fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Arnar Hauksson: Ég á auðvelt með að lesa fólk

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 5. september 2020 19:45

Arnar Hauksson er einn vinsælsti kvensjúkdómalæknir landsins. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir var brautryðjandi þegar kom að móttöku þolenda kynferðisofbeldis og lyfti grettistaki í málum trans fólks hér á landi. Arnari þykir vænt um þá viðurkenningu sem felst í að mæður vísi dætrum til hans.

Hér birtist í heild sinni forsíðuviðtal við Arnar sem upphaflega var birt í helgarblaði DV 28. ágúst.

Arnar Hauksson er einn vinsælasti kvensjúkdómalæknir landsins. Almennt kvíða konur oft fyrir heimsóknum til kvensjúkdómalæknis þar sem þær afhjúpa sína leyndustu líkamshluta en Arnar leggur ekki síður áherslu á að sinna konum sálrænt. „Ég á auðvelt með að lesa fólk. Það gerir að verkum að þegar ég hitti fólk veit ég oft hvað er að áður en það segir mér það. Ég get séð bak við tjöldin, ég veit ekki hvernig en þetta er líklega eitthvað sem lærist í þessu fagi,“ segir hann.

Arnar Hauksson. Mynd/Valli

Mikla athygli vakti þegar Arnar lék í raun sjálfan sig í þáttunum Pabbahelgar á RÚV síðasta vetur þegar persóna Nönnu Kristínar Magnúsdóttur fór í skoðun hjá kvensjúkdómalækni. Í sumar bjó síðan ung kona til óformlega könnun í Facebook-hópnum Mæðra tips og trónaði Arnar á toppnum sem vinsælasti kvensjúkdómalæknir landsins. Þrátt fyrir að þetta hafi verið algjörlega óvísindaleg könnun hefur Arnar skorið sig úr meðal íslenskra kvensjúkdómalækna og þykir ná til skjólstæðinga sinna á einstakan hátt.

Þetta birtist ekki síst í því að þegar blaðamaður hafði mælt sér mót við Arnar, þar sem hann starfar á Læknastöðinni í Austurveri, rekumst við á samstarfskonu hans á ganginum sem byrjar að ausa hann lofi: „Þú ert nú alveg yndislegur, Arnar,“ segir samstarfskonan og Arnar er eitt spurningarmerki. Hún heldur áfram: „Átján ára dóttir mín var hjá þér í síðustu viku og hún var svo ánægð. Hún sagðist hafa lært svo mikið af því að hitta þig og þú hefðir verið með svo miklar praktískar upplýsingar fyrir fótboltastelpu eins og hana, varðandi blæðingar og pilluna og allt saman.“

Allt fullt af fílum

Arnar segist almennt forðast viðtöl og vilji frekar leyfa öðrum að skína. „Mér finnst gott að koma með hugmyndir og leyfa öðrum að vinna úr þeim. Ég er lítið fyrir að flagga sjálfum mér,“ segir hann. Enn er óljóst af hverju Arnar samþykkti einmitt þetta viðtal en það skal upplýst að blaðamaður hefur farið til Arnars sem skjólstæðingur. Þá var hann með aðstöðu í Kringlunni þar sem skrifstofan var yfirfull eftirmynda af fílum en öllu færri fílar eru á skrifstofunni í Austurveri.

„Stofan hér er minni og auðvitað þarf að dusta rykið af fílunum reglulega. Þetta byrjaði með því að ég hafði gert lítilli stúlku greiða. Hún hafði farið nokkrum sinnum inn á spítala og enginn vissi hvað amaði að henni. Mér tókst hins vegar að komast að því hvað var að og ráðlagði henni í framhaldinu. Um hálfu ári seinna hafði hún samband. Þá var hún í Portúgal og sagði við mig: „Þú bjargaðir lífi mínu! Mig langar að endurgjalda þér það.“ Ég sagði að hún væri auðvitað búin að endurgjalda mér þetta með því að borga fyrir viðtölin, en ef hún fyndi fílana sem Hannibal kom með yfir fjöllin þá mætti hún gefa mér einn,“ segir Arnar og vísar þar til hershöfðingjans frá Karþagó sem fór með baráttuglaða fíla yfir Alpana. „Hún þekkti ekki söguna en gaf mér lítinn keramikfíl sem stóð alltaf á borðinu mínu. Eftir það byrjuðu fílarnir að streyma inn þegar fólk vildi þakka mér fyrir eitthvað „extra“. Ég á nú mjög mikið af fílum og er löngu hættur að þiggja þá.“

Arnar lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1975. Hann stundaði framhaldsnám í kvensjúkdómum og fæðingahjálp, fyrst við Landspítalann en frá 1979 í Lundi í Svíþjóð þaðan sem hann útskrifaðist sem sérfræðingur árið 1983. Í doktorsritgerð sinni fjallaði Arnar um þrjár nýjungar í rannsóknum á tíðaverkjum. Hann hefur valist til fjölda trúnaðarstarfa, sat til að mynda í stjórn norrænna kvensjúkdómalækna í tvo áratugi og í forsætisnefnd heimsþings kvensjúkdómalækna. Hann á fimm börn á aldrinum 27–50 ára, sjö barnabörn og eitt á leiðinni. „Þetta er ekki búið enn þá,“ segir hann.

Arnar Hauksson. Mynd/Valli

Stefndi á hagfræðinám

Því fer fjarri að Arnar hafi alltaf ætlað að verða kvensjúkdómalæknir. „Ég ætlaði alltaf að fara í hagfræði. Í stúdentsferðalaginu okkar í Verzlunarskóla Íslands á Spáni tóku tveir yndislegir kennarar okkur tali eitt kvöldið og spurðu hvað við ætluðum að læra. Þeir spurðu fyrst tvo af dúxunum okkar og þeir ætluðu báðir í læknisfræði. Kennararnir sögðu: „Það er flott. Þið eruð svo duglegir.“ Þegar þeir síðan spurðu mig kom smá stríðnispúki í mig og ég sagði: „Ég ætla líka í læknisfræði.“ Kennararnir svöruðu: „Þú getur það aldrei. Þú ert allt of mikið að skemmta þér.“ Og þarna lagði ég hagfræðina á hilluna og skellti mér í læknisfræðina. Ég á það til að taka áskorunum og reyna að sýna að ég geti staðið undir því sem fyrir mig er lagt. Ég sé ekki eftir þessari ákvörðun. Annars hefði ég eflaust bara setið í einhverjum fjármálagjörningum með ríkissaksóknara á bakinu,“ segir hann glettinn.

Arnar bendir á að lífið geti verið ansi tilviljanakennt og hann plani almennt ekki mikið fram í tímann. „Ég veit sirka hvað ég ætla að gera og les síðan vindáttina. Á tímabili ætlaði ég að læra heila- og taugaskurðlækningar, sem ég hafði mjög gaman af og fékk góðar einkunnir í. Ég lenti síðan á svo skemmtilegri klíník á kvennadeildinni. Mér fannst raunar skortur á kennslu hjá kvennadeildinni en kynntist svo Árna Ingólfssyni heitnum sem var að vinna á Akranesi. Hann hafði komið með ýmsar nýjungar með sér frá Svíþjóð, svo sem tæki til að hlusta á fósturhjartslátt í kviði þar sem áður voru bara notaðar hlustunarpípur, og svo kom hann líka heim með speglunartæki sem nýttust þannig að í staðinn fyrir að það þyrfti að skera upp konur var hægt að gera gat á kviðinn og kíkja inn. Ég fékk að gera með honum þvaglekaaðgerðir á konum og keisaraskurði. Þetta var mjög spennandi fyrir læknanema á þriðja ári og það varð ekki aftur snúið.“

Mikilvægt að klára trúnaðarsamtölin

Þegar hann var við nám í Lundi ílengdist hann við rannsóknarstörf og fékk mikinn áhuga á hormónafræðum, auk þess að starfa við krabbameinsrannsóknir.

Það er eiginlega vandræðalega klassískt að spyrja karlkyns kvensjúkdómalækni um hvernig það hafi verið að eiga náin samskipti við konur á þessum tíma. Arnar svarar því til að hann hafi verið í stóru viðtali við Jónínu Leósdóttur hjá Nýju lífi í kringum 1995 og vilji nú helst ekki endurtaka brandarann. Brandarinn var hins vegar á þá leið að Arnar sagði það lítið mál að borða Nóa konfekt allan vinnudaginn þegar hann ætti svo von á því að fá Anton Berg heima um kvöldið.

„Þetta er eins og þegar bifvélavirki vinnur við bíla allan daginn. Þegar hann kemur heim á kvöldin getur hann alveg farið í bíltúr með konunni,“ segir Arnar, sem eflaust hefur verið spurður að þessu aðeins of oft í gegnum tíðina.

„Ég lít á starfið þannig að maður er bara með einn skjólstæðing í einu og sinnir honum vel. Fyrir sumar er þetta pirrandi því það standast ekki alltaf tímapantanirnar. Það er enginn vandi að halda nákvæma tíma ef maður bara hendir fólki út þegar tíminn er búinn. Oft er það hins vegar þannig að í miðju viðtali opnar sjúklingur á erfið mál og ef þú lokar á það og heldur að þú getir opnað þau aftur seinna ertu að vaða í miklum misskilningi. Ef þú opnar á trúnaðarsamtal við skjólstæðing þá verður þú að klára það.“

Þriðja kynslóð kvenna meðal skjólstæðinga

Spurður hvað greini hann eiginlega frá öðrum kvensjúkdómalæknum, svona í ljósi vinsældanna, segir Arnar: „Við læknar lærum allt eins og kunnum jafn mikið. Auðvitað er mismunandi í hverju fólk sérhæfir sig. Ég tel að við sem einstaklingar skerum okkur ekki meira úr en þegar fólk bakar köku. Það hafa allir sömu uppskriftina en yfirleitt bragðast kakan best heima hjá mömmu. Ég tel að þetta snúist um hvernig við bökum kökuna.“

Þegar stúlkur og ungar konur koma í fyrsta skipti til Arnars fer hann vel yfir ákveðin grundvallaratriði. „Ég kenni þeim allt um blæðingar, allt um kynsjúkdóma, allt um stráka og allt um að þora að segja nei. Ég segi þeim að varast ágengni, þora að hvessa brýrnar og segja: Viltu andskotast í burtu! Eftir þessa fræðslu spyr ég hvort þær vilji skoðun. Það skiptir máli að sýna gagnkvæma virðingu og ef þú ætlar að fá upplýsingar í trúnaði þá þarf maður að vera opinn sjálfur. Ef kvensjúkdómalæknir er ekki opinn er kannski betra að hann sé bifvélavirki.“

Þrátt fyrir að Arnar vilji almennt ekki halda eigin merkjum á lofti þykir honum vitanlega vænt um hvers konar viðurkenningu eins og hverjum öðrum. „Ég hef í löngum bunum fengið mæður til mín með dætur sínar. Þá finnst mér ég hafa gert gagn. Hjá mjög bráðþroska mæðgum hef ég fengið inn þriðju kynslóðina en ég þyrfti líklega að starfa í tíu ár til viðbótar til að það yrði einhver hópur.“

Eftir nám í Svíþjóð kom Arnar aftur til Íslands og fannst hann verða að gefa aftur til samfélagsins. „Í Svíþjóð gat öryrki úti í bæ tekið leigubíl á sjúkrahús ef hann átti ekki bíl. Þetta var miklu betra kerfi en hér heima. Eftir að ég hafði fengið ókeypis menntun í læknisfræði heima og úti, og hlotið gott atlæti, jafnvel þó ég sjálfur kæmi úr tiltölulega fátæku umhverfi, þá skynjaði ég hvað samheldnin í samfélaginu skipti miklu máli. Mér fannst ég skulda samfélaginu og vildi gefa til baka. Ég sé ekki eftir því.“

Á stöðugri bakvakt í tvö ár

Hann var að vinna á kvennadeild Landspítalans upp úr 1980, áður en Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis varð að veruleika. „Ég tók þá eftir að þegar kynferðisafbrotamál komu upp þá kom lögreglan gjarnan með konur á kvennadeildina og þar sátu síðan kannski tveir lögreglumenn á ganginum með andlega þjakaða konu sem mátti bíða fyrir allra augum eftir því að aðstoðarlæknir eða sérfræðingur hefði tíma til að koma niður, og jafnvel þurftu þeir síðan að hlaupa úr miðju viðtali ef kallað var eftir aðstoð vegna keisaraskurðar eða álíka.“

Hann hafði þá samband við landlækni, sem á móti spurði hvað Arnar vildi gera. „Ég sagði að það væri hægt að bjóða þeim upp á aðstöðu á Heilsuverndarstöðinni þar sem ég var að vinna við mæðraskoðun. Þar var enginn eftir klukkan fjögur á daginn og enginn um helgar. Ég talaði síðan við tvo kollega um að vera á bakvakt en þeim fannst heldur mikið álag að vera alltaf á vaktinni. Það endaði því þannig að ég gaf rannsóknarlögreglunni upp símanúmerið mitt og var á bakvakt í tvö ár, eða þar til Neyðarmóttakan var stofnuð. Það voru engin laun fyrir það nema ef mál fóru fyrir dómstóla, þá mátti ég senda reikning.“

Þrjátíu ár eru síðan Neyðarmóttakan var stofnuð og hefur Arnar starfað þar allar götur síðan, er nú sem hluti af læknateymi sem þar skiptir á milli sín vöktum. „Þetta er krefjandi starf og margir hafa gefist upp. Ég veit ekki um neinn karlmann sem hefur enst svona lengi. En ég finn að ef ég get tekið á móti konu við þessar erfiðu aðstæður og kvatt hana þannig að hún sé sátt við mig, þá sé stundum ekki svo slæmt fyrir konur að hitta karlmann sem þær geta treyst, eftir að hafa verið beittar ofbeldi af karlmanni.“

Arnar Hauksson. Mynd/Valli

Trans mál sett á dagskrá

Seinna var Arnar með stofu í Austurstræti og bauð þá Kvennaathvarfinu að senda til sín konur. „Ég bauð þeim til að mynda að koma til mín með útigangskonur sem áttu engan pening og Rauði krossinn kom stundum til mín með útigangsstelpur sem þeir pikkuðu upp. Í eitt skiptið komu þeir með unga stúlku til mín, frekar skítuga og óhreina. Ég ræddi lengi við hana, hún hafði flæmst úr skóla og lent í átökum við skólafélaga. Eftir nokkur skipti, þegar ég fann engan botn í öllum kvörtunum hennar, sagði ég að við yrðum  að tala um það sem væri raunverulega vandamálið. Þá kom í ljós að hún hafði löngun til að verða drengur. Eftir það var „hún“ alltaf „hann“ hjá mér. Ég kom honum síðan á meðferðarheimili og sagði: „Þú ert óhrein og skítug stelpa. Þú verður ekki betri þótt þú verðir óhreinn og skítugur strákur. Þú verður að mennta þig.“ Eftir meðferðina kom hún til baka gjörbreytt og ég hélt áfram að sinna henni.“

Arnar hafði lítillega komið að málefnum trans fólks í Svíþjóð en á Íslandi á þessum tíma gerði heilbrigðiskerfið ekkert fyrir slíka einstaklinga og þeir flúðu gjarnan hreinlega land. „Ég pantaði þá tíma hjá Ólafi Ólafssyni landlækni og sagði farir mínar ekki sléttar, að það væri fyrir neðan allar hellur að íslenskt heilbrigðiskerfi tæki þessa einstaklinga ekki undir sinn vendarvæng.“ Hann spurði hvað ég vildi gera, ég sagðist vilja láta stofna vinnuhóp og það varð úr. Í hópinn valdi ég til að mynda Óttar Guðmundsson geðlækni, sem fór mikið fyrir hópnum og starfar nú í trans teymi Landspítalans. Fyrsti skjólstæðingur okkar var þessi litli einstaklingur sem var í raun hvatinn að stofnun hópsins.“

Arnari er minnisstætt þegar þeir stóðu fyrir ráðstefnu í Norræna húsinu árið 1996 um málefni trans fólks. „Við áttum von á nokkrum, kannski þeim sem voru með okkur í teyminu og nokkrum öðrum, en Norræna húsið gjörsamlega fylltist. Það var varla hægt að komast inn í salinn og fundurinn var afskaplega vel lukkaður. Meðal þeirra sem töluðu voru Anna Kristjánsdóttir, sem allir þekkja nú, og talaði um að vera trans á Íslandi og erlendis, en hún fór í gegnum sína meðferð í Svíþjóð.“

Arnar hélt síðan uppteknum hætti og bauð nú trans fólki að koma á stofuna til sín eftir skrifstofutíma án þess að greiða fyrir. „Ég var í launaðri vinnu til fimm, sex á daginn og tók þessa einstaklinga síðan eftir lokun. Ekki bara af því þá var skrifstofan lokuð heldur líka til að þessir einstaklingar fengju að vera prívat og eins langan tíma og þeir þyrftu,“ segir Arnar.

Óþarfa lýtaaðgerðum fer fækkandi

Fæðingar- og kvensjúkdómalækningar er fag sem er í stöðugri endurnýjun og mikilvægt að bæta stöðugt við sig þekkingu. Á sínum tíma fór Arnar í námskynningu í glasafrjóvgunum í Bourn Hall í Bretlandi en Bretar voru fremstir meðal jafningja á þessu sviði. „Ég gerði þetta ekki af því mig langaði að verða glasafrjóvgunarlæknir heldur af því mig langaði að geta aðstoðað fólk.“

Arnar hætti að gera aðgerðir fyrir 15 árum þegar hann tók að sér að vera yfirlæknir mæðraverndarinnar. Hann er þó hafsjór af þekkingu, meðal annars um kvensjúkdóma og fæðingar, og bendir meðal annars á hversu algengur þvagleki sé. „Þvagleki getur komið í gegnum fæðingar og er algengari eftir fæðingar í gegnum leggöng en fæðingar með keisaraskurði. Þetta er háð vefjagerð í líkamanum og því erfðatengt, auk þess eðli og lengd fæðingar, og hversu mikið álag verður á grindarbotninum. Við kvensjúkdómalæknar erum vel meðvitaðir um þetta. Tölfræðin bendir til þess að um helmingur af konum um fimmtugt hafi snert af þvagleka, þó mismikinn. Þetta endurspeglast í því að það er löng bið eftir meðferð við þvagleka og á tímabili var hún á annað ár. Hjá sumum er þvagleki meðfæddur en hann tengist líka aldri.“

Hann hefur líka fylgst með þróuninni þegar kemur að lýtalækningum á kynfærum. „Sem betur fer er farið að draga úr óþarfa aðgerðum. Að sjálfsögu hafa bæði konur og karlar lýti og alveg réttlætanlegt að laga þau þegar þau eru farin að valda óþægindum. Hins vegar erum við öll með einhverjar væntingar til þess að vera öðruvísi en við erum og hverjum einstaklingi finnst hann vera ófullkominn. Maður þarf þá að útlista fyrir fólki hvað er í lagi og hvað er ekki í lagi. Á myndum sem eru ætlaðar til pornógrafískra sýninga eru oft myndir af smástelpum og fólki talið trú um að svona sé allt fólk.“ Hann segist oft vísa fólki á heimasíðu Sigríðar Daggar Arnardóttur kynfræðings sem hefur birt fjölda mynda af margbreytilegum píkum. „Auðvitað geta komið skemmdir eftir fæðingu eða fólk með meðfædda galla. Obbinn af öllum þeim sem koma og halda að það sé eitthvað að þeim eru síðan mjög ánægðar þegar búið er að útlista fyrir þeim hvað er að gerast og af hverju. Það má aldrei gera lítið úr svona kvörtunum en mikilvægt er að vera meðvitaður um ókosti aðgerða á kynfærum og til dæmis geta konur misst tilfinningu á svæðinu eftir slíkt,“ segir Arnar, sem vinnur enn langan vinnudag, þrátt fyrir að vera 73 ára, og á enn nóg af umhyggju eftir handa íslensku kvenþjóðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set