Athafnakonan Drífa Björk Linnet flutti til Tenerife fyrir nokkrum vikum ásamt eiginmanni sínum Haraldi Loga og tveimur börnum þeirra, sjö og níu ára gömlum. Drífa segir lífið á Tene ganga sinn sólkyssta gang og börnin eru alsæl.
Opnuviðtal við Drífu birtist í helgarblaði DV 5.febrúar 2020. Viðtalið birtist hér í heild sinni.
Drífa og Halli eins og hann er kallaður reka ferðaþjónustu á Hraunborgum á Suðurlandi sem er nú lokuð yfir veturinn og heildsöluna Reykjavík Warehouse sem þau geta rekið í fjarvinnu. Því var ekkert því til fyrirstöðu að fjölskyldan breytti til og flytti tímabundið til Tenerife.„Frá árinu 2008 höfum við komið hingað ansi ört í frí og alltaf varð dvölin lengri og lengri í hvert skipti. Við fórum svo að eyða öllum jólum og áramótum hér líka og svo árið 2018 þá sá ég auglýst hús hérna til leigu svo ég ákvað að það væri líklega bara ódýrara og þægilegra fyrir okkur að hafa hér hús í langtímaleigu með öllu svona því helsta af okkar persónulega dóti sem við vorum vön að koma með,“ segir Drífa. Þetta varð til þess að fjölskyldan fór mun oftar og dvaldi að jafnaði lengur.
„Við vorum farin að skjótast hingað jafnvel með dags fyrirvara og þurftum ekkert nema handfarangur því allt sem við þurftum var klárt í húsinu og beið okkar. Venjurnar fóru líka að breytast, við fórum að elda meira heima, kveikja á kertum og horfa bara á sjónvarpið.“
Andleg heilsa
Drífa segir að heimferðirnar hafi orðið erfiðari þar sem þeim leið mjög vel á eyjunni fögru og langaði sífellt minna heim. „Við erum gríðarlega heppin með starfsfólk í heildsölunni okkar á Íslandi svo þetta hefur gengið rosalega vel að dvelja hér í nokkra mánuði í senn og ná að fjarstýra rekstrinum heima. Við ákváðum því núna að taka þetta skrefinu lengra og leyfa börnunum að prófa skólann hér fram á sumar og hugsuðum með okkur að þau gætu svo sannarlega ekki tapað á því að upplifa þetta tækifæri, að læra ný tungumál og eignast fleiri vini hérna.“
Hún segir aðalmuninn á því að búa á Tenerife og Íslandi, fyrir utan loftslagið vera andlega heilsu. „Við höfum alltaf unnið mjög mikið og því fylgir eðlilega meira stress og streita. Hérna högum við okkur bara öðruvísi. Við hugsum töluvert betur um heilsuna, förum mikið í göngutúra saman með fram sjónum. Áður en maður veit af er maður búinn að ganga 10-15 kílómetra án þess að finna fyrir því. Við förum líka mikið í sjóinn sem gerir manni gott. Við vinnum alla okkar vinnu í gegnum síma eða tölvu svo maður sest bara út með kaffibollann sinn á morgnana og horfir á hafið og hlustar á fuglasöng. Svo bara lokum við tölvunum og förum út að ganga, skreppum í golf, tennis eða hvað sem er.“
Drífa segir helgarnar vera ævintýri líkastar enda nóg við að vera. „Við getum farið í vatnsrennibrautagarða, tívoli, dýragarða, farið í bátsferð eða jafnvel farið á hótel yfir helgina.“ Blóðþrýstingslyfin burtDrífa segir muninn á morgnunum milli landa vera mikinn. „Heima á Íslandi byrjaði dagurinn á því að vekja börnin klukkan 07.00 í svartamyrkri, skafa gaddfrosinn bíl og keyra þau í skólann. Í frostinu var svo rétt smá birta yfir daginn örstutt áður en fór að dimma aftur. Við fórum aldrei út að ganga heldur keyrðum allt og vorum í raun ekkert af viti utan dyra sjö mánuði á ári.“
Halli eiginmaður hennar var kominn á blóðþrýstingslyf og komin með króníska vöðvabólgu sem kallaði á stöðugt nudd og verkjalyf. „Hér erum við bæði í betra jafnvægi andlega og líkamlega, og það er magnað að sjá breytinguna á börnunum sínum þegar foreldrarnir eru afslappaðri. Það er nefnilega bein tenging við okkar líðan og hvernig það svo speglast í börnunum manns. Ef við erum stressuð eða áreitið er mikið verður þráðurinn í okkur styttri og þá verða börnin nákvæmlega eins.“
Verðlagið og viðmótið
„Helsta breytingin við að vera hér er líka auðvitað verðlagið, hér er allt töluvert ódýrara og svo verð ég að nefna hvað fólk er ótrúlega hjálpsamt! Hér eru heimamenn boðnir og búnir og fólk almennt jákvætt og áhyggjulaust. Viðmótið er slakara og hroki sjaldséður og fólk virkilega samgleðst en er ekki að bera sig saman við næsta mann í einhverri biturð,“ segir Drífa og bendir á að þó sé ekki allt fullkomið á Tenerife frekar en annars staðar.
„Slakanum fylgir að allt tekur hér meiri tíma en heima. Það að panta sér internettengingu eða að fá pípara getur tekið mánuð en við Íslendingar erum vön að allt sé gert eins og skot! Heima á Íslandi gerist allt miklu hraðar svo maður þarf að venjast því að gefa hlutunum meiri tíma hér. Gamla fólkið hér sest í sólsetrinu og horfir á öldurnar og ræðir heimsmálin. Stendur svo jafnvel upp ef það er tónlist og fer að dansa og dilla sér án þess að spá neitt í það hvort það sé asnalegt eða hvað næsta manni finnst. Þetta ætla ég að taka mér til fyrirmyndar. Ég elska svona viðmót! Ætli sólin geri mann ekki bara svona auðmjúkan og glaðan í hjartanu.“
Takmarkanir
„Eins og staðan er núna mega sex sitja saman á veitingahúsum og það er útgöngubann frá klukkan 23.00 á kvöldin og til 06.00 á morgnana. Það eru allir með grímur og það er alls staðar spritt. Þú mátt svo taka af þér grímuna á meðan þú ert á veitingastöðum eða á ströndinni. Það er allt sprittað vel á milli viðskiptavina.“
Drífa segir talsvert af hótelum vera lokað og sjálfsagt slatta af veitingahúsum en ekkert sem þau finni beint fyrir enda sé nóg opið. Haraldur og Björk, börn hjónanna, byrjuðu í alþjóðlegum skóla og gengur vonum framar. „Það var ekkert mikið mál að skrá þau. Við þurftum að hringja og panta skjöl að heiman og það tók kannski hálfan dag að safna þessu og senda áfram. Heilsufarsvottorð, fæðingarvottorð, vitnisburður, bólusetningar-skírteini og þess háttar. Það er hægt að sækja flest af þessum skjölum rafrænt svo það var ekkert mál.“
Því næst voru keyptir skólabúningar og börnin mættu sinn fyrsta dag. „Það er greinilega mikið lagt upp úr því að nýjum börnum sé vel tekið og eineltismál ekki tekin í mál því bæði börnin fengu strax í frímínútum hóp barna að sér sem sögðu nánast orðrétt sömu setninguna við þau. „Hæ, ég sé að þú ert nýr í skólanum, við getum hjálpað þér ef þig vantar aðstoð. Viltu vera vinur okkar?“
Svona eins og þetta sé þjálfað í þau eins og stafrófið að taka svona á móti nýjum börnum. Svo þau hafa átt meira en nóg af vinum frá fyrsta degi.“ Drífa segir það mikilvægt að undirbúa börnin vel fyrir þessar aðstæður. „Við sögðum þeim að vera opin þegar tækifærið gefst en lokast ekki og fara að læðast með fram veggjum. Því þá á endanum hljóta hin börnin að gefast upp og barnið fer þá að einangrast félagslega sem gæti orðið til þess að barninu finnst þetta hræðileg lífsreynsla og vill bara fara heim.“
Kostnaðurinn
Drífa hefur fengið mikinn fjölda fyrirspurna frá for-vitnum Íslendingum í gegnum Instagram svo ljóst er að mikill áhugi er á möguleikanum á að flytja til Tenerife. Drífa hefur vart undan að svara fyrirspurnum, svo sem um kostnað. „Mánuðurinn í einkaskóla kostar sirka 80.000 krónur með mat á hvert barn en hægt er að sleppa mat og hafa nesti og þá er talan lægri. Í upphafi þarf svo einnig að greiða skráningu, skólabúninga og bækur.“
Hún segir venjulega hverfisskóla vera mun ódýrari. „Ég er alls ekkert viss um að þeir séu verri kostur svona eftir á að hyggja. Okkur þótti bara ákveðið öryggi í því að starfsfólkið talaði ensku og þarna væru börn sem öll þekkja þessar aðstæður, að koma í nýjan skóla í nýju landi, en ég er viss um að hverfisskólarnir taka vel á móti börnunum líka.“
Drífa segir kostnaðinn við flutninginn ekki vera mikinn. „Hér er endalaust í boði af fínum íbúðum og húsum til langtímaleigu og 95 prósent af þeim eru með húsgögnum svo þú þarft í raun ekkert nema fötin þín og fara svo bara út í búð og fylla ísskápinn af mat. Svo er aftur annað mál ef þú ætlar að kaupa þér hús eða drösla allri búslóðinni frá Íslandi. Þá liggur helsti kostnaðurinn auðvitað þar.“
Fjölskyldan hefur ekki ákveðið hvað hún verður lengi á eyjunni fögru en þau koma allavega heim í sumar til að reka sumarparadísina Hraunborgir. Áttu ráð til Íslendinga sem langar í ævintýri?„Já, bara GO FOR IT! Við fáum bara eitt líf úthlutað og þurfum að hætta að tala um draumana og fara að gera meira af því að láta þá rætast.“
Hún segir það mikilvægt að hugsa málið til enda, á hverju fólk ætli að lifa og hvernig líf það vilji.„Langar þig að fá út úr þessu tækifæri til að hugsa vel um þig og verða besta útgáfan af þér eða langar þig að komast hingað út til að þú getir verið að drekka ódýran bjór alla daga? Það þarf að passa sig á þessu því fólki hættir til að haga sér eins og ferðamenn. Það er allt í lagi að djamma og slappa af í fríi en þegar þú dvelur hér í lengri tíma þá verðurðu fljótt sjúskað eintak og þér mun ekki líða vel. Það getur líka orðið til þess að fallegi fjölskyldudraumurinn um ævintýri í útlöndum verður að ljótum minningum um mömmu og pabba sem voru að drekka vín alla daga. Þetta getur fært fjölskylduna betur saman eða eyðilagt hana,“ segir Drífa.
Drífa bendir fólki á að fylgjast með ævintýrunum á Instagram undir notendanafninu drifabk