Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir fjölmiðlakona og flugdólgur hefur brennandi áhuga á nánast öllu með vél. Hún elskar bíla og flugvélar og vill helst ekki gera annað en að þeysast á tryllitækjum um hálendið. Hún deilir hér sínum uppáhaldsbílum sem eru ákaflega misjafnir eins og dagar fjölmiðlakonunnar.
Honda CRX
Fyrsti bíllinn minn var af þessari tegund, á low profile dekkjum, með flækjur og spoilerkit dauðans. Elskaði hann út af lífinu þó hann hafi ekki meikað neitt sens sem heimilisbíll miðbæjarrottu.
Caterpillar-beltagrafa
Ok, strangt til tekið ekki bíll, en það er fátt sem veitir innilegri hamingju en að moka holu á risagröfu. Í alvöru.
Porsche 911
Porsche klikkar sjaldnast, en ég hef sjaldan verið nær því að gráta af gleði en keyrandi 911 GT3 á braut. Bara vélarhljóðið er allt að því klámfengið.
Lamborghini Urus
Ég skrifaði reynsluakstursgrein um Urus sem var meira í ætt við ástarbréf en bíladóm og gekk meira að segja svo langt að bjóða annað nýrað til sölu til að fjármagna tryllitækið. Er enn opin fyrir tilboðum.
VW Golf
Uppáhalds í flokki raunhæfra kaupa þar sem ég er hvorki búin að selja úr mér líffæri né vinna í lottói. Afburða aksturbíll fyrir peninginn og ber af í sínum verðflokki.