Tónlistarkonan Gréta Karen Grétarsdóttir er í einlægu forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði Vikunnar. Í viðtalinu opnaði hún sig um erfiða barnæsku og hvernig það hafi verið að alast upp með móður sem glímdi við alvarlegan áfengisvanda.
Gréta talar hlýlega um móður sína en viðurkennir að hún hafi verið mjög veikur alkóhólisti.
„Mínar minningar um mömmu snúa mikið að því að hún var alltaf í vinnunni eða að drekka. Eins yndisleg og hún var, þá var þetta hennar djöfull að draga. Hún var mjög veikur alkóhólisti og fyrir mig, sem var auðvitað bara barn, var þetta gríðarlega erfitt. Að mörgu leyti var ég eins og hennar umönnunaraðili, á meðan það hefði auðvitað átt að vera á hinn veginn,“ segir Gréta í Vikunni.
„Ég lærði til dæmis snemma að falsa nafnið hennar á ávísunum svo ég gæti farið út í búð að kaupa fyrir hana bland og sígarettur því hún var ekki í ástandi til að fara sjálf.“
Gréta segir frá því að það hafi skapast mikil togstreita innra með henni þar sem hún óttaðist að móðir sín myndi lenda í vandræðum og hún yrði tekin frá henni, en hún vildi einnig láta bjarga sér úr þessum erfiðu heimilisaðstæðum.
„Ég man að það var farið með mig til læknis út af magaverkjum, sem stöfuðu auðvitað bara af kvíða, en hann sagði að ég væri með ristilbólgur. Það var ekkert verið að skoða heimilisaðstæður. Enginn spurði mann út í neitt. Og ég veit að fólk vissi af þessu, til dæmis starfsfólk skólans en enginn greip inn í,“ segir hún
Gréta segir að með tímanum hafi hún orðið mjög reið. „Því hvers vegna í andskotanum hafði enginn tekið mig frá henni. Af hverju gerði enginn neitt? Það hefði getað sparað mér svo mikil [æskuáföll].“
Þú getur lesið viðtalið við Grétu í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.