var útkoman,“ segir Berglind í samtali við DV.
Berglind hefur vakið mikla athygli undanfarið. Hún er vinsæll áhrifavaldur með yfir 16 þúsund fylgjendur á Instagram. Hún var einnig einn dansaranna í Vikunni með Gísla Marteini síðastliðið föstudagskvöld
Myndbandið er við lagið „Bottle Service“ sem snýst um, eins og nafnið gefur til að kynna, flöskuþjónustu.
„Textinn er um stelpu sem er komin á klúbb og hana langar bara í flösku núna. Innihaldið er svona með húmor eins og flest öll önnur lögin mín, fyndinn texti með góðum „punch lines,““ segir Berglind.
Myndbandið var tekið upp á kampavínsklúbbi í Reykjavík og meðal skrautmuna í myndbandinu var sex hundruð þúsund króna kampavínsflaska.
Berglind segir að það hafi gengið vel að taka upp myndbandið þrátt fyrir að stuttu áður en tökur hófust voru sóttvarnarreglur herrtar – sem eftir á hyggja var jákvætt að hennar sögn.
„Ég horfi á hlutina þannig að það sem á að gerast gerist. Það var fámennt en góðmennt í tökunum. Ég hugsa núna að ef það hefði verið fullt af fólki inni á staðnum þá hefði það ekki verið í takti við „vibe-ið“ í laginu,“ segir hún.
Aðspurð hvort það hafi verið erfitt að fá leikara í myndbandið, þar sem það er í djarfari kantinum, svarar Berglind neitandi. „Þetta er ekki kynferðislegt, þetta er meira svona „classy sexy.““
„Ég byrjaði á laginu í fyrra. Svo var það tilbúið en ég hataði það. Mér fannst ég ekki skila laginu vel og mér fannst ég ekki bera orðin rétt fram og eitthvað. Þannig ég fór í raddþjálfun til þess að vinna aðeins í því. Þetta er stærsta verkefnið mitt til þessa þannig séð. Ég var með risa teymi í þessu miðað við fyrri verkefni. Ég tók til dæmis upp fyrsta myndbandið mitt á símann minn,“ segir hún.
Bottle service lag Sögu B – kemur á Spotify á mánudaginn.
Þú getur hlustað á fleiri lög Sögu B á Spotify og horft á tónlistarmyndbandið hennar við lagið „Can‘t Tell Me Nothing“ hér að neðan.