Hard Rock Café var fyrst opnað á Íslandi sumarið 1987 í Kringlunni. Staðurinn varð fljótt ákaflega vinsæll og lét fólk sig hafa það að bíða löngum stundum eftir borðum. Starfsfólkið var hipp og kúl, maturinn góður og tónlistin hátt stillt. Ekki má heldur gleyma að hálfur bíll, amerískur kaggi stóð út undan þaki staðarins. Slíkt hafði ekki sést áður hér á landi.
Starfsfólkið var brosmilt, klætt einkennisbúningum, konur í hvítum, stuttum kjólum og hvítum hjólabuxum innan undir og menn í svörtum skyrtum. Barmmerkin skipuðu stóran sess, en allir starfsmenn gengu með barmmerki sem voru einnig seld á staðnum ásamt bolum, böngsum og öðrum varningi. Tónlistin var spiluð hátt og fatnaður og tónlistarmunir úr eigu heimsþekktra listamanna prýddu staðinn og fljótlega tóku munir frá íslenskum stjörnum að bætast við.
Staðurinn var að vissu leyti uppreisnarseggur með sinni háu tónlist og var um tíma eini staðurinn sem var opinn á föstudaginn langa. Tómas A. Tómasson, betur þekktur sem Tommi á Búllunni, stofnaði Hard Rock árið 1987 en staðnum var lokað árið 2005. Á gullaldartímum Hard Rock var staðurinn ákaflega vinsæll og margir ungir töffarar unnu þar.
Tónlistar- og fjölmiðlamenn
Gísli Marteinn var 16 ára þegar hann hóf störf á Hard Rock sem „bus boy“ en möguleiki var að fá stöðuhækkun upp í „food runners“ eða jafnvel þjónastarf. Valgeir Sigurðsson tónlistarmaður og upptökustjóri hóf einnig störf á staðnum 16 ára og störfuðu þeir Gísli saman. Jóhann Bachmann eða Jagúar-Jói, Frosti Logason fjölmiðlamaður og Einar Bárðarson lagahöfundur og athafnamaður, störfuðu allir á Hard Rock, en Einar rak staðinn á árunum 1999-2000.
Margar heitustu hljómsveitir landsins stigu á stokk á Hard Rock og voru það ófáar stjörnur sem mættu á kveðjutónleika staðarins árið 2015 þegar skellt var í lás eftir 18 ára rekstur.
Þekktir veitingamenn
Margir þekktir veitingamenn störfuðu einnig á staðnum og má þá helst nefna Bento Guerreiro, sem er í dag einn umsvifamesti veitingahúsaeigandi landsins, Haukur Víðisson fyrrum eigand Vegamóta og stofnandi Saffran, Friðrik Ármann Guðmundsson, Frikki Meló fyrrum eigandi Melabúðarinnar og Jón Örn Eiríksson eigandi Kjötkompanís. Tommi sjálfur stökk einnig í hin ýmsu störf t.d. sem sætavísa.
Hard Rock opnaði að nýju árið 2018 í Lækjargötu en aðrir eigendur eru að baki þeim rekstri.