fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fókus

Morðið sem skók tískuheiminn – Ást, afbrýði og Gucci

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 10. apríl 2021 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Smelltu hér að neðan til að hlusta á Sakamálið: Ást, afbrýði og Gucci.

Vörumerkið Gucci fagnar hundrað ára afmæli í ár. Merkið er hátískumerki sem þekkist úti um allan heim og hefur notið svo mikilla vinsælda að það hefur undanfarinn áratug ratað inn í orðaforða margra sem slanguryrði. Að eitthvað sé Gucci þýðir að eitthvað sé frábært, ferskt eða gott. En lífið hjá barnabarni stofnanda tískuhússins var ekki „Gucci“ heldur var markað af eldheitri rómantík, afbrýði og loks sviplegu morði.

Bara eitt orð

Þann 27. mars 1995 bárust fréttir sem skóku alla Ítalíu. Krónprins Gucci-fjölskyldunnar hafði verið skotinn til bana á leið sinni til vinnu, um hábjartan dag og að því er virtist að tilefnislausu. Rannsókn lögreglu sigldi fljótt í strand enda fundust engar vísbendingar og engar augljósar hvatir að baki verknaðinum. Var Gucci viðriðinn eitthvað misjafnt? Var þetta liður í löngum deilum fjölskyldunnar um yfirráð yfir Gucci vörumerkinu? Svo virtist sem að svörin við þessum spurningum yrðu aldrei fengin og fljótlega varð Guccimálið aðeins rykfallin mappa í málaskrá lögreglunnar.

Tveimur árum síðar barst þó símtal sem átti eftir að breyta öllu. Síðla kvölds 8. janúar árið 1997 barst lögreglu símtal þar sem nafnlaus innhringjandi bað um áheyrn yfirmannsins Filippo Ninni. Þessi uppljóstrari vildi lítið gefa upp í gegnum síma annað en: „Ég ætla bara að segja eitt orð – Gucci.“

Heyrði óvart samtal

Þetta eina orð nægði þó Filippo. Þetta var eina mögulega vísbendingin sem lögreglu hafði borist eftir tveggja ára rannsókn. Filippo fór til fundar við uppljóstrarann sem reyndist vera gestur á einnar stjörnu hóteli í Mílanó og hann hafði fyrir tilviljun heyrt samtal sem honum var ekki ætlað að heyra.

Starfsmaður á hótelinu hafði nefnilega verið að stæra sig af því að hafa tekið þátt í að fá leigumorðingja til að ráða Gucci af dögum. Loksins hafði lögregla eitthvað í höndunum og þegar hún hóf að rannsaka þennan starfsmann áttu mál fljótt eftir að skýrast og mitt í þessum stormi var hvorki undirheimamaður né meðlimur Gucci-fjölskyldunnar. Nei þar var að verki kona sem í fjölmiðlum hafði verið kölluð fröken Gucci.

Ást við fyrstu sýn

Maurizio Gucci var viðskiptamaður og einn erfingja að tískuveldinu Gucci sem afi hans stofnaði. Hann var rétt skriðinn á þrítugsaldurinn þegar hann í samkvæmi nokkru rak augun í fallegustu konu sem hann hafði séð. Hann snéri sér að vini sínum og spurði „Hver er þessi fallega, rauðklædda kona sem lítur út eins og Elizabeth Taylor?“ Umrædd fegurðardrottning var Patrizia Reggiani. Hún kom úr ríkri fjölskyldu en taldist þó ekki meðal elítu hinna ríku og frægu.

Fjölskylda Maurizio var ekki hrifin, en gat þó ekki komið vitinu fyrir unga viðskiptamanninn sem var yfir sig ástfanginn. Þau gengu í hjónaband árið 1972 og framtíðin virtist björt. Patrizia elskaði að vera orðin hluti af Gucci-veldinu og hluti elítunnar. Hún var fljótt kölluð fröken Gucci af fjölmiðlum og hún og eiginmaðurinn voru kölluð fallegasta par í heimi.

Hjónaband þeirra var hamingjusamt fyrst um sinn en eftir 12 ár fór Maurizio eitt sinn í viðskiptaferð og kom aldrei til baka. Hann lét lækni sínum eftir að tilkynna Patriziu að hjónabandið væri búið, henni til lítillar gleði. Hún stóð frammi fyrir því að missa Gucci úr lífi sínu, bæði tískuhúsið sem og eiginmanninn.

Sá fram á að missa allt Við tók ljótur skilnaður. Patrizia ætlaði ekki að standa eftir slypp og snauð. Hún var að missa tengsl sín við eitt stærsta tískumerki heims og ætlaði ekki að gera það án þess að fá nokkuð fyrir sinn snúð. Skilnaðarferlið tók því heilu árin og virtist engan endi ætla að taka.

Rétt fyrir skilnaðinn hafði Maurizio tekið við rekstri Gucci. Eftir að hann fór frá Patriziu ákvað hann að fyrirtækjareksturinn væri ekki fyrir hann og seldi hlut sinn í fyrirtækinu fyrir veglega summu. Patrizia varð brjáluð.

Annað áfallið kom svo þegar Maurizio kynntist nýrri konu. Hann vildi nú afgreiða skilnaðinn til að geta gifst nýju kærustunni. Patrizia hafði misst frá sér Guccivörumerkið, og nú átti að taka af henni Gucci-nafnið.

Hún ákvað því að koma sínum fyrrverandi fyrir kattarnef áður en nýja kona hans næði að koma klóm sínum í Gucci-auðæfin og rýra arfinn sem dætur Patriziu og Maurizio fengju.

Hver er nógu hugaður?

„Ég gekk á milli manna og spurði hvort einhver væri nægilega hugaður til að myrða manninn minn,“ sagði Patrizia einu sinni í viðtali. Hún hringdi meira að segja í Maurizio rétt áður en hann dó og sagði honum að hann ætti illt í vændum. Heift hennar varð fljótt að þráhyggju.

Hún leitaði logandi ljósi að einhverjum sem gæti ráðið mann hennar af dögum. Hún spurði jafnvel slátrarann sinn og íhugaði stuttlega að gera það sjálf, en taldi það óskynsamlegt þar sem hún kunni illa að fara með skotvopn. Það var svo loksins þegar hún leitaði til spákonu sinnar, Giuseppina Auriemma, sem hjólin fóru að snúast. Auriemma sagði síðar í viðtali: „Hún bað alla íbúa Mílanó að finna morðingja. Enginn tók hana alvarlega. Ég var eini aulinn sem beit á agnið.“

Giuseppina, kölluð Pina, hafði þekkt Patriziu árum saman og verið einn hennar nánasti ráðgjafi í lífinu. Pina kom sér í samband við Ivano Savioni, næturstarfsmann á áðurnefndu hóteli og hann hafði samband við enn einn aðila sem svo fann leigumorðingjann sem var fenginn í verkið.

Eins og áður sagði var það þessi hótelstarfsmaður sem varð til þess að lögregla komst á spor Patriziu. Bæði með því að tala opinskátt um hlut sinn í málinu án þess að gæta að því að fólk gæti verið að hlusta, en einnig hafði hann á sama tíma aftur verið að leita að morðingja. Í þetta sinn til að kúga Patriziu til að greiða eftirstöðvarnar fyrir morð Maurizio.

Glæpir til sölu

Allir sem áttu hlut að máli voru handteknir nokkrum vikum síðar og öll voru sakfelld. Patrizia var dæmd í 29 ára fangelsi fyrir sinn hlut, en var sleppt eftir 16 ár og er nú frjáls kona. Meðal sönnunargagnanna gegn Patriziu var dagbók hennar. En þar hafði hún skrifað: „Það er ekki til sá glæpur sem er ekki falur“ og daginn sem Maurizio var drepinn hafði hún aðeins skrifað eitt orð „Parasdeisos“ sem er gríska orðið fyrir paradís.

Patrizia hefur aldrei beinlínis játað á sig morðið en þó hefur hún sagt að hún líti ekki á sig sem saklausa heldur frekar sem „ekki seka“. Fyrst þegar henni bauðst að losna úr fangelsi með því skilyrði að hún fengi sér vinnu sagði hún: „Ég hef ekki unnið einn einasta dag í lífinu og ætla svo sannarlega ekki að byrja á því núna“. Hún skipti þó um skoðun og þegar hún losnaði úr fangelsi árið 2014 fór hún að vinna hjá skartgripasala í hlutastarfi. Hún sagði þó í viðtali: „Mig dreymir um að snúa aftur til Gucci. Mér finnst ég enn tilheyra Gucci-fjölskyldunni – jafnvel er ég meiri Gucci en þau öll til samans.“

Nú kemur fljótlega út kvikmynd sem byggir á sögu Patriziu og Maurizio og mun sjálf Lady Gaga fara með hlutverk Patriziu.

Myndin er væntanleg í nóvember á þessu ári. Patrizia veit af þessu og var lítt hrifin af verkefninu og minna hrifin af þeirri hneisu að Lady Gaga hafi ekki heimsótt Patriziu til að undirbúa sig fyrir hlutverkið. Henni fannst það bara hreinlega ekki „Gucci“.

Leikarar úr kvikmyndinni House of Gucci og hin einu sönnu Herra og Frú Gucci
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna