fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Fókus

Óttar geðlæknir: „Mér leiðast þessi píslarvottaviðtöl“

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 7. mars 2021 07:00

Óttar Guðmundsson. Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óttar Guðmundsson geðlæknir segir venjulega heila ekki ráða við allt áreitið sem samfélagið býr við. Hann ræðir starf sitt með transteyminu, sjálfsvígshugsanir, guð og áfengið sem varð að fara.

Hér má í heild sinni lesa forsíðuviðtal við Óttar úr helgarblaði DV sem kom út 26. febrúar. 

Ég byrjaði að vinna á Kleppspítala tvítugur að aldri árið 1968 og var þar með annan fótinn á vöktum og yfirsetum fyrstu árin í læknanáminu. Það var hins vegar ekki fyrr en löngu síðar að ég ákvað að leggja geðlæknisfræði fyrir mig,“ segir Óttar Guðmundsson geðlæknir og rithöfundur. Hann grunaði ekki þá að hann ætti eftir að skrifa bók um sögu Klepps og íslenskra geðlækninga.

Óttar var raunar gagnrýninn á geðlækningar á þessum árum. „Ég var undir áhrifum svokallaðrar and-geðlæknisfræði. Þetta var bylgja eða stefna sem varð til í kringum skoska skáldið og lækninn Ronald Laing. Hann og fleiri höfundar héldu því fram að samfélagið væri sjúkt frekar en sá sem er sjúkur á geði, sem kannski væri sá eini heilbrigði í sjúku samfélagi. Innan andgeðlæknisfræðinnar var mikil andstaða gegn lyfjum og nauðungarvistunum. Ég gagnrýndi, ásamt fleirum, geðlækningar þess tíma í Læknanemanum sem var málgagn læknanema. Þetta féll ekki í kramið hjá ráðamönnum á geðdeildinni.“

Óttar er kvæntur Jóhönnu V. Þórhallsdóttur söngkonu og listmálara. Þau eiga samanlagt sex börn úr fyrri samböndum og tíu barnabörn. „Þetta er dæmigerð íslensk samsett stórfjölskylda sem við reynum að halda saman með handafli. Það gengur yfirleitt vel þótt stundum gefi á bátinn. Við fögnum miklu barnaláni.“

Samsamaði sig hetjum Íslendingasagna

Hann er kominn yfir sjötugt en er enn við störf sem geðlæknir á stofu, Landspítalanum og í Krýsuvík. Óttar hefur gefið út tólf bækur um fjölbreytileg efni eins og kynlíf, áfengi, dauðann og nú síðast um Íslendingasögur. Nýjasta bókin, Sturlunga geðlæknisins, kom út fyrir síðustu jól. Hún fjallar um átök og örlagaflækjur Sturlungaaldar þar sem alls kyns hegðunarvandamál og persónuleikabrestir vaða uppi. Óttar hefur um árabil skrifað Bakþanka í Fréttablaðið. Hann er fylgismaður knattspyrnufélagsins Fram og mikill áhugamaður um fótbolta. „Ég er stoltur af mínu liði þótt þeir séu í tómu tjóni núna. Í enska boltanum held ég með Tottenham og þeir eru líka afspyrnulélegir.“

Nýjustu bækur Óttars fjalla allar um Íslendingasögur og Sturlungu. Fyrst kom Hetjur og hugarvíl, síðan Frygð og fornar hetjur og loks Sturlunga geðlæknisins. „Ég heillaðist ungur af Íslendingasögum og samsamaði mig ákveðnum hetjum sagnanna, eins og Gunnlaugi ormstungu, Þormóði Kolbrúnarskáldi og Sturlu Sighvatssyni. Þeir voru báðir sveimhugar og óheppnir í kvennamálum. Löngu síðar ákvað ég að fara inn í heim þessara bóka með greiningarkerfi geðlækninga að vopni og skoða allar þessar gömlu hetjur til að geta skilið þær betur og atferli þeirra.

Ég held að ég sé búinn að greina allar helstu persónur sagnanna með misalvarlega persónuleikaröskun. Ég tel brýnt að sem flestir fjalli um þennan bókmenntaarf. Hann má aldrei verða einkamál bókmenntafræðinga og fræðasamfélagsins í Árnagarði. Fari svo munu Íslendingasögur deyja út. Þær verða lifandi þegar venjulegt fólk les þær af áhuga og hefur á þeim skoðanir.“

Grettir Ásmundsson kemur mikið við sögu í bókum Óttars. „Já, Grettir kallinn, var með ADHD og mótþróaþrjóskuröskun auk margra annarra persónuleikabresta. Honum hefði vegnað betur í lífinu með viðeigandi meðferð.“

Óttar Guðmundsson.
Mynd/Ernir

Villta vestrið ráðandi

Reyndar er athyglisbrestur og ofvirkni hjá fullorðnum stór hluti af starfi geðlækna. „Einu sinni var álitið að þessi sjúkdómur legðist aðeins á börn en eltist af fólki á 18 ára afmælisdaginn. Á síðustu 15- 20 árum hafa menn áttað sig á því að ofvirknilyfin sem virkuðu svo vel á börn hafa líka góð áhrif á fullorðna með þessi einkenni. Á síðustu árum hefur orðið sprenging í greiningum á ADHD hjá fullorðnum og margir komnir á lyf enda eru Íslendingar lyfjaglöð þjóð. Miðað við önnur Norðurlönd er villta vestrið ráðandi í málaflokknum hérlendis enda mun auðveldara að fá þessa greiningu,“ segir hann.

Samfélagið hefur breyst með tilkomu alls þessa áreitis á heilann frá öllum þessum snjalltækjum sem fólk notar í dag. „Allir eiga alltaf að vera ínáanlegir sem eykur streitu og minnkar einbeitingu. Það er erfitt að einbeita sér að einhverju verkefni þegar kveikt er á öllum snjalltækjunum. Venjulegur heili á erfitt með að ná utan um allar þessar óraunhæfu kröfur sem til hans eru gerðar. Allavega þurfa ekki allir á Ritalini að halda sem eiga erfitt með allt upplýsingaflóðið. Fólk þarf að læra að skipuleggja sig, einbeita sér að einu í einu og slökkva á símunum reglulega. Fólk nennir þó sjaldnast að hlusta á slíkar ráðleggingar heldur vill fá sín lyf og engar refjar.“

Sprenging hjá transteyminu

Fyrir liðlega 20 árum var fyrsta transteymið sett saman hér á landi af Ólafi Ólafssyni þáverandi landlækni. „Hann hóaði í nokkra lækna sem hann þekkti og bað þá að aðstoða sig við þennan málaflokk. Þetta var íslenska leiðin. Ástæðan fyrir stofnun starfshópsins var að trans fólk vildi ekki lengur fara til Danmerkur og Svíþjóðar til að leita sér aðstoðar heldur vildi fá hana í sínu heimalandi. Ég hafði enga þekkingu á þessum málaflokki á þessum árum en aflaði mér kunnáttu, aðallega í Svíþjóð.“

Óttar er einn eftir af upprunalega teyminu og margt hefur breyst á þessum árum. „Í upphafi reiknuðum við með því að nýgengið yrði tveir til fimm einstaklingar á ári. Á síðasta ári voru þeir hins vegar á milli sextíu og sjötíu. Þetta er ótrúleg sprenging sem hefur líka orðið í nágrannalöndunum. Ýmislegt annað hefur líka breyst. Mun yngri einstaklingar leita til teymisins og hlutfall líffræðilegra kvenna, trans manna, hefur aukist mikið. Líffræðilegu kynjahlutföllin eru orðin nokkuð jöfn en í upphafi voru þrír til fjórir líffræðilegir karlar, trans konur, fyrir hverja líffræðilega konu, trans mann. Auk þess hefur kynsegin fólki fjölgað mikið en það eru einstaklingar sem samsama sig hvorki körlum né konum og vilja nota persónufornafnið hán.

Þetta þýðir að meðferðin verður að vera mun sveigjanlegri en áður. Við höfum lagt okkur öll fram til að veita þessum hópi góða þjónustu. Að fara í kynleiðréttingu er flóknasta og erfiðasta breyting sem hægt er að gera á lífi sínu. Það skiptir því miklu máli að rétt sé staðið að málum og greining og meðferð sé alltaf í samræmi við alþjóðlega staðla. Samfélagið er orðið mun opnara en áður og fordómar minni samanborið við mörg önnur lönd.“

Óttar Guðmundsson.
Mynd/Ernir

Í miðju stormsins á netinu

Óttar þykir umdeildur fyrir ýmis skrif sín og skoðanir. Sjálfur segist hann ekkert botna í því. „Mér er það alveg óskiljanlegt að ég sé umdeildur. Ég er alltaf jafn hissa þegar einhver móðgast. Við lifum í samfélagi sem er ótrúlega viðkvæmt og margir eru tilbúnir til að gagnrýna og ritskoða og gaumgæfa allt sem sagt er. Síðan er það þessi tilhneiging að móðgast fyrir hönd annarra. Það fólk er alltaf miklu meira móðgað en sá sem hefði upphaflega átt að vera móðgaður. Þetta opna aðgengi fyrir alls konar tjáskipti á netmiðlum hefur leyst úr læðingi alls konar geðvonsku og fúkyrði sem fólk hreytir úr sér á netinu. Þetta stafar líka af því að fólki leiðist og hefur mun meiri tíma en áður til að liggja í netmiðlunum og skrifa athugasemdir.

Ég held að engan langi til að standa í miðju stormsins á netinu. Ég man eftir að hafa farið í viðtal sem var teygt og togað á alla vegu og áður en ég vissi af var ég orðinn hinn versti maður. Meira að segja var ég kærður til siðanefndar landlæknis. Þetta var óskemmtileg reynsla.“

Hann segist þó meðvitaður um að allir greinahöfundar þurfi að vera undir það búnir að fá yfir sig skammir og leiðindi.

„Það er liðið nokkuð síðan ég hef fengið yfir mig hafsjó af neikvæðum athugasemdum. Ég hef kannski aðeins breytt um tón í skrifum mínum. Það er ekki hægt að skrifa endalaust um aumingjavæðingu og fórnarlambsvæðingu samfélagsins. Það verður bara þreytt,“ segir hann.

„Mér leiðast þessi píslarvottaviðtöl. Fjölmiðlum finnst gaman að hafa viðtal við konuna sem kaupir sér þvottavél sem étur þvottinn hennar, skolar illa og er með bilaða loku. Hún fær ekki leiðréttingu sinna mála en kallar til blaðamenn sem birta af henni myndir þar sem hún bendir á þvottavélina með miklum raunasvip. Hugtakið aumingi vikunnar, sem ég hef skrifað um, kemur frá Steinunni heitinni systur minni sem hringdi alltaf í mig til að vekja athygli á svona viðtölum.“

Lærdómur af sjálfsvígshugsunum

Óttar hefur sjálfur fjallað opinberlega um eigin andlega erfiðleika í bókinni Þarf ég að deyja ef ég vil ekki að lifa? Þar skrifar hann fræðilega um sjálfsvíg en rekur einnig atvik þegar hann var sjálfur á hengibrúninni og skammt var milli lífs og dauða.

„Þegar ég var ungur og hvatvís menntaskólanemi ákvað ég eina nóttina eftir skrall á Hótel Borg að það væri engin ástæða til að lifa lengur. Ég var vel drukkinn og gekk hröðum skrefum út á Grandagarð til að drekkja mér við vitann. Ég fór út fyrir grindverkið, stóð þar drykklanga stund og velti fyrir mér hvort ég ætti að hoppa eða ekki. Ég ákveð síðan að hoppa ekki, klifra aftur yfir grindverkið og fer heim. Ég lærði mjög mikið af þessu og bjó að þessari reynslu þegar ég fór að vinna með fólki í svipuðum sporum.

Löngu seinna, þegar ég var orðinn fullorðinn maður, upplifði ég sjálfsvígshugsanir á annan hátt. Þá var ég líka að drekka og mun meiri ásetningur að baki. Ég skrifaði kveðjubréf og safnaði lyfjum og var búinn að ákveða að nota þau til að yfirgefa þetta jarðlíf. Sem betur fer hætti ég við en var kominn ansi langt í þessu sjálfsvígsferli, eins og það er kallað. Sjálfsvíg er sjaldnast skyndiákvörðun heldur er einhver saga að baki, saga um þunglyndi og vanlíðan sem veldur því að maður fer að hugsa um dauðann sem einhverja lausn. Þessu fylgja þær ranghugmyndir að allir verði mjög ánægðir þegar maður deyr og maður sé að gera börnunum sínum, maka og foreldrum greiða með því að svipta sig lífi.“

Hann segir marga sem metnir eru í sjálfsvígshættu vera í þessu ferli en að aðeins lítill hluti svipti sig lífi. „Meta þarf hvern og einn og veita viðeigandi meðferð. Áfengi er mikill áhættuþáttur í þessu ferli. Það er fylgni á milli þess að drekka og vera þunglyndur og síðan fyrirfara sér. Tveir þriðju þeirra sem fyrirfara sér eru ölvaðir eða undir áhrifum vímuefna,“ segir hann. „Áfengi hefur gríðarlega skemmandi áhrif. Maður verður þunglyndur af mikilli drykkju og það er slæmt fyrir sjálfstraustið og sjálfsvirðinguna að missa sig í drykkjuskap.“

Óttar Guðmundsson.
Mynd/Ernir

Á alls ekki að snerta áfengi

Að afloknu læknaprófi frá Háskóla Íslands 1975 fór hann til Svíþjóðar þar sem hann ætlaði að vera í sex mánuði sem urðu að tæpum níu árum. „Ég menntaði mig í nokkrum sérgreinum; taugasjúkdómafræði og lyflæknisfræði og fleiru. Doktorsritgerðin mín var í lyflæknisfræði en ég fékk enga stöðu sem ég var sáttur við á Íslandi. Ég fór að vinna á heilsugæslunni í Keflavík en ákvað síðan að venda mínu kvæði í kross árið 1985 og fór að vinna hjá SÁÁ.

Þetta var árið sem ég hætti að drekka en ég og áfengi áttum aldrei samleið. Ég var edrú í 12 ár og var mjög virkur í edrúsamfélaginu, skrifaði bók um alkóhólisma, vann við alkóhóllækningar og hélt fjölmarga fyrirlestra um alkóhólisma.

Ég byrjaði síðan að drekka aftur og drakk í nokkur ár. Síðan hætti ég og hef ekki drukkið í fimmtán ár. Samanlagt hef ég verið edrú í 27 ár en það á víst ekki að telja þannig. Jóhanna konan mín hætti líka að drekka með mér í seinna skiptið svo að þetta er sameiginleg ákvörðun og sameiginlegur lífsstíll sem bætir lífsgæðin mikið.

Öll mín saga sýnir mér að ég á ekki að snerta alkóhól. Þegar ég fór að drekka aftur tókst mér að telja mér trú um að þetta hefði aldrei verið neitt vandamál. Ég sagði að þetta hefði allt verið einhver misskilningur og líklega hefði ég bara verið að drekka vitlausar tegundir af áfengi. Alkóhólistar eru rosalega snjallir að telja sér trú um allt mögulegt til að réttlæta áframhaldandi drykkju. Ég er mjög sáttur við að vera edrú í dag og hafa komið mér út úr píslarvættis- og fórnarlambshlutverki alkóhólistans.

Þegar ég hætti árið 1985 að drekka lagði það grunninn að nýju lífi. Ég var að vinna hjá SÁÁ, nýorðinn edrú og byrjaði að hlaupa og var allt í einu orðinn mikill hlaupari. Það var eiginleiki sem ég vissi ekki að ég ætti til og ég endaði með því að hlaupa sex maraþonhlaup.“

Enn þann dag í dag er hann stoltastur af sínu fyrsta maraþoni. „Ógleymanlegasta stundin í lífi mínu var þegar ég kom í mark í New York maraþoninu 1988. Mér fannst það ótrúlega merkilegt andartak. Sama hvað ég hef notað af efnum eða gert annað á lífsleiðinni þá hef ég aldrei náð þeirri alsælu sem fylgdi því að hlaupa í mark í maraþonhlaupi í fyrsta sinn.“

Óttar Guðmundsson.
Mynd/Ernir

Fór að leiði pabba síns með fyrstu bókina

Ritfærni er annar hæfileiki sem hann uppgötvaði. „Ég fór að skrifa í blöð og vissi ekkiheldur að ég gæti það. Þetta þróaðist yfir í að ég fór að skrifa bækur. Þessi lífsstílsbreyting sem varð nokkrum árum fyrir fertugsafmælið mitt gjörbreytti öllu fyrir mig. Ég eignaðist nýtt líf eftir árin hjá SÁÁ og ákvað eftir það að læra geðlæknisfræði. Lífið fer alltaf í hringi og ég var aftur kominn til upphafsins á geðdeildina. Ég er ævarandi þakklátur SÁÁ og sérstaklega Þórarni Tyrfingssyni fyrir leiðsögnina til betra lífs. Við gátum reyndar ekki unnið saman en það er önnur saga.“

Fyrsta bókin hans var Íslenska kynlífsbókin sem kom út árið 1990 og vakti mikla athygli. „Það var ólýsanleg tilfinning að gefa út bók í fyrsta sinn. Ég fór með fyrsta prufueintakið að leiði föður míns til að sýna honum bókina. Ég grét við leiðið og var stoltur af að geta sýnt honum það sem ég var að gera, þótt hann væri löngu farinn.“ Óttar var rétt liðlega tvítugur þegar faðir hans lést, en samband þeirra var gott. Nú liggja foreldrar hans saman í Fossvogskirkjugarði, og heimsækir Óttar þau oft.

„Ég hjóla mikið, hjóla í vinnuna og hjóla hér í gegn um kirkjugarðinn og biðst fyrir við leiðið þeirra. Þetta er stund sem ég á með sjálfum mér og þakka fyrir lífið sem ég hef fengið. Þetta er ákveðið ritúal sem ég hef komið mér upp.

Ég er mjög trúaður, enda er það hluti af því að vera óvirkur alkóhólisti, AA-maður og ég er þakklátur fyrir öll þau tækifæri sem ég hef fengið. Það er ekki sjálfgefið að fá þau þó maður sé vel af guði gerður, hafi ákveðna hæfileika og ákveðinn kraft. Það er svo margt sem getur komið upp á, Það er ekki sjálfsagt að verða edrú, ná utan um líf sitt og geta verið stoltur og frjáls. Þá fær maður þessa tilfinningu að þetta sé ekki bara ég heldur æðri máttur sem stjórnar þessu öllu, eitthvað stærra og meira en ég og minn vilji.“

Hann segir sumum finnast það skjóta skökku við að lifa og hrærast í samfélagi vísinda en trúa samt á eitthvað æðra. „Ég er ánægður með mína trú og ég þarf ekki að réttlæta hana,“ segir hann.

Óttar ber mikla virðingu fyrir kristinni trú og hefur dálæti á ákveðnum trúarhetjum. „Þegar ég var að skrifa um Sturlungu var ég óskaplega hrifinn af Guðmundi Arasyni biskupi, Guðmundi góða á Hólum, af hans mannkostum, seiglu og þeirri trúarfestu sem hann sýnir. Hann er ein af hetjunum mínum í lífinu. Hann bilar aldrei í trúnni og hefur þessa sterku trúarsannfæringu. Guð hefur svo oft bjargað mér fyrir horn að það er góð tilfinning að allt sé í Drottins hendi. Þetta fer bara eins og það fer.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Brooke Shields segir að lýtalæknir hafi framkvæmt „bónus aðgerð“ á kynfærum hennar án samþykkis

Brooke Shields segir að lýtalæknir hafi framkvæmt „bónus aðgerð“ á kynfærum hennar án samþykkis
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stefanía segir það gefandi að syngja í jarðarförum – „Erfitt að sjá fólk sem manni þykir vænt um í sárum“

Stefanía segir það gefandi að syngja í jarðarförum – „Erfitt að sjá fólk sem manni þykir vænt um í sárum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fann leynileg skilaboð frá Matthew Perry ári eftir að hann dó

Fann leynileg skilaboð frá Matthew Perry ári eftir að hann dó
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ástin kulnuð – Fyrirsætan og stórleikarinn segja þetta gott eftir 3 ára samband

Ástin kulnuð – Fyrirsætan og stórleikarinn segja þetta gott eftir 3 ára samband
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ástin logaði á hvíta tjaldinu – Ásakanir um kynferðislega áreitni, ofbeldi og einelti loga nú milli stjarnanna

Ástin logaði á hvíta tjaldinu – Ásakanir um kynferðislega áreitni, ofbeldi og einelti loga nú milli stjarnanna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Komst að leyndarmáli eiginmannsins og ætlar að nota afmæliskortið til að hefna sín

Komst að leyndarmáli eiginmannsins og ætlar að nota afmæliskortið til að hefna sín