fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fókus

Varð ástfangin af landinu og er nú þekkt sem Ameríkaninn sem flutti til Íslands – Náði mögnuðu myndbandi af sjaldgæfu fyrirbæri

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 21. janúar 2021 12:00

Kyana Sue Powers. Aðsendar myndir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kyana Sue Powers kom í ferðalag til Íslands árið 2018. Hún var dáleidd af náttúrufegurð landsins og það varð ekki aftur snúið. Hún fór heim til Boston, sagði upp vinnunni, seldi allt sem hún átti og keypti flugmiða aðra leið til Íslands.

Kyana er þekkt á samfélagsmiðlum sem Ameríkaninn sem flutti til Íslands. Hún nýtur mikilla vinsælda á TikTok og Instagram og vakti nýlega eitt myndbanda hennar frá Íslandi gríðarlega athygli.

Myndbandið, sem hefur fengið yfir 1,4 milljóna áhorf, sýnir „létt frost“ á Íslandi.

@kyanasueIceland can get a bit nippy ##iceland ##nordic ##arctic ##travel♬ original sound – Lorena Pages

Við heyrðum í Kyönu og spurðumst fyrir um myndbandið og líf hennar hér á Íslandi.

„Í síðustu viku var ég á suðausturhluta Íslands þegar vinur minn frétti af þessum bílum í Breiðavík sem voru alveg frosnir. Bara daginn áður vorum við að tala um að það gerist aldrei neitt svona klikkað hér á Íslandi, bara í Rússlandi og Svalbarða. Við ákváðum að keyra þangað og finna þessa bíla, þar sem þetta er svo sjaldgæft,“ segir Kyana.

Mynd/Kyana Sue Powers
Mynd/Kyana Sue Powers

„Dagana áður hafði verið brjálaður stormur og mikið frost. Næstum allir bílarnir voru rétt hjá sjónum, óstarhæfir og bilaðir. Vegna stormsins voru stórar öldur sem fóru yfir bílana og vegna frostsins frusu þær á bílunum, alveg um 5-7 cm þykkar!“

Auk þessarar sjaldgæfu sjónar fengu Kyana og vinir hennar bestu norðurljósasýningu sem þau höfðu nokkurn tíma upplifað. „Við gátum tekið myndir af bílunum með norðurljósin í bakgrunni, þetta var eins og eitthvað úr bíómynd. Við áttum erfitt með að trúa því sem við vorum að sjá.“

Mynd/Kyana Sue Powers
Mynd/Kyana Sue Powers

Viðbrögð netverja við myndbandi Kyönu létu ekki á sér standa. „Þetta er svo sjaldgæft fyrirbæri en það spurðu svo margir hvernig Íslendingar takast á við svona daglega. Sannleikurinn er sá að þetta gerist nánast aldrei,“ segir hún.

Það hafa tæplega sjö þúsund manns deilt myndbandinu áfram, meðal annars grínistinn Rick Smith, sem er með yfir milljón fylgjendur, og Instagram-síðan Pubity, með 27 milljónir fylgjenda.

Ameríkaninn á Íslandi

Á samfélagsmiðlum er Kyana þekkt sem „Ameríkaninn á Íslandi.“ Hún deilir daglegu lífi sínu með fylgjendum ásamt því að deila ýmsum ráðum og fróðleik um Ísland og Íslendinga.

„Ég fæ reglulega spurningar um hvernig sé hægt að flytja til Íslands, um lífið á Íslandi og hvað sé skemmtilegast að skoða á Íslandi,“ segir Kyana.

Kyana kom fyrst til Íslands árið 2018 og fór hringinn í kringum landið. „Ég endaði með því að verða ástfangin af náttúrunni og ævintýrunum á Íslandi og ég vissi að mig langaði að búa hérna. Ég fór heim til Boston, sagði upp vinnunni minni í College Athletes, seldi allt sem ég átti og keypti flugmiða til Íslands,“ segir hún.

„Það hefur verið mjög erfið áskorun fyrir mig, sem Bandaríkjamann, að finna út hvernig á að lifa á Íslandi, en ég myndi ekki vilja skipta út þessari reynslu fyrir neitt annað. Ég hef eignast svo marga frábæra vini á Íslandi og upplifað ótrúleg ævintýri. Ástríða mín er öðrum hvatning til að heimsækja Ísland. Ég vil deila Íslandi með öðrum svo þeir geti séð af hverju ég elska þetta land svona mikið,“ segir Kyana og bætir við að hún sé ekki einungis að hvetja útlendinga til að koma og heimsækja Ísland, heldur einnig að hvetja Íslendinga að ferðast um eigið land.

Flókið ferli

Þó dvöl hennar á Íslandi hafi verið ævintýri líkust hefur hún ekki verið einföld né auðveld.

„Ég las um að það væri erfitt fyrir Bandaríkjamenn að flytja til Íslands vegna dvalarleyfismála. Ég hélt að ef ég myndi bara koma hingað, þá væri það auðveldara að finna út úr því heldur en hinum megin við hafið, en það er ekki rétt. Ég flutti hingað þegar ég var 27 ára, með bachelor- og masters-gráðu og margra ára starfsreynslu, en samt sem áður var ómögulegt fyrir mig að finna vinnu. Ég þurfti að finna atvinnurekanda sem var tilbúinn að sækja um atvinnuleyfi fyrir mig, sem var ekki auðvelt.“

Eftir að hafa fengið yfir hundrað hafnanir ákvað Kyana að hefja þjálfun sem jöklaleiðsögumaður. Hún elskar ævintýri og íslenska náttúru svo þetta virtist vera vel við hæfi. „Ég var ótrúlega spennt þegar ég fékk loksins vinnu sem jöklaleiðsögumaður og fékk dvalarleyfi, aðeins til að missa það vegna kórónuveirufaraldursins,“ segir hún.

„Ég er núna í námi við Háskóla Íslands til að halda dvalarleyfi, ég er tilbúin að gera allt sem ég get til að vera á Íslandi. Íslenska sendiráðið í Bandaríkjunum sagði mér að giftast Íslendingi. Ætli ég sé ekki enn að leita að hinum rétta,“ segir Kyana.

„Þetta reddast“

Kyana er að læra íslensku. „Það hefur verið mjög erfitt en gefandi þar sem ég er hægt og rólega að komast inn í menninguna,“ segir hún. Kyana elskar íslenska frasann: „Þetta reddast.“ Hún segir að Íslendingar séu mun slakari en Bandaríkjamenn og hún tengi mun meira við þann lífsstíl.

„Mér finnst Íslendingar líka vera mjög vingjarnlegir og með góðan húmor, en þetta er líka þéttur hópur sem getur verið erfitt að nálgast til að byrja með. Mér fannst fyrst erfitt að eignast vini en með tíma og þolinmæði hef ég kynnst mörgum Íslendingum, sem ég lít á sem bestu vini mína í dag,“ segir Kyana.

„Mér finnst einnig klikkað hvernig allir þekkja alla hérna. Í Bandaríkjunum, þegar þú rekst á einhvern þá hugsarðu: „Vá, en lítill heimur!“ En á Íslandi, þá er það í alvöru svo lítill heimur. Ég hef gaman af því hvernig heil þjóð getur verið með þennan „smábæjarfíling“. Jafnvel þegar ég er á ferð einhvers staðar út í rassgati rekst ég á einhvern sem ég þekki. Það er frekar þægileg og kósý tilfinning,“ segir hún.

Hefur lært mikið af Íslandi

Kyana hefur einnig þurft að læra að venjast veðurfarinu og skammdeginu á Íslandi. „Þú lærir að hlæja að því og lærir á veðrið. Að vera upptekin yfir vetrartímann er klárlega lykillinn að því að láta myrkrið ekki trufla þig. En það þýðir ekki að ég sé hrifin af myrkrinu, en ég er að læra að takast á við það.“

Kórónuveirufaraldurinn hefur þó haft einn kost, Kyana hefur getað ferðast um landið án túrista og upplifað Ísland og náttúrufegurð landsins á öðruvísi máta en hún gerði fyrir tíma Covid.

„Mér finnst ótrúlegt hvað ég hef hitt marga Íslendinga sem segja að ég hef séð meira af landinu en þeir. Ísland er svo fallegt land og enginn ætti að láta það fram hjá sér fara,“ segir hún.

Kyana hefur lært mikið af dvöl sinni hér. „Ég hef lært að tileinka mér seiglu, hvernig á að keyra beinskiptan bíl, hvernig jöklar og eldfjöll virka (mér finnst það alltaf jafn magnað), hvernig á að mæla á selsíus-kvarðanum, að rétta leiðin til að borða franskar er með kartöflukryddi og að það er alltaf góð hugmynd að fara í sund. Og ég er enn þá að venjast lyktinni af heita vatninu, að láta rúlla R á tungunni (rolling my Rs) og Pepsi Max.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Smári og Oddný Eir eru nýtt par

Gunnar Smári og Oddný Eir eru nýtt par
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Dan um breytingaskeið karla – „Smátt og smátt fór ég að verða betri, sterkari, rólegri, skýrari, graðari, ánægðari“

Gunnar Dan um breytingaskeið karla – „Smátt og smátt fór ég að verða betri, sterkari, rólegri, skýrari, graðari, ánægðari“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þór Tulinius opnar sig um erfiðleika: „Líf dóttur minnar gengur út á að lifa af frá degi til dags“

Þór Tulinius opnar sig um erfiðleika: „Líf dóttur minnar gengur út á að lifa af frá degi til dags“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“

Kristbjörg opnar sig: „Ég veit að margir eiga erfitt eða hafa stundum átt erfitt með það sama“