fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

Hildur Sverris um frjósemismál og hvaða upplýsingar hún vill að allar konur hafi

Tobba Marinósdóttir
Sunnudaginn 11. apríl 2021 08:00

Hildur Sverrisdóttir. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Sverrisdóttir lögfræðingur og varaþingmaður hefur kynnst því af eigin raun að það er ekki sjálfgefið að eignast barn. Hún bendir á mikilvægi þess að konur hafi réttar upplýsingar um hvað standi þeim til boða og að kerfið sé ekki óþarflega flókið.

„Ég var alltaf með þá hugmynd að ég myndi eignast börn og lengi vel gekk ég út frá því að ég myndi eignast fleiri en eitt barn,“ segir Hildur, sem hefur reynt að eignast barn ásamt sambýlismanni sínum Gísla Árnasyni án árangurs. Hildur hóf nýverið sína fjórðu meðferð í hormónaörvun sem er undanfari glasafrjóvgunar.  Þau Gísli hafa verið saman í tæp fjögur ár og eftir að hafa reynt að eignast barn og vera komin að fertugt varð henni ljóst að það væri ekkert unnið með því að bíða lengur.

Hildur er menntaður lögfræðingur og vann lengi sem slíkur hjá fjölmiðlasamsteypunni 365 og starfaði um tíma einnig sem varaborgarfulltrúi. Þegar hún hætti hjá 365 hellti hún sér alfarið út í stjórnmálin, fyrst sem borgarfulltrúi og síðar sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hún starfar í dag sem aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. „Ég var þingmaður í ofsalega stuttu ríkisstjórninni sem sprakk í kringum uppreisn æru málið. Ég datt þá útaf þingi en Þórdís bað mig um að verða aðstoðarmaður sinn sem mér hefur þótt meiriháttar reynsla. Hún er frábær ràðherra með góða framtíðarsýn og verkefni ráðuneytisins krefjandi og skemmtileg. Sem varaþingmaður á þessu kjörtímabili hef ég farið stundum inn á þing og það kemur bara í ljós hver verða næstu skref mín þar. Flokkurinn í Reykjavík hefur ekki tekið ákvörðun um hvort það verði prófkjör en ég mun skoða alvarlega hvað ég geri með það”, segir Hildur.”

 

Metnaður og tölfræði

Aðspurð hvort metnaðurinn hafi seinkað barneignum svarar hún: „Þetta er blanda af því að ganga út frá því og langa mjög mikið til þess að eignast fjölskyldu og á sama tíma ýta því á undan sér. Í rauninni var þetta ekki það nærri mér að ég væri að ýta því á undan mér, ég hugsaði að það kæmi að þessu seinna. Það er lögð mikil áhersla á það að konur mennti sig og komi undir sig fótunum, sem er gott. Konur eru fræddar í skólakerfinu um getnaðarvarnir sem er flott en það fylgja síður með þessar upplýsingar um frjósemi og hvað það þýðir í árum og gagnvart tölfræði að ákveða að klára námið og koma sér inn í frama áður en ákveðið er að eignast börn.“

 

Innbyggð bjartsýni

„Lífið er alls konar. Það spilaði líka inn í að það var í rauninni ekki fyrr en ég kynntist Gísla mínum að ég áttaði mig á því af fullri alvöru, alveg ofan í bein, hversu mikið mig langaði að eignast barn.
Sem manneskja er maður svo mikið samansafn af alls konar. Eitt eru aðstæður og annað eru tilfinningar og svo úr þessu myndast einhver kúla sem heldur svo áfram að rúlla og gera sitt besta. Auðvitað kemur margt til og eitt af því er að við kynnumst seint á einhverjum hlutlægum mælikvarða, ég er þá orðin 38 ára.“

Þegar fólk er ekki lengur unglingar og ástin er sterk gerast hlutirnir hratt. „Við vissum það nokkuð fljótt að við vildum stíga þessi skref og höfðum enga ástæðu til að halda að það myndi ekki ganga. Það er innbyggt í mann að gera ráð fyrir því að hlutirnir gangi upp. Það er partur af því að vera til, að hanga í því. Við gerum ekki ráð fyrir því að lenda í slysum eða veikjast. Þó pabbi minn hafi látist úr krabbameini geri ég ekki ráð fyrir því að fá krabbamein frekar en við flest.“

 

Tveggja ára bið

Þegar Hildur og Gísli kynnast á hann fyrir þrjú börn og það yngsta er þá fjögurra ára. „Það var ekkert sem benti til þess að þetta myndi ekki ganga þó ég væri vissulega að eldast. Svo bara gengur þetta ekki. Núna erum við í okkar fjórðu meðferð hjá Livio og það er ekkert að. Við erum heppin hvað það varðar en þetta er ekki að ganga enn sem komið er, en vonandi breytist það. Þetta er bara staðan og hún er raunveruleiki mjög margra og þá af hverju ekki við eins og svo margir aðrir.“

Það er samt ekki minna vont þó það séu margir að glíma við sömu erfiðleikana?

„Nei ég viðurkenni það. Þetta er þungt ég ætla ekki að gera lítið úr því. Hafandi farið í gegnum þetta og upplifað þennan raunveruleika þá fór ég að horfa á kerfið öðrum augum en ég hafði gert áður en þetta varð partur af mínu lífi. Það eru hlutir í kerfinu sem mér finnst vera að hamla fólki, og gera því erfiðara fyrir þegar það ætti þvert á móti að hjálpa fólki að eign-ast börn. Löggjöfin í þessum málum hefur tekið stórkostlegum framförum síðustu ár sem betur fer en þó stendur ýmislegt eftir.“
Hildur segir lögin sé teiknuð upp eftir gömlum staðalímyndum þar sem foreldrarnir eru ung kona og karl.

„Þegar ég fór að grúska í þessum málum og horfa á þau heildstætt, ekki bara út frá minni stöðu, þá kemur svo sem fljótt í ljós að lögin taka mið af móður og föður, og með hagsmuni barnsins í huga, skiljanlega, en það er þessi fyrir fram ákveðna hugmynd um hvað eru hagsmunir barnsins. Sem dæmi mátti systir eða einhver nákominn konunni ekki gefa egg því það var talið of erfitt fyrir viðkomandi barn að vera í svo flóknu fjölskyldumynstri. Síðan þá hefur það breyst og smám saman hafa verið gerðar breytingar til batnaðar. Þannig að til dæmis systir getur í dag hjálpað en það eru ekki allir í þeirri stöðu og staðan á almennri eggjagjöf er tveggja ára bið.“

Hvaðan koma þau egg?
„Það eru þá þá einhverjir englar þarna úti í samfélaginu sem vilja láta gott af sér leiða.“

Hildur Sverrisdóttir Mynd: Valgarð Gísla

Kraftaverkasögurnar

Hildur setur spurningarmerki við það að hægt sé að fá sæði að gjöf erlendis frá en ekki egg. „Það er því engin bið eftir gjafasæði en það er ekki tekið við eggjum erlendis frá. Mér skilst að það sé í skoðun sem er jákvætt, en ég skil ekki fljótt á litið þennan mismun. Ef það mætti gefa egg erlendis frá og hingað þá myndi það að öllum líkindum stytta biðlistann. Konur sem gefa egg hérlendis mega velja hvort það fer til fjölskyldna á Íslandi eða erlendis svo ég gef mér að það sé hægt að flytja þau hingað eins og þau eru flutt héðan.“

Hildur segist sjálf ekki hafa gert sér grein fyrir svo mörgu sem snýr að frjósemisaðgerðum. „Ég skammast mín pínu fyrir að viðurkenna að ég var óupplýst um þessi mál og þar sem ég tel mig almennt vera vel upplýsta, leyfi ég mér að fullyrða að ég sé ekki ein um það. Mér finnst áhugavert að velta því upp af hverju þetta sé ekki rætt meira. Er það vegna þess að þetta er feimnismál, sem ég reyndar skil alveg? Eða er þetta af því að þetta hefur almennt bara með líkama kvenna að gera og það fer þá í annað og minna mengi? Getur líka verið að við heyrum alltaf bara kraftaverkasögurnar sem er skiljanlegt, því almáttugur, auðvitað viljum við frekar heyra þær, en mögulega býr það til smá skekkju á því hvað er raunveruleikinn. Kraftaverkasögurnar eru ekki í takti við tölfræðina.“

Hildur segir að það þurfi vissulega ekki allir að bera sínar persónulegu baráttur á torg en það sé mikilvægt að halda þessum upplýsingum á lofti. „Þessi fræðsla ætti heima með kynfræðslunni og fólk vissi þá hvaða valmöguleikar eru fyrir hendi. Það ætti til dæmis að vera hægt að greiða fyrir tékk um þrítugt og fá mælingu á frjósemi. Það geta verið konur mun yngri en ég sem eru að lenda í tímahraki út af einhverju sem þær hafa ekki hugmynd um. Vita konur og fólk almennt hver staðan er á þessum málum og er kerfið að gera allt sem það getur til þess að styðja frekar en að letja, er það sem ég er að velta upp.“

Hildur Sverrisdóttir Mynd: Valgarð Gísla
Förðun: Elín Reynis

Breytt samfélag

Frjósemi kvenna hefur farið dvínandi síðustu áratugi en síðustu tölur Hagstofunnar frá 2019 sýna örlitla aukningu samanborið við árið á undan, 2018, en þá hafði frjósemi íslenskra kvenna aldrei verið lægri frá því að mælingar hófust árið 1853. Að sama skapi fari meðalaldur mæðra hækkandi jafnt og þétt síðustu áratugi. Frá byrjun sjöunda áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum en eftir miðjan níunda áratuginn hefur meðalaldur farið hækkandi og var 28,6 ár árið 2019 og var aldursbundin fæðingartíðni mest meðal kvenna 30-34 ára.

Hildur bendir á að kerfið þurfi að þróast með samfélaginu. „ Við erum breytt samfélag. Fólk er ungt lengur og við erum mörg hver að kynnast seint, ekki með allan tímann í heiminum hvað barneignir varðar. Þá koma atriði eins og lögum samkvæmt þurfa pör sem fara í tæknifrjóvgun að vera í skráðri sambúð eða gift. Ef þú ert kona sem ert að mæta ein og vilt fara í tæknifrjóvgun þá þarft þú að hitta félagsráð­gjafa, en ekki ef það er par. Svo þarf enkki að spyrja kóng né prest ef það er verið að eignast barn án tækni­legrar aðkomu,“ segir Hildur hlæjandi.

Hún nefnir annað dæmi. „Það má ekki gefa fóstur­vísa. Ef vinkona þín og vinur vilja gefa þér fósturvísi má það ekki. Það má gefa egg og sæði en ekki fósturvísi sem er búið að frjóvga og myndi þá taka mun minni tíma. Ef par á fósturvísi verður að eyða honum þegar sambúð er slitið. Þau mega ekki gefa hann áfram eða gefa sam­þykki fyrir að annað þeirra eigi hann og nýti. Mér finnst að eigi að treysta fólki sem vill skapa líf og hlúa að því til þess að gera það. Við erum með alls konar aðrar reglur í samfélaginu sem gæta að velferð barna og það blessunarlega, en að við séum að gera þetta ferli óþarflega flókið finnst mér bera keim af of miklum afskiptum hins opinbera.“

 

Ættleiðingar og aldur

Talið berst að ættleiðingum. Hildur segir hún hafi velt upp öllum sviðsmyndum bæði af forvitni og líka þar sem hún útilokar ekkert þó vonin sé vissulega að glasafrjóvgunin beri ávöxt. „Par sem hefur áhuga á að ættleiða verður að hafa verið í staðfestri sambúð í fimm ár eða gift í þrjú ár. Ef fólk kynnist seint, prófar kannski fyrst að reyna að eignast barn sjálft en gengur ekki og er ekki búið að skrá sig í sambúð eða gift, þá þarf þetta fólk að bíða ansi lengi til þess að mega byrja ætt­leiðingarferlið en þá kemur líka inn líffræðilega ferlið því þau mega ekki vera eldri en 45 ára.“

Hildur bendir á að þarna þurfi að setja í samhengi að frjósemin fer dvínandi eftir 35 ára aldur. „Það kom ekki bara aftan að mér heldur mörgum öðrum konum. Allt líf okkar er mikið yngra en það var og við heyrum sífellt af hækkandi aldri mæðra. Við erum flest hraust og hress lengur, en líffræðilega erum við í sömu frjósemi og við vorum fyrir 100 árum þegar fólk var orðið gamalmenni upp úr fertugu. Hérna set ég spurningarmerki við þessa 45 ára reglu. Ef þessu væri hnik­að til þó það væri ekki nema nokkur ár þá gæti það haft stórkostleg áhrif á líf fólks.“

Hildur segist ekki efast um að upprunalega séu þessar reglur settar með hagsmuni barnanna að leiðarljósi. „Það má samt ekki gleyma því að það hafa áður verið settar reglur sem voru mjög strang­ar og tóku á þeim áhyggjum sem voru algerlega óþarfar, eins og þegar samkynhneigðir áttu engin réttindi gagnvart börnum.“

 

Frystu eggin þín

„Fyrir sirka tveimur árum birtist viðtal við frjósemis­lækni sem var að koma svona upplýsingum á framfæri og fyrirsögnin var „Konur eru að koma of seint“. Við þetta orðalag fóru einhverjar í vörn, fannst að þeim vegið og gerðu grín að þessu með femínista­slagorðinu „konur þurfa bara að vera duglegar að koma ekki of seint“. Það þótti mér leiðin­legt að sjá. Því þó að það megi vel vera að undirliggjandi vandamálið sé of lítil umræða um raunveruleika kvenna frekar en konurnar sjálfar, þá hj álpar auðvitað ekkert ef það á að skjóta sendiboðann sem er að reyna að koma réttum upplýsingum á framfæri“

Hildur segir skort á upplýs­ingum geta leitt til þess að kon­ur geri sér ekki grein fyrir því hvaða takmarkanir líkaminn setji þeim í þessum efnum og hvaða valkostir standi þeim til boða. Hún bendir á að hægt sé að frysta egg og það sé dæmi um upplýsingar sem allar kon­ur ættu að hafa. „Ég leyfi mér að segja við mér yngri kon­ur, frystu eggin þín. Ég held að það sé þess virði og vildi gjarnan að ég hefði gert það.“

Hildur Sverrisdóttir Mynd: Valgarð Gísla

Frelsispési

„Ég er mikill frelsispési og finnst mikilvægt að við rýnum hvar hið opinbera er að vera óþarflega fyrirferðarmikið og stýrandi. Einnig hef ég lengi haft áhuga á raunveruleika kvenna á þeirra forsendum, og í þeim tilgangi ritstýrði ég til dæmis bókinni Fantasíur, um kynferðislegar fantasíur íslenskra kvenna. Þannig að það kallaði mjög sterkt á mig að skoða bæði umræðuna og reglurammann í kringum þessi mál.“

Hver kona er að glíma við sitt og þær frjósemisaðgerðir sem fólk fer í gegnum eru ólíkar.

„Ég get aðeins talað út fr á mér en heilt á litið fannst mér þetta ekki vond reynsla. Ef það væri hægt að taka andlega þáttinn út, kvíðann og áhyggjurnar og það að þora ekki að hugsa til enda ef þetta gengur ekki. Það álag finnst mér miklu verra en líkamlegi parturinn. Þessi lyf hafa farið mikið batnandi skilst mér. Kærastinn minn sprautar mig í magann áhverju kvöldi og þetta er orðið að frekar fallegri rútínu hjá okkur. Þetta er partur af okkar lífi og við tökum því. Við erum að mörgu leyti svo heppin. Hann á þrjú yndisleg börn og við erum almennt mjög kát og glöð. Ég veit að við höfum það að mörgu leyti mjög gott. Það er erfitt að útskýra þessa tilfinningu. Ég hef alltaf gert ráð fyrir að ég yrði mamma.“

 

Engin óviðeigandi frænka

Þegar talið berst að samfélaginu og umræðunni þar segist Hildur samgleðjast vinum sínum innilega þegar þeir eiga von á barni. „Ég skil hins vegar líka þá tilfinningu þegar fólk viðurkennir að það er hætt að samgleðjast eftir að hafa sjálft reynt lengi, en ég er ekki þar. Ég öfunda þau kannski alveg smá en það kemur frá góðum stað. Maður á kannski stundum daga sem maður tekur sér frí frá samfélagsmiðlum með öllum krúttlegu börnunum þar, en það er sjaldan. Almennt er þetta partur af lífinu og þetta er okkar verkefni og við upplifum mikinn kærleik og stuðning frá okkar fólki.“

Ótrúlegt en satt hefur Hildur ekki lent í hinni klassísku spurningu – á ekki að fara koma með barn? „Ég bara minnist þess ekki að hafa fengið þessa spurningu þó ég hafi ítrekað heyrt þessa umræðu um að fólk sé spurt að þessu. Ég hef samt ekki rætt mína stöðu almennt og ég reyndar held ekki að ég tæki spurningunni illa.“

Á ég að trúa því að þú eigir enga óviðeigandi frænku eða frænda? Hildur hlær og bjart bros breiðir úr sér. „Nei veistu ég held bara ekki. Það að ég sé að fara í þetta viðtal er mín tilraun til þess að vekja athygli á því að það sé ekki hægt að ganga að því vísu að eignast barn og vonandi varpa ljósi á að kerfið getur verið meira til aðstoðar en trafala. Annars hef ég verið mjög prívat með þessi mál.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dóttir Margrétar og Ísaks komin með nafn – Skírnartertan eins og listaverk

Dóttir Margrétar og Ísaks komin með nafn – Skírnartertan eins og listaverk