Svona hefst grein eftir Caitlyn Collins sem birtist á vefsíðunni hbr.org. Collins er prófessor í félagsfræði við Washington University í St. Louis og höfundur bókarinnar „Making Motherhood Work: How Women Manage Careers and Caregiving“.
Collins heldur síðan áfram í umfjöllun sinni og segir að það sem skilji upplifun kvennanna að sé landafræði. Önnur býr í Stokkhólmi en hin í Seattle í Washington. En það er meira en landafræði sem kemur við sögu í mismunandi aðstæðum þeirra.
Sarah í Stokkhólmi ólst upp í Kaliforníu, lauk háskólanámi í Bandaríkjunum og flutti til Stokkhólms til að stunda meistaranám. Það kostaði hana ekkert því hún var einnig ríkisborgari í ESB, því foreldrar hennar eru það, og síðan ílengdist hún í Stokkhólmi. Býr þar með eiginmanni og tveimur ungum sonum.
Collins segir að þegar Sarah hafi komist að því að hún væri barnshafandi hafi hún glaðst mikið en einnig orðið svolítið óstyrk. Hvernig myndi yfirmaður hennar bregðast við. Þar sem hún er bandarísk taldi hún líklegt að hann yrði pirraður eða vonsvikinn þegar hún færði honum fréttirnar. En þegar hún skýrði honum frá þessu, þegar hún var gengin 15 vikur, brást hann við af áhuga.
Því næst víkur Collins að fæðingarorlofinu en Sarah hafði í hyggju að taka sér eins árs fæðingarorlof en í Svíþjóð eiga foreldrar rétt á 480 daga fæðingarorlofi sem er greitt af almannatryggingakerfinu en ekki atvinnurekendum.
Sarah hætti að vinna sjö vikum fyrir áætlaðan fæðingardag og ól son sinn á sjúkrahúsi í Stokkhólmi. Hún þurfti að liggja inni í þrjá sólarhringa því taka þurfti drenginn með bráðakeisaraskurði. Allt þetta var ókeypis eins og annað í sænska heilbrigðiskerfinu. Á meðan á fæðingarorlofinu stóð fékk hún lægri greiðslur en ef hún hefði verið í vinnu en samt nóg til að þau hjónin gætu komist ágætlega af.
Hún sneri aftur til vinnu þegar drengurinn var orðinn 15 mánaða. Hann fór í daggæslu en í Svíþjóð er tryggt að öll eins árs börn geti byrjað í daggæslu gegn vægu gjaldi en gjaldið er tekjutengt. Hún tók síðan þátt í aðlögun drengsins að daggæslunni fyrstu vikuna og sneri síðan aftur til vinnu þar sem vinnufélagarnir tóku vel á móti henni. „Þegar þú eignast barn í Svíþjóð þá er litið björtum augum á það, jafnvel þótt það þýði að þú sért fjarri vinnu í eitt ár eða lengur,“ hefur Collins eftir Sarah.
Eftir nokkra mánuði varð Sarah aftur barnshafandi og aftur tók yfirmaður hennar tíðindunum mjög vel. Aftur fór hún í fæðingarorlof en eftir 11 mánuði í því var henni boðið starf í öðru fyrirtæki sem hún tók og átti að hefja störf þremur mánuðum síðar. Yngri drengurinn byrjaði í daggæslu og hún byrjaði að vinna í 80% starfi.
Sarah ólst upp við Kyrrahafsströndina og stundaði háskólanám í Kaliforníu. Hún starfaði víðs vegar í Bandaríkjunum en kynntist síðan eiginmanni sínum og þau ákváðu að setjast að í Seattle. Þegar hún var 31 árs fékk hún starf sem viðskiptastjóri í litlu fyrirtæki. Hana rámar í að hafa séð eitthvað um fæðingarorlofsstefnu fyrirtækisins þegar hún var að semja við það um kaup og kjör og var ánægð með að foreldrar gátu fengið smá orlof eftir fæðingu en þó launalaust.
Í Bandaríkjunum er ekki neitt fæðingarorlofskerfi eins og við þekkjum á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Aðeins 15% Bandaríkjamanna eiga rétt á launum í fæðingarorlofi í gegnum vinnustaði sína. Sarah átti því ekki von á neinu. Hún var sannfærð um að ef þau hjónin myndu eignast barn þá myndu þau komast í gegnum það.
Haustið 2018 varð hún barnshafandi og gleðin var mikil. Hún hringdi í Collins og skýrði henni frá þessu og fyrirætlunum þeirra hjóna. Nokkrum vikum síðar hringdi hún aftur og fór í gegnum fæðingarorlofsstefnu vinnustaðar síns með Collins. Það reyndist henni erfitt og hún fór að gráta.
Í stefnunni kom fram að fyrirtækið hefði engar lagalegar skuldbindingar til að leyfa starfsfólki að fara í fæðingarorlof. Samkvæmt lögum frá 1993 á fólk rétt á allt að 12 vikna launalausu leyfi vegna veikinda, þar á meðal á meðgöngu, eða til að annast nána ættingja og undir það falla nýburar. Þetta er þó ekki algilt samkvæmt lögunum. Í þeim er einnig kveðið á um að fólk eigi rétt á að snúa aftur til vinnu ef það hefur starfað í að minnsta kosti 12 mánuði hjá sama vinnuveitandanum og uppfyllt nokkur önnur skilyrði því tengdu. En einn hængur er á þessu öllu að sögn Collins, starfsfólki er tryggt starf þegar það snýr aftur en ekki endilega starfið sem það var í.
Hjá vinnuveitanda Sara var sú stefna að starfsfólk mátti taka 12 vikna launalaust leyfi en ekki mátti taka launaða frídaga eða veikindadaga í tvo mánuði fyrir barnsburð og í tvo mánuði að barnsburðarleyfi loknu. Sarah átti rétt á 18 frídögum á ári sem er meira en flestir Bandaríkjamenn fá að sögn Collins en þá gat hún ekki notað til annast nýfætt barn sitt. Hún hafði þann möguleika að fá skammtíma veikindalaun, sem hún átti rétt á í sjúkratryggingu sinni, í sex vikur eftir fæðingu en það tryggði henni 60% af launum hennar. Að því loknu gat hún tekið 18 launaða frídaga en restina af 12 vikna fæðingarorlofinu varð hún einfaldlega að vera launalaus.
Síðan hófst leitin að plássi í daggæslu en vinir hennar hvöttu hana til að byrja leitina strax því það væri allt annað en auðvelt að fá pláss og þau væru oft dýr. Hjónin skráðu sig á hvern biðlistann á fætur öðrum og biðu. Sarah vann þar til hún ól son sinn en þá var hún gengin 39 vikur og þrjá daga. Hún vann hálfan daginn, daginn sem hann fæddist, en fékk hríðir um miðjan dag og fór þá á sjúkrahús. Fæðingin var erfið og hún lá á sjúkrahúsi í tvo sólarhringa á eftir. Nokkrum dögum eftir heimkomuna var hringt frá sjúkrahúsinu til að ræða greiðslu eftirstöðva kostnaðar við fæðinguna og dvölina á sjúkrahúsinu. Sjúkratrygging þeirra hjóna hafði greitt hluta af kostnaðinum en eftir stóðu 9.000 dollarar sem þau urðu að greiða.
Eiginmaður hennar tók aðeins níu daga í fæðingarorlof því hann var sjálfstætt starfandi og hafði ekki efni á að missa marga daga úr vinnu ef þau ætluðu að geta greitt sjúkrahúskostnaðinn.
12 vikna fæðingarorlofið leið hratt en þá var hjónunum vandi á höndum því sonur þeirra var ekki enn kominn með pláss í daggæslu og Sarah gat ekki framlengt orlof sitt. Ef hún hætti störfum innan 30 daga eftir að hún sneri aftur til vinnu gat hugsast að vinnuveitandinn myndi krefjast endurgreiðslu á þeim hluta sjúkratryggingar fjölskyldunnar sem hann hafði greitt. Með því að skipuleggja vinnudaga sína og heimavinnu tókst hjónunum að setja vikuna þannig upp að þau gætu verið heima með drenginn til skiptis og að auki fengu þau aðstoð frá mæðrum sínum.
Hún þurfti að venjast vinnunni aftur og auknum hraða þar en álagði hafði bara aukist í fjarveru hennar. Hún fékk einkaskrifstofu svo hún gæti mjólkað sig en samkvæmt lögum verða atvinnurekendur að tryggja mæðrum viðeigandi rými til að geta mjólkað sig.
Hjónin voru svo heppin að fljótlega bauðst þeim pláss í daggæslu fyrir drenginn sem kostaði 1.550 dollara á mánuði. Það var frekar ódýrt miðað við á mörgum öðrum stöðum og var einnig nálægt vinnustað Sarah.
Collins segir að þegar hún ræddi síðast við Sarah hafi hún enn verið óviss um hvort þau myndu eignast annað barn því það væri svo stressandi og dýrt. Hún væri að reyna að standa sig vel í vinnunni en væri ekki viss um að hún stæði undir væntingum vinnufélaga, yfirmanna og viðskiptavina.
Collins segir að ekki sé eingöngu hægt að kenna landafræði um mismunandi upplifun og aðstæður kvennanna. Hin raunverulega ástæða sé mismunandi félagsleg stefna í Svíþjóð og Bandaríkjunum.
Hún bendir á að í Svíþjóð geti tekjuskattur verið allt að 56,9% en í Bandaríkjunum geti hann mest orðið 46,3%. Þetta eru tölur frá 2015. Hún bendir á að Svíar fái mikið fyrir skattpeninga sína og samt sem áður sé efnahagslíf landsins gott og það meðal auðugustu ríkja heims.
Hún bendir síðan á þann mikla mun sem er á framlögum ríkisins til varnarmála í löndunum tveimur þar sem Bandaríkin eyða þrisvar sinnum meira í varnarmál en fjölskyldumál. Þá sé stefna Bandaríkjanna í málum varðandi barneignir fjölskyldufjandsamleg og börnum sé ekki tryggð daggæsla á viðráðanlegu verði. Margt annað sé einnig til þess fallið að gera foreldrum erfitt fyrir.