Það er mörgum unglingum mikilvægt að falla inn í hópinn og vera ekki utangarðs. Því eru unglingar sérstaklega viðkvæmir fyrir hópþrýstingi og getur það oft leitt til hörmunga. Þó sjaldan með jafn hrottalegum hætti og í Indíana í Bandaríkjunum árið 1992.
Ást og afbrýði
Shanda Sharer var lífleg 12 ára stúlka. Árið var 1992 og Shanda var nýbyrjuð í nýjum skóla þegar hún kynntist Amöndu Heavrin sem var tveimur árum eldri. Fyrst lenti stúlkunum saman, en eftir að hafa lent í slagsmálum slíðruðu þær sverðin og urðu perluvinkonur. Fljótlega þróaðist vináttan út í eitthvað meira og skiptust stúlkurnar á eldheitum ástarbréfum og fóru saman á skólaball.
Það var á þessu skólaballi sem Shanda hitti fyrrverandi kærustu Amöndu, hina sextán ára gömlu Melindu Loveless. Melinda leit á Shöndu sem keppinaut um hylli Amöndu. Hún varð gífurlega afbrýðisöm og varð heltekin af því að gera út af við samkeppnina. Melinda lagði fæð á Shöndu, hótaði henni og lýsti því yfir við Amöndu að hún ætlaði sér að koma nýju kærustunni fyrir kattarnef.
Hrúgald í vegarkanti
Þann 11. júní 1992 voru bræður að veiðum þegar þeir komu að hrúgaldi í vegarkanti. Við nánari athugun reyndist um brenndar líkamsleifar ungrar stúlku að ræða.
Lögregla kannaði strax hvort einhverjar tilkynningar hefðu borist nýlega um horfið barn og vaknaði strax grunur um að hin látna væri Shanda Sharer, en faðir hennar hafði vaknað nóttina áður og séð að dóttir hans var ekki í herbergi sínu.
Áður en lögregla hafði náð að hefja rannsókn af nokkru viti, komu tvær unglingsstúlkur á lögreglustöðina með foreldrum sínum og höfðu skelfilega sögu að segja, þær hefðu verið viðstaddar þegar tvær vinkonur þeirra pyntuðu og myrtu Shöndu um nóttina. Stúlkurnar voru Hope Rippey og Toni Lawrance.
Þær höfðu farið á rúntinn með 17 ára vinkonu sinni, Laurie Tackett, og töldu sig vera á leið á tónleika. Hins vegar var förinni heitið til fjórðu stúlkunnar, sem reyndist vera áðurnefnd Melinda Loveless. Þegar Melinda bættist í hópin var hún vopnuð eldhúshníf.
Hún gerði hinum þremur ljóst að stúlka að nafni Shanda hefði stungið undan sér og því skyldu þær nema Shöndu á brott og hræða hana í hefndarskyni.
Komu henni fyrir í skottinu
Fjórmenningarnir fóru að heimili Shöndu. Þrjár þeirra buðu Shöndu með á rúntinn á meðan Melinda faldi sig undir teppi í aftursætinu. Þegar Shanda var komin inn í bílinn stökk Melinda undan teppinu og beindi hnífnum að hálsi hennar, sem varð frá sér numin af hræðslu. Melinda heimtaði að Shanda viðurkenndi að hafa rænt Amöndu frá sér. En fljótlega var ljóst að Melinda ætlaði sér eitthvað meira en að hóta ungu stúlkunni.
Stúlkurnar stöðvuðu bifreiðina á fáförnum stað og þar létu Melinda og Laurie til skarar skríða. Þær börðu Shöndu, spörkuðu í hana og reyndu að skera hana á háls með eldhúshnífnum. Þegar hnífurinn reyndist bitlaus greip Melinda á það ráð að stinga Shöndu ítrekað og þrengdu þær að hálsi hennar með reipi þar til hún missti meðvitund. Stúlkurnar töldu að Shanda væri dáin, og komu henni fyrir í skotti bifreiðarinnar. Síðan héldu þær förinni áfram á meðan þær hugleiddu næstu skref.
Enn lifandi
Þær afréðu loks að fara heim til Laurie til að þrífa af sér öll ummerki um það sem þær höfðu gert. Þar voru þær staddar þegar þær heyrðu óp berast úr skotti bifreiðarinnar. Shanda var á lífi. Laurie og Melinda stukku til. Og óku burt. Þær stöðvuðu svo bílinn þar sem enginn gat séð til þeirra og stungu Shöndu ítrekað þar til hún hætti að gefa frá sér hljóð. Síðan héldu þær aftur af stað og óku aftur til fundar við hinar tvær.
Stúlkurnar ákváðu að losa sig við líkið með því að brenna það og nú var förinni heitið að næstu bensínstöð. Aftur heyrðist hljóð úr skottinu. Laurie fór aftur að skottinu og stakk Shondu enn meira. Aftur þagnaði Shanda og virtist nú loks vera látin.
Brenndu líkamsleifarnar
Fjórmenningarnir komu næst við á bensínstöð og fylltu þar gosflösku af bensíni. Þær óku síðan á afvikinn stað þar sem þær vöfðu Shöndu inn í teppi og lögðu á jörðina. Síðan helltu þær bensíni yfir hana og kveiktu í. Shanda var hins vegar ekki dáin og engdist um af sársauka. Stúlkurnar óku nú burt, en Melinda ákvað að þær þyrftu að snúa aftur við og tryggja að líkamsleifarnar myndu brenna. Aftur var bensíni hellt yfir Shondu og kveikt í. Loks töldu stúlkurnar þvínæst öruggt að Shanda væri öll. Hvert er förinni heitið í kjölfar svona hrottalegs glæps? Nú á McDonald’s. auðvitað.
Stúlkurnar settust niður á skyndibitastaðnum vinsæla, þar sem þær gerðu sér glaðan dag og gerðu grín að glæpnum sem þær höfðu framið, meðal annars líktu þær pylsunum sem þær borðuðu saman við líkama Shöndu á meðan hann brann.
Þegar Toni og Hope voru komnar heim til fjölskyldna sinna var þó úr þeim allur vindur og sögðu þær grátandi alla söguna og fóru svo í fylgd foreldra sinna á næstu lögreglustöð. Skömmu síðar voru allar fjórar stúlkurnar hnepptar í varðhald.
Sluppu við dauðarefsingu
Ákæruvaldið ákvað að stúlkurnar yrðu sóttar til saka sem fullorðnir einstaklingar, þó engin þeirra væri lögráða.
Allar fjórar gerðu þær dómsátt til að komast hjá dauðarefsingu. Toni og Hope fengu vægari refsingu þar sem þeirra þáttur í morðinu var minni en hinna tveggja. Laurie tók virkan þátt og fékk þungan dóm, sextíu ár. Hún hafði ekki þekkt Shöndu og ekkert átt við hana að sakast, en hún glímdi við andleg veikindi, jaðarpersónuleikaröskun og þjáðist af ranghugmyndum. Melinda var talin höfuðpaurinn í málinu.
Við rannsókn málsins kom í ljós að Melinda hafði alist upp við hryllilegar aðstæður og verið beitt grófu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Leiddi þetta til þess að faðir hennar var loks yfirheyrður af lögreglu og hlaut dóm fyrir kynferðisbrot. Í reynd kom á daginn að allar fjórar stúlkurnar höfðu glímt við andleg veikindi og höfðu átt hryllilega æsku. En það réttlætir þó ekki morð.
Hópþrýstingur ástæðan
Foreldrar Shöndu tóku andlát dóttur sinnar nærri sér. Faðir Shöndu beið þess aldrei bætur. Hann drakk sig í hel og lést árið 2005. Móðir Shöndu reyndi að láta gott af sér leiða í nafni dóttur sinnar. Hún gerðist ráðgjafi fyrir þolendur ofbeldisbrota og stofnaði sjóð í nafni dóttur sinnar, sem styrkti ungar konur til háskólanáms.
Stúlkurnar fjórar eru allar frjálsar í dag, og eru orðnar miðaldra konur. Laurie Tackett og Hope Rippey komu í viðtal til Dr. Phil árið 2011 og þar sagði Hope:
„Ég var hrædd, ég vissi ekki hvað var að gerast, ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Ég vissi ekki hvernig ég gæti stoppað þetta. Ég veit að það er eigingjarnt og rangt, en ég vildi ekki gera þær reiðar.“
Laurie var á sama máli.
„Ég þekkti ekki Shöndu. Ég bjóst ekki við að nokkuð myndi gerast þetta kvöld og vildi ekki að neitt sérstakt myndi gerast. Hópþrýstingur – hann var ástæðan. Þetta fór úr böndunum alltof hratt, þetta hefði aldrei átt að gerast.“