Vegna fjölda áskorana verður sérstakur páskaþáttur með Helga Björns í Sjónvarpi Símans. Hann hefur aldrei litið betur út og fúlsar nú við bæði brauði og bjór
Á áttunda þúsund manns skoruðu á Helga Björns að halda eina aukatónleika um páskana með Reiðmönnum vindanna og góðum gestum í Sjónvarpi Símans.
Þættirnir urðu til samfara samkomutakmörkunum vegna COVID í fyrra, en lok þáttaraðarinnar voru ákveðin með það í huga að fólk væri á faraldsfæti um páskana.
„Ég hafði ætlað að fara vestur á Ísafjörð og vera á skíðum. Síðan voru settar þessar nýju sóttvarnareglur, eðlilega, og það kom þrýstingur um að gera einn þátt í viðbót,“ segir Helgi.
Út með sykur, hveiti og mjólk
Þátturinn verður með svipuðu sniði og þeir fyrri, fullt af flottum gestum en ekkert er gefið upp um það fyrir fram hverjir koma, ekki frekar en fyrri daginn. Þeir sem hafa fylgst með þáttunum hafa séð að Helgi lítur sífellt betur út og virðist koma betur undan COVID en aðrir.
„Ég var farinn að gera svo vel við mig þegar ég var svona mikið heima og ákvað að minnka matarskammtana. Það þýðir ekkert að vera bara að borða brauð, kex og sælgæti. Ég ákvað að taka allt hvíta stöffið út: sykur, hveiti og mjólk. Ég sleppi líka bjórnum. Það er mikið hveiti og sykur í honum,“ segir Helgi.
Stígur aldrei á vigt
Nú ert þú vanur að spyrja hvort það séu ekki allir sexí. Má ekki segja að Helgi Björns sé enn meira sexí núna?
„Við erum bara öll sexí, er það ekki? Allir eru sexí, hver á sinn hátt. Ég vona allavega að ég sé líka sexí,“ segir hann glaðvær.
Hann segist aldrei stíga á vigt og því ekki hafa hugmynd um hvað hann hafi lést mikið. „Enda skiptir það engu máli. Þetta snýst um að líða vel. Ég veit ekki hvað ég var þungur og veit ekki hvað ég er þungur í dag,“ segir Helgi.
Næstu dagar fara í skipulagningu og æfingar fyrir þáttinn á laugardag. „Ég ætla annars að nota páskana til að vera með börnum og barnabörnum, að vera í páskakúlunni okkar. Ég verð með páskalamb á sunnudaginn fyrir fjölskylduna. Fyrst það er ekki hægt að fara á skíði fer ég væntanlega upp í hesthús og hef það notalegt einhvers staðar úti í móa.“