Ellý Ármannsdóttir listakona og tilvonandi eiginmaður hennar Hlynur Jakobsson tónlistarmaður voru í forsíðuviðtali DV 12.02.2020. Hér birtist brot úr því viðtali.
Sambandið þróaðist hratt, Hlynur rétti Ellý lykla af íbúðinni eftir 10 daga og hugmynd um bónorð gerði vart við sig snemma.
„Mig langaði að biðja hana að giftast mér eftir sex mánuði,“ segir Hlynur.
„Ætlaðir þú að biðja mig um að giftast þér eftir sex mánuði?,“ spyr Ellý hissa.
„Ég hugsaði það strax fyrstu vikuna. En ég vissi að það væri betra að bíða svo ég fengi ekki strolluna yfir mig. Þú sagðir líka við mig að þú værir pakki. Opinber manneskja með pakka á bakinu. Það eru allir með pakka á bakinu.“
„Mér fannst ég ekki nógu góð fyrir þig. Mér fannst ég vera í skítnum. Ég bjó þarna í þessu leiguherbergi því ég var búin að missa húsið eftir skilnaðinn. Það var allt skrifað á mig og það stefndi í gjaldþrot, en það gekk reyndar ekki í gegn fyrr enn nýlega,“ útskýrir Ellý sem flutti úr stóru einbýlishúsi í Hlíðunum í herbergi fyrir ofan skemmtistað í miðborginni. Þar bjó hún með yngstu dóttur sína 10 ára, sem dvaldi þó einnig hjá föður sínum, en þau deila forræði.
„Ég var að fara úr stóru einbýlishúsi þar sem mér leið illa og í þetta herbergi, en mér leið vel þó þetta hafi verið erfitt. Ég var frjáls. En svo kynnist ég manni sem var ótrúlega góður við mig. Ég sagði honum strax frá þessu. Að ég byggi þarna og hvernig peningamálin væru.“
Á þessum tíma var Ellý byrjuð að mála sem hún segir vera mikla blessun og hún kenndi einnig í líkamsræktarstöðinni Reebook. „Það var lifibrauðið mitt og þar komst ég líka í sturtu. Við deildum svo mörg baðherbergi þar sem ég leigði herbergið, að ég fór helst ekki í sturtu þar. Ég ætlaði aldrei að hleypa Hlyni þarna inn en svo hringir hann einn daginn og segist vera fyrir utan með kaffi. Ég skammaðist mín fyrir hvernig ég bjó, en hann stóð fyrir utan með tvo bolla. Ég hugsaði bara: nei, nú sér hann hvað ég er mikill lúser. Ég íhugaði að ljúga að honum en við vorum búin að ákveða að vera alltaf heiðarleg svo ég gat það ekki. Ég varð að hleypa honum inn.“
Hlynur segist ekki mikið hafa kippt sér upp við þetta enda hafi hann sjálfur búið í sambærilegum herbergjum þegar hann var yngri. „Ég hugsaði strax. Gerum þetta saman. Sköpum okkur gott líf saman. Mitt markmið var að koma henni úr þessu herbergi“
.„Ég man að hann horfði á mig þarna og sagði: Ellý, þú ert mín draumakona. Og ég hugsaði „einmitt“ en á sama tíma var ég komin í sátt við mig sjálfa og farin að elska mig aftur – þarna í þessu herbergi.“