fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
Fókus

Halla Fróðadóttir: Mín sérgrein er í raun allt sem viðkemur brjóstum

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 6. febrúar 2021 07:00

Halla Fróðadóttir. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halla Fróðadóttir lýtaskurðlæknir er fædd og uppalin í Mosfellsdalnum og vill hún hvergi annars staðar búa. Hún er orðin „senior“ á bruna- og lýtaskurðdeild Landspítalans sem er eina deildin sinnar tegundar á landinu.

Forsíðuviðtal við Höllu úr helgarblaði DV 29. janúar birtist hér í heild sinni.

„Við búum eiginlega bara í sveit – erum með hesta, hunda, ketti, hænur og stundum svín. Við erum alveg þar,“ segir Halla Fróðadóttir lýtaskurðlæknir. „Hér í Mosfellsdalnum erum við umvafin fjöllum sem hægt er að ganga á, erum í beinni snertingu við náttúruna en síðan er ég bara 20 mínútur á Landspítalann,“ segir hún.

Halla er formaður Félags íslenskra lýtalækna. Hún hefur starfað sem lýtaskurðlæknir á bruna- og lýtadeild Landspítala frá 2010 þar sem hún hefur lagt áherslu á enduruppbyggingu brjósta eftir krabbameinsaðgerðir og starfar náið með sáramiðstöð Landspítala. Hún tók þátt í stofnun Klíníkurinnar og starfaði um tíma bæði þar og á Landspítalanum en ákvað síðan að helga sig starfinu á spítalanum.

Hún er fædd og uppalin í Mosfellsdalnum og býr þar að Dalsgarði, í húsi sem afi hennar og amma byggðu á sínum tíma. „Það voru forréttindi að fá að alast hér upp og ég vil hvergi annars staðar vera. Þetta heimili hefur alla tíð verið mjög opið, hér hafa margir komið við í gegnum tíðina og margar veislurnar verið haldnar. Það virðist svolítið loða við þetta hús og fjölskylduna að halda veislur og hafa mikið af fólki í kringum sig. Það er einhver stemning í þessu gamla húsi.“

Halla er gift Hákoni Péturssyni byggingaverktaka og saman eiga þau þrjá syni – Mána 18 ára, Bjart 16 ára og Fróða 8 ára. „Fróði er nefndur í höfuðið á pabba mínum heitnum. Strákarnir eru hæstánægðir með að búa hér. Þeir tveir eldri eru komnir í framhaldsskóla en sá yngsti sækir skóla í Mosfellsbæ. Þeir tóku skólarútuna í Varmárskóla eins og ég gerði sem barn. Ég var meira að segja með sama tónmenntakennara og þeir,“ segir Halla sem á líflegar og góðar minningar úr dalnum.

Hún fór heldur ekki langt til að kynnast eiginmanninum því hann flutti í dalinn 12 ára gamall og var mikið í hestum rétt eins og Halla. Þau voru 14 ára þegar þau byrjuðu saman, og hafa verið saman síðan. Afi Höllu, Jóhann Jónsson, stofnaði garðyrkjustöðina Dalsgarð árið 1946, Fróði pabbi hennar kom síðar inn í reksturinn en hann er nú í höndum föðurbróður hennar, Gísla. Pabbi hennar var elstur af átta systkinum, öll eru þau á lífi utan föður hennar og fimm þeirra búa í Mosfellsdal. Hún er því umkringd stórfjölskyldunni.

„Ég er mikil dreifbýlisgella í mér. Ég elska að vera í sveitinni. Það eru alger forréttindi að búa í Mosfellsdalnum. Hér er svo stutt í náttúruna en samt svo stutt til Reykjavíkur á sama tíma. Það er svo skemmtilegt og gott samfélag hérna. Við getum haft hestana okkar hjá okkur á sumrin og riðið út í dalnum. Það besta sem ég veit er að koma heim eftir vinnudag og hitta fjölskylduna. Við erum samheldin fjölskylda, eigum mörg sameiginleg áhugamál. Erum í hestum og veiði, bæði skot- og stangaveiði.“

Halla Fróðadóttir. Mynd/Sigtryggur Ari

Heimavinnandi í ár

Halla lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2001 og hélt til Svíþjóðar að loknu kandídatsári þar sem hún lauk sérnámi í lýtaskurðlækningum frá háskólasjúkrahúsinu í Malmö haustið 2009.

„Ég hef alltaf verið mjög ákveðin. Ég ætlaði mér bara alltaf að verða læknir og gerði það. Móðurbræður mínir tveir eru læknar, Óttar og Guðmundur Guðmundssynir. Það hefur kannski líka haft áhrif á mig að ég dvaldi lengi á spítala sem barn, ég var með bakflæði til nýrna og þurfti að fara í margar rannsóknir og aðgerðir. Á þeim tíma lágu allir svo lengi inni á spítala í hvert sinn og foreldrar máttu ekki vera hjá börnunum lengur en til klukkan átta á kvöldin. Eftir það voru allar spiladósir trekktar í botn og grátkórinn tók við á deildinni. Mamma gat ekki heyrt í spiladós eftir þetta án þess að verða miður sín.“

Hún segir það alltaf hafa legið fyrir henni að verða skurðlæknir og eiginlega ákvað hún strax að verða lýtaskurðlæknir. „Það hefur líklega verið handverkið sem heillaði mig, ég hef alltaf verið flink í höndunum. Ég er þó engin handavinnudrottning eins og svo margir í kringum mig. Ég er eiginlega svarti sauðurinn í mínum saumaklúbbi, sú eina sem er alltaf að prjóna sömu peysuna ár eftir ár. Ég held bara uppi stuðinu í klúbbnum í staðinn,“ segir hún og brosir.

Maðurinn hennar fylgdi henni út í námið en að því loknu fylgdi hún honum til Kentucky í Bandaríkjunum þar sem hann fór að vinna með bróður sínum sem rak þar hestabúgarð og var með íslenska hesta. „Ég var þá heimavinnandi húsmóðir. Þrátt fyrir að ég væri með sérfræðiréttindi þá giltu þau ekki í Bandaríkjunum. Ég kynntist hins vegar fjölda lýtaskurðlækna og þegar strákarnir voru í skólanum fékk ég að fylgja þeim eftir. Þetta var afskaplega lærdómsríkt. Ég var að koma úr íhaldssömu sænsku umhverfi og yfir í bandarískt umhverfi sem er allt annað en íhaldssamt þegar kemur að fegrunaraðgerðum.“

Eina lýtaskurðlækningadeild landsins

Eftir ár í Bandaríkjunum fluttu þau aftur heim og Halla fékk starf á Landspítalanum. „Ég kom heim fyrr en ég ætlaði mér. Flestir eru úti í nokkur ár til að öðlast reynslu áður en þeir koma heim og í mörgum fögum er það algjörlega nauðsynlegt. Hér eru fáir sérfræðingar í hverri sérgrein og mikilvægt að fólk geti unnið sjálfstætt. Ég var lánsöm að fá vinnu á spítalanum. Þar er eina lýtaskurðlækningadeild landsins og maður þarf því að kunna sitt lítið af hverju.“ Lengst af hafa lýtaskurðlæknar verið í hlutastarfi á spítalanum samhliða vinnu á sinni einkastofu. Nú síðustu árin er kjarni lýtaskurðlækna sem starfa eingöngu á spítalanum.

„Bruna- og lýtaskurðdeildin þjónustar allt landið og þegar maður er á vakt er maður á vakt fyrir allt landið. Starf lýtaskurðlæknis á spítalanum er mjög fjölbreytt. Það geta verið brunar, stórir áverkar á húð, erfið sár sem þarfnast húðágræðslu, lagfæringar á fæðingargöllum eins og skarð í vör og góm. Starf okkar gengur út á að lagfæra eða endurskapa það sem sjúklingurinn hefur misst. Áverkar og sjúkdómar geta valdið fólki miklum missi í leik og starfi og okkar hlutverk er að reyna að hjálpa því að ná sem mestu til baka.

Stór þáttur af okkar vinnu er í samvinnu við brjóstaskurðdeildina. Ég hef sérhæft mig í uppbyggingu brjósta eftir brjóstnámsaðgerðir, hvort sem er vegna krabbameins eða áhættuminnkandi vegna erfða. Mín sérgrein er í raun allt sem viðkemur brjóstum. Ég fæ til mín mikið af ungum konum með missmíð á brjóstum vegna fæðingargalla, brjóstaminnkanir, brjóstnám hjá transmönnum og fleira. Ég held að það sé þörf fyrir fleiri konur í þessu fagi. Ég er eini kvenkyns lýtaskurðlæknirinn á spítalanum um þessar mundir. Það eru tvær aðrar konur starfandi í faginu í dag en þær eru báðar á stofu úti í bæ.“

Halla Fróðadóttir. Mynd/Sigtryggur Ari

Tók þátt í að stofna Klíníkina

Starfsemi lýtaskurðdeildarinnar hefur vaxið mikið á undanförnum árum. Læknar deildarinnar starfa náið með sérgreinalæknum annarra deilda, svo sem háls-, nef- og eyrnaskurðlæknum, bæklunarskurðlæknum, æðaskurðlæknum, og heila- og taugaskurðlæknum.

Tvö ár eru síðan Halla hætti á Klíníkinni og fór aftur í fullt starf á spítalanum. Hún bendir á að bruna- og lýtaskurðdeildin sé í raun með tvær starfsstöðvar, bæði í Fossvogi þar sem hin eiginlega deild er og síðan við Hringbraut þar sem brjóstaskurðdeildin er. Á báðum stöðum er göngudeild, legudeild og skurðdeild. Starfið á Klíníkinni hafi því í raun verið eins og þriðji vinnustaðurinn og henni hafi gengið illa að sameina þetta.

„Mér bauðst að taka þátt í að stofna Klíníkina í Ármúlanum á sínum tíma og ákvað þá að minnka við mig á spítalanum. Það var spennandi að taka þátt í að byggja upp nýja klíník frá grunni. Það fylgdi því töluverður mótvindur í upphafi en Klíníkin hefur algerlega sannað sig síðan og er í fullum blóma í dag. Ég ákvað þó að draga mig út úr þeirri starfsemi þar sem ég var alveg að drukkna í vinnu.

Að hætta á stofunni einfaldaði líf mitt gríðarlega mikið. Þetta var ekki auðveld ákvörðun en ég er sátt. Ég er með stóra fjölskyldu og næ núna betur að halda utan um allt. Það kom líka til greina að fara alveg á Klíníkina en ég fann að ég var ekki tilbúin til að hætta á spítalanum. Ég er mjög ánægð þar, vinn með góðu fólki og vinnan er skemmtileg.“

Helsta vandamálið við að vinna á stórri stofnun eins og Landspítalanum sé að stjórnkerfið er flókið. „Fagstéttirnar og yfirstjórnin eru ekki alltaf að tala saman. Mér finnst oft vanta meiri aðkomu fólksins á gólfinu í að taka ákvarðanir og það getur verið löng leið að því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif.“

Var algjör karlastétt

Halla kom frekar snemma heim úr sérnámi og finnst frekar fyndið að vera núna orðin „senior“ í starfi. „Það er ákveðið frelsi sem fylgir því og maður þarf ekki lengur að sanna sig. Þegar ég var að byrja voru unglæknarnir að fara út í sérnám og þeir sömu eru núna að koma heim aftur. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Ég finn einmitt hvað mér finnst skemmtilegt að vinna með unglæknunum og nemunum á spítalanum. Það á vel við mig að miðla til þeirra, mér finnst gaman að sjá þau vaxa í starfi og sjá hvað þau eru ótrúlega metnaðarfull og dugleg. Ég finn að mér finnst það mjög gefandi. Helsti gallinn við að vera á stofu, ekki bara sem lýtaskurðlæknir, er að það er mikil einyrkjastarfsemi.“

Þá segir hún á spítalanum starfandi skemmtilegan félagsskap kvenkyns skurðlækna sem kallast Möggurnar, í höfuðið á Margréti Oddsdóttur heitinni skurðlækni. „Hún var mikill frumkvöðull í skurðlækningum og hefur verið hvatning fyrir aðrar konur að fara í skurðlæknisfræði. Það fjölgar alltaf í þessum hópi. Einmitt núna eru þrír læknar sem hafa farið út í sérnám í lýtaskurðlækningum og það eru allt konur.“

Hún rifjar upp að lækningar, sér í lagi skurðlækningar, hafi lengi vel verið algjör karlastétt. „Þessi eldri kynslóð lækna var kannski ekki þekkt fyrir að leggja mikla áherslu á góð samskipti. Þetta hefur breyst mikið, hvort það er með tilkomu kvenna í stéttina veit ég ekki. Konum hefur fjölgað mikið í læknastéttinni og nú eru um 60 prósent af þeim sem útskrifast úr læknadeild konur. Hlutfallið hefur breyst mjög mikið.“

Tvær leiðir

Þegar kemur að uppbyggingu á brjóstum eftir krabbameinsmeðferð eru tvenns konar leiðir. „Annars vegar er það uppbygging með silíkonpúða. Þetta er aðgerð sem er oftast gerð í tveimur skrefum. Í fyrra skrefinu, þegar brjóstið er fjarlægt, er settur inn svokallaður vefjaþenjari eða vefþenslupoki sem þenur út húðina á brjóstinu. Hann er látinn vera í tvo til þrjá mánuði og er síðan skipt út fyrir púða.

Hins vegar er um að ræða uppbyggingu á brjósti með eigin vef sem kallast flipaaðgerðir. Geislameðferð hefur skemmandi áhrif á vefinn og púðauppbygging hentar því síður þar sem vefurinn verður stífur og lélegur, og brjóstið hefur tilhneigingu til að verða hart ef það er settur púði. Eftir geislameðferð þurfa konur því að fá ferskan vef á svæðið.

Yfirleitt er þá tekinn húðflipi af maganum, með æðum, og æðarnar tengdar við brjóstkassann. Þetta er stór aðgerð og ekki allar konur sem eru kandídatar í slíka aðgerð. Í fyrsta lagi þarf að hafa vef sem hægt er að taka og í öðru lagi þurfa konur að hafa góða heilsufarssögu heilt yfir. Konur sem reykja geta ekki farið í þessa aðgerð.“

Gengur í hlutina

Halla bendir á að óvenju margir stórbrunar hafi átt sér stað á síðustu tveimur árum og því margir illa slasaðir sem hafa komið á bruna- og lýtaskurðdeild eftir bruna. „Það er eins og þetta komi í bylgjum, þessir stóru brunar. Þetta eru oft miklir og alvarlegir áverkar, sjúklingarnir eru oft á öndunarvél og þurfa að fara í margar aðgerðir. Þeir sem eru með alvarlegustu brunana þurfa gjörgæslumeðferð fyrstu vikurnar, þar til þeir eru komnir úr lífshættu.“

Hún segir í raun aldrei hægt að venjast því að hlúa að sjúklingum sem eru með alvarlegustu brunasárin, jafnvel um allan líkamann. „Það er með þetta starf eins og svo mörg önnur að maður gengur bara í hlutina.“

Þá felst starfið ekki aðeins í því að hlúa að sjúklingnum heldur þarf einnig að vinna með aðstandendum. „Sjúklingar eru í alls konar ástandi þegar þeir lenda í sínum áföllum, hvort sem það er kona sem greinist með brjóstakrabbamein eða sjúklingur sem lendir í bruna. Það er ótrúlega mikið sem fólk þarf að díla við í kjölfarið og það þarf að mæta því þar sem það er statt.

Lykilatriði er að eiga góð samskipti við sjúklinginn og aðstandendur, sem og annað starfsfólk. Við erum ótrúlega heppin á lýtadeildinni að þar er frábært starfsfólk á öllum sviðum, legudeild, skurðdeild og göngudeild. Allt eru þetta jafn mikilvægir viðkomustaðir sjúklinga. Þó við læknar séum ábyrgir fyrir sjúklingnum er umönnunin fyrst og fremst í höndum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á deildinni. Án þeirra væri þetta ekki hægt. Þetta er starfsfólk með mikla reynslu af sárum, sárameðferð og umönnun sjúklinga.“

Halla Fróðadóttir. Mynd/Sigtryggur Ari

Stór ákvörðun

Nokkuð hefur verið fjallað um hið svokallaða brakkagen, BRCA-gen. Meinvaldandi breytingar í bæði BRCA1 og BRCA2 auka hættu á nokkrum krabbameinum, meðal annars brjóstakrabbameini. Margar þeirra kvenna sem vita að þær eru með þessa stökkbreytingu kjósa að fara í áhættuminnkandi brjóstnám.

„Þetta eru frískar konur en í mörgum tilvikum eru mjög miklar líkur á að þær fái brjóstakrabbamein. Þær standa því frammi fyrir þeirri ákvörðun að láta fjarlægja á sér brjóstin eða vera í reglulegu eftirliti með myndrannsóknum. Meirihluti kvenna velur að fara í brjóstauppbyggingu samhliða brjóstnáminu en þó ekki allar konur.

Þetta er stór ákvörðun og getur haft mikil áhrif á lífsgæði kvenna. Það geta verið aukin lífsgæði fyrir konu að velja áhættuminnkandi brjóstnám en það er ekki sjálfgefið að allt gangi að óskum. Fylgikvillar aðgerða geta haft áhrif á útkomuna og geta þarfnast endurtekinna aðgerða. Þetta hefur óhjákvæmilega áhrif á lífsgæði þessara kvenna.

Við getum líka verið með konu sem fer í vel heppnaða aðgerð en henni líður samt ekki nógu vel með þetta. Það getur verið erfitt að venjast tilfinningunni í brjóstunum eftir aðgerð.

Þær konur sem fara í áhættuminnkandi brjóstnám eru yfirleitt á aldrinum 35-50 ára. Bakgrunnur þessara kvenna er mismunandi og þær geta verið með alls konar áfallasögu á bakinu sem hefur áhrif á upplifun þeirra. Sumar þessara kvenna hafa átt mömmu eða systur sem hefur látist úr krabbameini. Það er að mörgu að huga.“

Sjúkratryggingar taka þátt í að niðurgreiða áhættuminnkandi aðgerðir sem og brjóstaaðgerðir í kjölfar krabbameins. Þegar kemur að því sem kallast hreinar fegrunaraðgerðir greiðir fólk hins vegar sjálft fyrir aðgerðina.

Gjörólíkar forsendur

Halla segir starf lýtaskurðlækna á stofu snúast að stórum hluta um fegrunaraðgerðir sem sé töluvert ólíkt því starfi sem er unnið á spítalanum. Hún nýti sér þó þekkingu sína úr fegrunarlækningum við lýtaskurðaðgerðir og svo öfugt. Þetta eru sömu aðferðir sem við notum.

„Forsendur þessara aðgerða eru gjörólíkar. Hverjum er frjálst að fara í fegrunaraðgerð en mikilvægt er að fá fræðslu um aðgerðina fyrir fram og taka þannig upplýsta ákvörðun. Flestir þeirra sem koma í aðgerð á spítalanum eru hins vegar fólk sem er með sjúkdóm eða áverka í grunninn. Þegar kona greinist með krabbamein í brjósti er hún í aðstæðum sem hún hefur enga stjórn á, hvort sem henni líkar það betur eða verr. Sá sem fer í fegrunaraðgerð gerir það að eigin ósk og frumkvæði.“

Vinsælustu fegrunaraðgerðirnar eru þær sömu og hafa verið vinsælar um lengri tíma; fegrunaraðgerðir á brjóstum, fitusog og aðgerðir á augnlokum. Þá eru sífellt fleiri sem kjósa að fá sér fylliefni og bótox.

Halla bendir á að enginn megi nota bótox nema læknar enda sé það lyf. Hins vegar sé engin reglugerð sem nær utan um notkun á fylliefnum. Þekkt er að ýmsir aðilar sem ekki hafa sérstaka menntun eða réttindi bjóði upp á slíkt og segir Halla mikilvægt að fólk kynni sér vel réttindi þeirra sem það ákveður að kaupa þjónustu af.

„Fylliefni eru ekki flokkuð sem lyf. Hér á landi eru þau hins vegar aðeins seld til heilbrigðisstarfsmanna. Aftur á móti er alls konar ólöglegt í gangi og margir sem koma bara heim með fylliefni í ferðatösku eða panta að utan. Stærsta vandamálið við að fara til aðila sem er ekki heilbrigðismenntaður er að hann er ekki með neinar tryggingar ef eitthvað fer úrskeiðis. Ég get ekki starfað án þess að vera með starfsábyrgðartryggingu og starfsleyfi frá landlækni. Fólk getur setið uppi með mikinn skaða ef það fær fylgikvilla sem ekki er hægt að laga.

Ef þú ert að fara til aðila sem er ekki læknir til að fá bótox þá er það ólöglegt. Aðrir en læknar geta sprautað fylliefnum en ef æð stíflast þegar það er gert getur komið drep. Þá þarf að sprauta efni sem leysir fylliefnið upp og það er lyf sem enginn má nota nema læknar.

Við vitum líka að hingað til lands kemur fólk sérstaklega til að sprauta fylliefnum. Það er ekki með nein starfsleyfi og enginn veit hvaðan efnin koma. Það er því mikilvægt að fara til fagaðila sem notar viðurkennd efni og er með áætlun skyldi eitthvað fara úrskeiðis.“

Halla Fróðadóttir. Mynd/Sigtryggur Ari

Raunsæjar væntingar

Alltaf er eitthvað sem getur farið úrskeiðis, ekki bara í fegrunaraðgerðum heldur í öllum lýtaaðgerðum. „Það er alltaf áskorun ef eitthvað fer ekki eins og maður ætlaði. Stundum verður sjúklingur einfaldlega óánægður þó allt hafi í raun gengið vel og það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að eiga góð samskipti áður en maður byrjar og tryggja sem best að sjúklingur hafi raunsæjar væntingar. Þetta eru engar töfralækningar. Það er líka mikilvægt að sjúklingur finni að maður heldur vel utan um hann ef eitthvað kemur upp á, og fylgi honum áfram í stað þess að láta hann frá sér. Sjúklingurinn þarf að upplifa að það ríki traust á milli hans og læknis. Góð samskipti eru gríðarlega stór hluti af þessu starfi. Algjört lykilatriði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Kvartaði undan verðlagi á kaffihúsi í Reykjavík og fékk að heyra það – „Ótrúlegt að borga fyrir þetta og væla svo“

Kvartaði undan verðlagi á kaffihúsi í Reykjavík og fékk að heyra það – „Ótrúlegt að borga fyrir þetta og væla svo“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þriggja hæða einbýlishús með einstökum bakgarði á 298 milljónir

Þriggja hæða einbýlishús með einstökum bakgarði á 298 milljónir
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ellý spáir fyrir Katrínu Jakobsdóttur – „Hún á eftir að vinna eitthvað á bak við tjöldin hér heima“

Ellý spáir fyrir Katrínu Jakobsdóttur – „Hún á eftir að vinna eitthvað á bak við tjöldin hér heima“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vigfús Bjarni þakklátur fyrir lífið eftir hjartaáfall – „Maður gerir sitt besta til að vera í æðruleysi“

Vigfús Bjarni þakklátur fyrir lífið eftir hjartaáfall – „Maður gerir sitt besta til að vera í æðruleysi“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þau hættu saman árið 2024

Þau hættu saman árið 2024
Fókus
Fyrir 6 dögum

Stigavélaæfingin sem stelpurnar elska – Hafa séð ótrúlegan árangur

Stigavélaæfingin sem stelpurnar elska – Hafa séð ótrúlegan árangur