Internetið getur verið dásamlegur staður og getur auðveldað okkur að kynnast nýju fólki, enda hefur heimurinn aldrei áður verið jafn tengdur og hann er í dag. Það þarf þó að ganga hægt um hinar stafrænu dyr. Þú veist nefnilega aldrei með vissu hver er hinum megin á ADSL-línunni.
Dagurinn var 15. september árið 2006. Sá kærkomni tími dags var runninn upp þar sem fólk mátti loksins stimpla sig út úr vinnu, grípa staf sinn og hatt og hraða sér heim til að verja þar frítíma sínum fram að næstu vinnulotu. Taktur þessa hversdagslega erils var skyndilega rofinn þennan dag skammt frá Buffalo í New York ríki í Bandaríkjunum þegar þrír skothvellir endurómuðu um göturnar.
Á bílastæði fyrir utan verksmiðjuna þar sem hann vann fannst karlmaður sitjandi í bíl sinum. Hann hafði að venju stimplað sig út og var við það að ná að drífa sig heim þegar hann var þess í stað skotinn til bana
Rannsókn málsins átti ekki eftir að kosta lögreglu mikinn tíma og fyrirhöfn, en baksaga þess var svo óvenjuleg að málið mun að líkindum aldrei renna þeim lögreglumönnum sem að rannsókninni komu úr minni.
Stafræn ástin blómstrar
Ári áður naut leikjasíðan Pogo mikilla vinsælda meðal ungmenna. Þar gátu ungmennin drepið hluta af sínum mikla frítíma og þar að auki bauð síðan upp á eins konar stafrænan samkomustað, spjallrás þar sem bæði var hægt að taka þátt í opnum hópsamtölum sem og nánari einkasamtölum.
Það var á þessu spjallsvæði sem tveir notendur kynntust og felldu saman hugi. Notendurnir voru Tallhotblond – 18 ára framhaldsskólaneminn og mjúkboltaspilarinn Jessi og MarineSniper – 18 ára leyniskyttan Tommy sem var í bandaríska hernum og beið þess að vera sendur á átakasvæði í Írak.
Fyrst voru skilaboðin milli notendanna tveggja saklaus og vinaleg, en fljótlega fór þar að bera á daðri og ekki leið á löngu áður en ástarjátningarnar fóru að ganga á víxl. Bæði höfðu þau sent hinu andlitsmynd af sér en parið hafði þó aldrei sést augliti til auglitis en það hindraði Tommy samt ekki í að biðja Jessi um hönd hennar í hjónaband.
Úlfur í sauðargæru
Það einkennir gjarnan sambönd ungmenna að ástin ýtir þeim til skiptis upp í hæstu hæðir og niður í hinar dýpstu lægðir. Ungmennin voru heltekin og stafræn samskiptin voru orðin það mikilvægasta í deginum.
Það var þó einn alvarlegur hængur á málinu.
Hinn 18 ára Tommy var í raun hinn 46 ára gamli Thomas „Tom“ Montgomery. Vissulega hafði Tom verið í hernum sem ungur maður, en það hafði aðeins varað um sex ára skeið og hann hafði heldur aldrei verið þjálfaður sem leyniskytta eða sendur á nokkurt átakasvæði. Tom var starfsmaður í verksmiðju á daginn og í lok dags snéri hann heim til eiginkonu sinnar og barna.
Myndirnar sem hann hafði sent af sér voru alls ekki falsaðar heldur komnar nokkuð vel til ára sinna. Einhvers staðar í undirmeðvitundinni vissi hann að það væri rangt að villa á sér heimildir með þessum hætti. En hann var búinn að flækja sig of fastan í lygavefinn og auk þess veitti sambandið honum svo mikla gleði að hann gat ómögulega slitið sig frá stafrænni hjákonu sinni.
Sannleikurinn kemur í ljós
En Tom gleymdi að gæta að einu. Hann bjó ekki einn. Dag einn fékk dóttir hans að nota tölvu hans þegar hún rak augun í spjallið hans við Jessi. Forvitin opnaði dóttirin gluggann og við henni blöstu lygar föðurins og ósvífin svikin við móður hennar. Hún greindi móður sinni frá því sem hún hafði komist á snoðir um og móðirin ákvað að grípa til sinna ráða til að vernda fjölskyldu sína.
Þannig varð það að Jessi fékk senda fjölskyldumynd af Thomas ásamt þeim skilaboðum að Tommy væri í raun miðaldra heimilisfaðir og harðgiftur.
Ástfangin aftur
Jessi var slegin af þessum tíðindum. Hennar elskaði Tommy? Hvernig gat þetta staðist. Í örvinglan hafði hún uppi á vinnufélaga Toms til að staðfesta svikin. Samstarfsfélaginn hélt Brian Barrett. Brian var 22 ára og starfaði með Tom í verksmiðjunni.
Brian staðfesti svikin og gerði gott betur, hann heillaði Jessi upp úr skónum og veitti henni öxl til að gráta á og endurvakti trú hennar á ástinni. Brian og Jessi ákváðu að koma upp um Tom á opnu hópspjöllunum og flögguðu samtímis ástarsambandinu sem var að þróast á milli þeirra.
Þetta kunni Tom illa að meta. Hann var enn ástfanginn af Jessi. Jessi sjálf virtist vera á báðum áttum. Hún hélt áfram að senda Tom skilaboð þar sem hún daðraði við hann, nú vitandi fullvel hver hann var í raun og veru.
Vonin vaknaði í brjósti Toms að Jessi gæti tekið honum eins og hann var.
Morðið á bílastæðinu
Hvort var það Tom eða Brian sem sat látinn í bifreið sinni fyrir utan verksmiðjuna? Vildi Brian verja heiður nýju kærustunnar og losna við manninn sem særði hana? Eða ákvað Tom að Brian væri fyrirstaða fyrir endurfundum hans við Jessi?
Aðkoman á bílastæðinu benti til þess að morðinginn hefði hlotið einhverja herþjálfun. Það tók lögreglu ekki langan tíma að leggja saman tvo og tvo. Hinn látni var Brian Barrett og gerandinn var Tom.
Á daginn kom að Brian hafði ákveðið að ríða á vaðið og hitta Jessi loks augliti til auglitis. Tom hafði komist á snoðir um þessi áform. Brian var myndarlegur maður og Tom var vitstola af afbrýði. Það sem Tom vissi reyndar ekki var að Jessi skaut niður áætlanir Brians nokkru fyrr, hún kærði sig ekki um að fá hann í heimsókn. Tom ákvað því að Brian þyrfti að deyja svo hann gæti átt Jessi út af fyrir sig.
Tom hafði flúið af vettvangi eftir að hafa skotið Brian og var hvergi finnanlegur. Lögreglu grunaði að hann myndi næst snúa sér að Jessi og líf hennar gæti verið í hættu. Því voru lögreglumenn sendir að heimili hennar til að tryggja öryggi hennar.
Ótrúleg uppgötvun
Þegar lögreglu bar að garði beið þeirra lygileg uppgötvun. Til dyra kom ekki Jessi heldur móðir hennar, Mary Shieler og þegar lögregla bar upp erindi sitt brotnaði Mary saman og viðurkenndi að dóttir hennar hefði alls ekkert með málið að gera.
Það var Mary sem Tom og Brian höfðu átt í sambandi við. Jessi vissi ekkert um málið, hvað þá að móðir hennar hafði bæði notað myndir af henni sem og nafn til að eiga í rómantískum samskiptum við unga menn.
Tom var sakfelldur fyrir morðið á Brian og þó svo lögregla og ákæruvald vildu ekkert frekar en að geta líka ákært Mary fyrir hennar hlut að málinu, þá hafði hún ekki brotið nein lög.
Hún hafði þó brotið gegn góðu siðferði og bæði eiginmaður hennar og dóttir fóru frá henni og slitu á öll samskipti. Þetta mál sýnir skýrt hversu varasöm samskipti í skjóli nafnleyndar á netinu geta verið.
Hefði Mary ekki villt á sér heimildir þá væri Brian líklega enn á lífi, en í harmleiknum var það aðeins Brian sem kom hreint og beint fram, og það kostaði hann lífið.