Ellý Ármannsdóttir, spá- og listakona, og tilvonandi eiginmaður hennar Hlynur Jakobsson tónlistarmaður fóru í ótrúlegar framkvæmdir heima. Hlynur setti upp stúdíó heima hjá sér á einfaldan og töff máta. Hann keypti panel með hljóðeinangrun og hillur í IKEA og úr varð flottur veggur til að skilja að upptökuverið og restina af íbúðinni.
Í samtali við DV segist Hlynur ekki hafa viljað smíða, heldur hafa þetta einfalt og nothæft.
Hlynur var með upptökuhljóðver út í bæ en var að leita að nýju húsnæði og ákvað að færa hljóðverið heim.
Hann keypti panel í Bauhaus sem er einnig hljóðeinangrandi. Hann keypti hillurnar í IKEA og setti saman. Síðan setti hann panelana fyrir hillurnar sem nýttust vel inn í upptökuverinu.
„Á þessum panelum er hljóðeinangrun. Það eru til alls konar litir,“ segir hann og bætir við að þessir panelar séu svo flottir að það er alveg eins hægt að setja þá á vegg sem list.
Hlynur segir að þetta svínvirki og hann sé mjög ánægður með útkomuna.