fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Ellý og Hlynur um ástina sem er allskonar – „Ég var með glóðarauga og hann með gerviauga“

Tobba Marinósdóttir
Sunnudaginn 21. febrúar 2021 19:00

Ellý Ármanns og Hlynur Jakobsson. Mynd: Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgarviðtal þetta birtist í DV 12 febrúar og birtist nú hér í heild sinni. 

Ellý Ármannsdóttir spá- og listakona er engri lík. Orkan, jákvæðnin og einlægnin lýsir upp allt í kringum hana. Hlynur Jakobsson tilvonandi eiginmaður hennar er eins einlægur og opinn og Ellý. Þau settu sér skýrar reglur strax í byrjun sambandsins. Heiðarleiki og falleg samskipti eru mikilvægust.

„Ég elska hvað hann er mikill villingur en um leið þægilegur,“ segir Ellý.
„Ef þú myndir spyrja fyrrverandi konuna mína hvort ég væri þægilegur myndi hún örugglega segja nei en þetta er ferðalag og maður lærir,“ segir Hlynur, en þau Ellý hafa verið saman í þrjú ár.

Hlynur er fæddur og uppalinn í Vesturbænum og uppalinn á veitingastaðnum Horninu sem foreldrar hans eiga og hafa átt frá stofnun staðarins 1979.
„Ég flutti til Bandaríkjanna 19 ára og lærði að búa til og hljóðblanda tónlist,“ segir Hlynur, sem hefur starfað sem plötusnúður auk þess að framleiða sína eigin tónlist, taka upp og útsetja fyrir aðra. Þegar Hlynur var 28 ára flutti hann heim og fór að vinna í fjölskyldufyrirtækinu. „Ég hef í raun aldrei unnið neins staðar annars staðar þó ég hafi alltaf verið að spila með og sé með stúdíó úti á Granda þar sem ég vinn tónlist. Mér finnst tónlist vera allt. Alls konar tónlist,“ segir Hlynur, sem hefur meðal annars tekið þátt í að útfæra lög fyrir undankeppni Eurovision. „Músík og Hornið. Það hefur verið líf mitt.“

Hlynur og Ellý eru fædd sama ár og urðu því bæði fimmtug á síðasta ári – þó andinn segi eitthvað allt annað. Þau sitja afslöppuð við eldhúsborðið í íbúð sinni í miðbænum, lyfta kaffibollunum með húðflúruðum handleggjunum og brosa.
Ellý virðist hafa gert annan samning við guðina en við hin því hún hefur ekki elst um dag frá því að hún var þrítug.

Hlynur á dóttur og son en Ellý á tvo syni og 13 ára dóttur. Öllum börnunum lyndir vel saman og mikil lukka er í fjölskyldunum yfir sameiningunni.

Sá hann aldrei

Ellý og Hlynur drekka ekki og stunda líkamsrækt af kappi. Ellý hefur aldrei verið mikið fyrir sopann og hefur alltaf auðveldlega getað sleppt því. Hlynur kláraði kvótann, fór í meðferð og hætti að drekka þrítugur.
„Ég hef enga sorgarsögu að segja af slæmu uppeldi sem leiddi mig út í neyslu. Þetta var bara djamm sem var orðið súrt. Ég var orðinn elsti gæinn í partýinu og þetta var bara búið,“ segir Hlynur, sem skildi við djammið en ekki plötusnúðastarfið.
„Ég er mest að spila í veislum í dag. Ég var áður að spila á öllum þessum helstu stöðum Casablanca, Tunglinu, Nelly‘s, Thorvaldsen, Astró og Nasa.“

„Og ég vissi aldrei hver hann var,“ skýtur Ellý inn í.

Það er kannski ekki að undra því Ellý hefur aldrei stundað skemmtanalífið af neinni alvöru þó hún sé vissulega sólgin í að dansa. „Hlynur var að spila í brúðkaupinu hjá Kötu Júl. vinkonu (Katrín Júlíusdóttir fyrrverandi ráðherra – innsk. blm.) og ég sá hann aldrei. Dansaði bara beint fyrir framan hann.“

Þau hlæja bæði. Fór sem fór – og baksýnisspegillinn fær ekkert líf hjá þeim hjónaleysunum. Þau eru hér í dag, saman. Allt leitar jafnvægis.

„Það er ekkert diskótek til á Íslandi lengur,“ segir Hlynur og bendir á að það sé ekki auðsótt að komast á dansgólfið í Reykjavík. „Nasa var með dansgólf. Apótekið var með danstónlist og dansgólf en það er ekkert í dag.“
Parið hefur þó leyst það með því að halda danspartý heima fyrir sem þau senda út í gegnum samfélagsmiðla í þeirri von að dansþyrstir landsmenn stígi sporin heima fyrir, sérstaklega á meðan á lokunum stóð.
„Ég hef líka spilað á Barion – það gæti orðið diskótek,“ segir Hlynur, sem vonast til þess að danssenan nái sér á strik.

Ellý Ármanns og Hlynur Jakobsson. Mynd: Diddi

Vantaði málverk á veggina

Aðspurður um hvort Hlynur hafi ekki vitað hver Ellý var – þó hún hafi ekki komið auga á hann áður, gefur hann ekki mikið út á það enda meira að spá í raftónlist en huggulega þulu með ungabarn.
„Ég man bara eftir að hafa séð viðtal við hana þar sem hún var að tala um leigumarkaðinn en ég las það nú ekki allt.“

„Já, þá var ég að væla um hvað það er erfitt að fá íbúð á leigu,“ segir Ellý, en hún hélt átakanlegt erindi á Húsnæðisþingi árið 2017 sem vakti mikla athygli og varpaði ljósi á þungbæra stöðu fólks á leigumarkaði.

„Það er mamma hans Hlyns sem ber ábyrgð á þessu. Hún kallaði á eftir mér niðri í bæ og fór að ræða við mig um myndlist og hvað hún væri hrifin af myndunum mínum. Mamma hans er líka myndlistarkona – þess vegna skilur hann allt þetta,“ segir Ellý og bandar höndunum að veggjum stofunnar sem geyma málverk eftir hana í öllum stærðum og gerðum.

„Svo bara stakk hún upp á því að ég og Hlynur myndum hittast.“

„Mamma lætur mig vita að hún hafi hitt Ellý. Ég er nýfluttur í íbúð niðri í bæ og mamma skrifar hjá mér á Facebook: Nú átt þú bara eftir að fá þér málverk á veggina og konu. Þá skrifar Ellý undir: þið eruð frábær. Þá hringi ég í mömmu og fer að spyrja hana út í Ellý.“

Niðurstaðan er sú að systir Hlyns er látin í málið og sendir Ellý skilaboð þar sem hún spyr hvort það sé ekki í lagi að Hlynur hafi samband við hana. „Ég sagði að hann mætti hringja. Ég var laus og liðug að jafna mig eftir erfiðan skilnað og hafði fengið alls konar skilaboð eins og gerist ef maður gefur færi á sér. Ég var alveg til í að kynnast einhverjum, en ég vildi ekki byrja með manni. Mér leiddist en ég vildi ekki samband. Hann gat bara hringt ef honum var einhver alvara.“

Úr varð að hjónaleysin möluðu í símann í klukkustund. „Þetta var ekkert mál, það var ekkert mál að tala við hana. Við töluðum um myndlistina og börnin. Hún var með dóttur sína helgina á eftir og ég hugsaði bara um hvað ég þyrfti að bíða lengi eftir að hitta hana.

Hún kvaddi mig svo og sagði: „vertu í bandi“.“
„Ég hugsaði bara, einmitt,“ bætir Ellý við, sem bjóst ekki við að heyra í honum aftur.

Súkkulaðikakan

„Á sunnudeginum sendi ég henni mynd af súkkulaðiköku þegar ég er að loka Horninu og skrifaði: viltu köku?“
Ellý brosir. „Mér fannst það svolítið skemmtilegt. Hann var ekki að spyrja í hverju ég væri.“
Ellý sló til og var mætt stuttu seinna. „Ég kem inn, staðurinn er lokaður og það eru kertaljós, súkkulaðikaka og rjómi.“
„Svo fórstu og ég kyssti þig á kinnina bless,“ segir Hlynur.
Á þessum tíma bjó Ellý í herbergi fyrir ofan skemmti­staðinn Strawberries í Lækj­argötu. Ellý röltir heim með vinkonu sína í símanum sem er að fletta Hlyni upp á Goo­gle.
„Ég vildi vita hver hann væri.“

Á meðan er Hlynur heima að velta sér upp úr því af hverju hann hafi ekki boðið Ellýju heim. Hugrekkið magnaðist með fram eftirsjánni og hann sendi henni skilaboð.
„Ég hefði átt að bjóða þér heim.“
Þau hlæja bæði innilega.
„Ég svaraði og sagði: viltu að ég komi? Ég var ekki að fara að leika neina leiki. Þú finnur það á fyrstu 4 mínútunum ef það er eitthvað við manneskj­una. Og það var eitthvað. Þú bara finnur orkuna.“

Það eru þrjú ár síðan og í dag eru þau alsæl í sam­búð, trúlofuð og bíða þess að mamma Ellýjar sem býr í Lúxemborg komi til landsins svo þau geti gift sig.
„Kjóllinn er tilbúinn og allt,“ segir Ellý.

Skömmin að mistakast

„Ellý var mjög brotin þegar við kynntumst. Hún ætlaði sér alls ekki í neitt samband og var alltaf tilbúin með töskuna sína. Skyldi aldrei neitt eftir hjá mér. En ég fattaði hana strax. Ég þurfti að vanda mig ef ég ætlaði ekki að missa hana út um dyrnar.“

Ellý Ármanns, viðtal

En hvernig líður þér núna?
„Mér líður vel. Börnunum mínum þremur gengur vel, ég er orðin amma og við erum með ömmu­ og afabarnið einu sinni í viku. Hlynur er rosa­lega góður afi,“ segir Ellý, uppfull af ró. En það er ekki langt síðan að taugakerfið víbraði og hún var á stöðug­um flótta. Flótta undan erfið­leikunum sem fylgja ljótum skilnaði og því að missa ver­aldlegar eigur sínar.

„Það eru tvö ár eftir af þessu gjaldþroti. Ég klára þetta gjaldþrot og byrja nýtt líf en ég ætla aldrei að eiga neitt aftur,“ segir Ellý og segir skömmina sem fylgir gjald­þroti mikla.„Ég er enn að eiga við það. Þetta er alveg glatað. Að mér hafi mistekist. Af hverju gerði ég þetta? Af hverju leyfði ég það að allt væri sett á mitt nafn?“

Hlynur horfir fast á hana. „Manni mistekst alls konar. Þér mistókst bara þetta – og mér mistókst eitthvað annað. Þetta er bara lífið.“

Ekki reyna að stjórna

Það er mikil ró inni á heimil­inu og ástin áþreifanleg. Val­entínusardagurinn er á sunnu­daginn og því gott að leyfa sér að heiðra og veita ástinni meiri athygli – og sérstaklega því sem virkar. Spurð um hvað þurfi til að láta sambandið ganga svarar Hlynur: „Það er ekkert sem heitir að láta sambandið ganga upp. Ef þú ert í lagi í hausnum, ert ekki að stjórna, drekka, í einhverju rugli, ert heiðar­legur og opinn með sjálfan þig, þá er þetta ekkert mál.“

Foreldrar Hlyns giftust á Valentínusardaginn og mamma Hlyns, arkitekt ástar þeirra, verður sjötug á Val­entínusardaginn svo ástin er sannarlega í hávegum höfð þar á bæ.

„Við tókum strax ákvörðun um að tala alltaf fallega við hvort annað. Ég hafði ein­hvern tíma sagt: æi, vertu ekki svona stressuð,“ segir Hlynur og Ellý tekur undir. „Þá sagði ég: við skulum stoppa aðeins. Ég kem úr sambandi sem er erfitt. Getum við ákveðið það að tala alltaf fallega saman, af virðingu og ástúð? Við tókum þá bara ákvörðun um að sleppa öllum stælum. Oft talar fólk óvarlega án þess að taka einu sinni eftir því.“

Hlynur bendir á að það þurfi að vera hægt að biðjast afsökunar þó að það sé erfitt. Samskiptin verði að vera góð. „Ég bjóst samt alltaf við því að þetta færi að enda. Hún var alltaf tilbúin að fara. Ég rétti henni lykilinn á tíunda degi sambandsins. Við vorum 47 ára þegar við kynntumst og ég vissi að hún var manneskjan. Ég hef hitt alls konar vitleysinga. Mig hafði alltaf langað í konu sem væri dökkhærð listakona. Það var mín draumatýpa.“

„Og ég fór í sjónvarpið og reyndi allt en hann tók ekkert eftir mér,“ segir Ellý og hlær.

Útbrot og áfengi

Hlynur og Ellý höfðu bæði verið einhleyp í nokkur ár þegar þau kynntust, með tilheyrandi stefnumótum og tindergangi. „Ég man eftir einu skrítnu. Ég var búinn að mæla mér mót við konu en deginum áður en við ætluðum að hittast í fyrsta skipti sá ég hana sitja í bíl fyrir utan heima hjá mér. Það var skrítið. Ég hætti við.“ Ellý hefur fengið alls konar undarleg skilaboð.

„Ég fór á Tinder. Ég lenti ekki í neinu hryllilegu en ég fékk skrítin skilaboð frá manni sem sagði að hann langaði að bjóða mér út á stefnumót því ég hefði verið uppáhaldsþulan hans, en hann vildi ekki gera það því hann væri svo hræddur um að verða fyrir vonbrigðum. Svo var einn sem drakk sig allt of fullan og steyptist allur út í rauðum útbrotum.“

Undarlegu stefnumótin leiddu þau þó að lokum til hvors annars – með smá hjálp frá móður og systur Hlyns. „Það hefur aldrei verið neitt drama eða rifrildi hjá okkur. Allt fyrsta árið beið ég eftir sprengjunni,“ segir Ellý.

„Það er eitt að rífast en annað að vera heitt í hamsi og ræða um hlutina,“ segir H lynur.
„Svo skiptir máli að skilja manneskjuna og hætta að reyna að breyta fólki. Ég vakna stundum klukkan sex á morgnana og fer að mála. Hann er ekki að skipta sér af því. Ég var að kenna líkamsrækt og lyfta, hann sagðist ekki gera það. Ég minntist ekki orði á það og bað hann aldrei að koma með mér. Þremur mánuðum seinna sagðist hann vilja prófa og við höfum alltaf farið saman síðan.“

„Ellý er í sjálfstæðum rekstri og það er alls konar sem hún gerir sem ég skil ekki. Ég segi ekki við hana ekki kaupa fleiri striga þó þeir komist varla fyrir. Ég tek tillit til þess hver hún er.“

Týndi auganu

Hlynur er blindur á öðru auga og hefur verið frá unglingsaldri. Ellý hafði ekki hugmynd um það þegar þau Hlynur fóru að hittast.„Ég stal bílnum og keyrði á vegg þegar ég var 14 ára. Ég var villingur. Rúðan splundraðist og ég varð blindur á öðru auga og fékk marga skurði í andlitið. Í dag er ég með gerviauga.“

„Ég vissi það ekki þegar við kynntumst. Manstu eftir því þegar við fórum á deit og þú tókst það úr?“
„Ég missti það,“ segir Hlynur.
„Stundum fer augnhár bak við augað og þá þarf ég að taka skelina úr.“
„Hann var að skola skelina en svo missti hann hana og spyr mig: hvar er augað? Ég fór bara að leita,“ segir Ellý og hlær. „Þetta er bara yndislegt. Það var smá aðlögun. Hann rak sig í mig einu sinni í byrjun sambandsins og ég fékk glóðarauga,“ segir Ellý og vísar í að Hlynur er ekki með fullt sjónsvið.
„Ég var með glóðarauga og hann með gerviauga. Það var samt bara fyndið. Það góða við Hlyn er líka að hann skilur svo margt. Hann var með yfir 100 ör í andlitinu eftir slysið. Hann skilur áföll. Hann skilur svo margt sem ég er að reyna að útskýra.“

Pakkinn

Sambandið þróaðist hratt og hugmynd um bónorð gerði vart við sig.
„Mig langaði að biðja hana að giftast mér eftir sex mánuði.“
„Ætlaðir þú að biðja mig um að giftast þér eftir sex mánuði?“
„Ég hugsaði það strax fyrstu vikuna. En ég vissi að það væri betra að bíða svo ég fengi ekki strolluna yfir mig. Þú sagðir líka við mig að þú værir pakki. Opinber manneskja með pakka á bakinu. Það eru allir með pakka á bakinu.“
„Mér fannst ég ekki nógu góð fyrir þig. Mér fannst ég vera í skítnum. Ég bjó þarna í þessu leiguherbergi því ég var búin að missa húsið eftir skilnaðinn. Það var allt skrifað á mig og það stefndi í gjaldþrot, en það gekk reyndar ekki í gegn fyrr enn nýlega,“ útskýrir Ellý sem flutti úr stóru einbýlishúsi í Hlíðunum í herbergi fyrir ofan skemmtistað í miðborginni.
Þar bjó hún með yngstu dóttur sína 10 ára, sem dvaldi þó einnig hjá föður sínum, en þau deila forræði.

„Ég var að fara úr stóru ein-býlishúsi þar sem mér leið illa og í þetta herbergi, en mér leið vel þó þetta hafi verið erfitt. Ég var frjáls. En svo kynnist ég manni sem var ótrúlega góður við mig. Ég sagði honum strax frá þessu. Að ég byggi þarna og hvernig peningamálin væru.“

Á þessum tíma var Ellý byrjuð að mála sem hún segir vera mikla blessun og hún kenndi einnig í líkamsræktarstöðinni Reebook. „Það var lifibrauðið mitt og þar komst ég líka í sturtu. Við deildum svo mörg baðherbergi þar sem ég leigði herbergið, að ég fór helst ekki í sturtu þar. Ég ætlaði aldrei að hleypa Hlyni þarna inn en svo hringir hann einn daginn og segist vera fyrir utan með kaffi. Ég skammaðist mín fyrir hvernig ég bjó, en hann stóð fyrir utan með tvo bolla. Ég hugsaði bara: nei, nú sér hann hvað ég er mikill lúser. Ég íhugaði að ljúga að honum en við vorum búin að ákveða að vera alltaf heiðarleg svo ég gat það ekki. Ég varð að hleypa honum inn.“

Hlynur segist ekki mikið hafa kippt sér upp við þetta enda hafi hann sjálfur búið í sambærilegum herbergjum þegar hann var yngri. „Ég hugsaði strax. Gerum þetta saman. Sköpum okkur gott líf saman. Mitt markmið var að koma henni úr þessu herbergi“.

„Ég man að hann horfði á mig þarna og sagði: Ellý, þú ert mín draumakona. Og ég hugsaði „einmitt“ en á sama tíma var ég komin í sátt við mig sjálfa og farin að elska mig aftur – þarna í þessu her­bergi.“

Úr að ofan

„Ég fékk símtal þar sem ég var spurð hvort ég ætlaði að byrja með þessum DJ, hvort ég væri á leiðinni í annað partý. En það var fólk sem þekkti hann þegar hann var ungur á djamminu. Ég ætla aldrei að byrja með manni sem er í deyfilyfjum. Það að Hlynur drekki ekki, ég elska það.“

En þú, Hlynur, hlýtur að hafa fengið óumbeðið álit þegar þú byrjaðir með Ellýju?
„Hún var á þessu tímabili að teikna allsberar konur,“ segir Hlynur.
„Píkur og brjóst,“ bætir Ellý við.
„Og svo tveimur mánuðum eftir að við kynntumst fór hún úr að ofan í viðtali á K100,“ segir Hlynur og vísar í atvik þegar Ellý fór úr bolnum í út­varpsviðtali en viðtölin eru einnig tekin upp af mynd­bandsupptökuvélum. Ellý var að sýna spyrlunum nýtt húð­f lúr. „Ég sagði strax við fólk sem var ræða þetta við mig, hún verður ekki í þessu enda­laust,“ segir Hlynur slakur.
„Hún teiknar ekki píkur stanslaust. Ég stjórna henni ekki neitt en ég gaf sjálfum mér leyfi til þess að njóta frelsisins sem fylgir því að leyfa fólki að vera eins og það er. Ef ég hefði komið með eina tillögu að því hvernig hún ætti að vera, þá hefði hún farið – ég varð að vanda mig. Virkilega vanda mig og þegar maður vandar sig er maður líka betri manneskja. Það er það sem þú hefur kennt mér Ellý, að vanda mig í lífinu.“

„Ég? Ég brotnaði nú bara niður og hágrét á forstofu­gólfinu eftir vikusamband. Teiknaði píkur, tók myndir af mér í engu og setti á Insta­gram. Ég var svo mikið að fá að vera ég og um leið að bíða eftir að hann tæki einhvern trylling á mig,“ segir Ellý. Til allrar lukku er enginn tepruskapur í Hlyni því ann­ars væri Ellý búin að gera hann fokheldan.

„Það er villingurinn í honum sem ég elska.“
Ellý eignaðist ekki bara mann þegar þau Hlynur byrjuðu saman, heldur heila fjölskyldu. „Af því að ég fékk ekki fjölskyldulíf sem barn þá reyndi ég eins og ég gat að láta mitt fyrra sam­band ganga eftir að ég komst að því að ég væri ólétt,“ segir Ellý, sem barðist alla tíð fyrir meiri samskiptum við föður sinn heitinn sem átti aðra fjöl­skyldu. „Svo kynnist ég þessari fjölskyldu. Þessari stóru fjöl­skyldu sem vinnur saman og er alltaf saman og þau bjóða mig velkomna,“ segir Ellý og ljómar – ástfangin sem aldrei fyrr.

Ellý Ármanns og Hlynur Jakobsson. DV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“