fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Tímavél: Sígarettur öryggisventill fyrir sálarlíf kvenna

Tobba Marinósdóttir
Mánudaginn 15. febrúar 2021 18:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reykingar hafa lengi verið mikið áhyggjuefni en íslenskar konur reyktu mjög mikið á árum áður, svo mikið að íslenskur læknir talaði um farsótt hérlendis. Margar mis- gáfulegar ástæður voru gefnar fyrir reykingum kvenna, svo sem taugaveiklun.

Mikið hefur farið fyrir sígarettumyndum síðastliðna daga í kjölfar þess að bjór var tekinn úr sölu vegna myndar á dósinni af manni að reykja sem er brot á tóbaksvarnalögum.

Síðasta sumar fór mikið fyrir frægri mynd af Bubba Morthens reykja sem notuð var í auglýsingar fyrir söngleikinn 9 líf. Sígaretta var fjarlægð af öllu helsta markaðsefni söngleiksins í kjölfarið vegna þess að lögum samkvæmt má ekki auglýsa tóbak opinberlega.

Segir í tóbaksvarnalögum að bannað sé að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu og í myndskreytingu á varningi. Það er ekki langt síðan reykingar þóttu ekkert tiltökumál þó vissulega væri fólk farið að gera sér grein fyrir hversu hættulegar heilsunni þær væru.

Reykingar voru bannaðar opinberlega innandyra, til að mynda á veitinga- og skemmtistöðum hérlendis frá 1. júní 2007. Þar áður elskuðu Íslendingar að reykja nánast hvar sem var og hvenær sem var en sífellt fleiri forðast nú reykingar.

Það er engu að síður algengt áramótaheit að losna undan tóbaksdjöflinum en fíknin heldur þó mörgum í heljargreipum ár eftir ár.

Vikan birti grein árið 1984 með fyrirsögninni Af hverju gengur konum svona illa að hætta að reykja? Er þar lýst hugarangri íslenskra kvenna vegna reykinga og vandkvæðum við að hætta. Greinin var byggð á erlendri grein og hún sögð „lauslega þýdd“.

„Vinkona mín kom í heimsókn til mín nýlega og bar merki hinnar mestu taugaveiklunar. Hún var öll á iði. Hamraði fingrum í borðið og gat ekki setið kyrr þegar hún lýsti því yfir að hún væri harðákveðin í að hætta að reykja en tilhugsunin um heilt lífsskeið fram undan án sígaretta væri henni næstum um megn. Og hún er ekki ein um að hugsa svona.“

Karlar reykja ef þeim leiðist

Í greininni er því haldið fram að konur eigi helmingi erfiðara með að hætta að reykja en karlar og að karlmenn hafi tekið reykingaáróðrinum af miklu meiri alvöru en konur. „Samkvæmt skýrslu Konunglega breska læknafélagsins „Health or Smoking“ virðast konur fremur reykja undir tilfinningaálagi eða streitu þegar karlmenn virðast fremur reykja ef þeim leiðist eða þegar þeir eru þreyttir.“

Í kjölfarið er vísað til þess að sígarettur geti virkað eins og öryggisventill fyrir neikvætt sálarástand óstöðugra kvenna.

„Konur gripu oft til sígarettunnar undir kringumstæðum þegar þær voru svekktar, reiðar, æstar eða höfðu sektarkennd.“ Vísað er í bandaríska rannsókn sem leiddi í ljós að konur óttast að missa stjórn á skapi sínu og verða mislyndar ef þær hætta að reykja og kjósa því fremur að halda ósiðnum áfram á kostnað heilsu sinnar.

Litla kona í sambandinu

Tekið er dæmi um Margréti sem hætti að reykja fyrir tveimur árum og uppgötvaði þegar reykjarhulunni lyfti að hún var í slæmu sambandi.

„Ég var litla kona í sambandinu og hlutverk mitt var að vera honum til ánægju og vera sjarmerandi og kvenleg. En svo ákvað ég að hætta að reykja og það var athyglisvert hvernig reiðitilfinningar brutust þá upp á yfirborðið. Ég fór að skoða samband okkar í allt öðru ljósi og sá virkilega ástæðu til þess að hreinsa andrúmsloftið og tala opinskátt um samband okkar.“

Hún segir að auðvitað sé hægt að benda á að hún hafi breyst við að hætta að reykja fremur en að sambandið hafi alltaf verið slæmt.

„Ég er hins vegar á því að sambandið hafi verið mjög slæmt og að ég hafi ekki séð það fyrr en að reykjarhulunni var svipt frá vitum mínum. Sambandið fór út um þúfur en ég er hætt að reykja og það var vel þess virði.“

Í greininni er minnst á að hræðsla við að fitna geti vel haldið konunum við öskubakkann og er fólk hvatt til að leita aðstoðar hjá sérfræðingum, í hópum eða jafnvel prófa að reykja mjög mikið þar til það fær ógeð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“