Karl Sigurbjörnsson, sem um árabil var biskup íslensku þjóðkirkjunnar, glímir við krabbamein. Hann greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli árið 2017 og hafði meinið dreift sér í beinin. Þetta kemur fram í viðtali Morgunblaðsins við Karl.
Hann var ekki skorinn upp þar sem meinið var ekki skurðartækt. Hins vegar sé hann í höndum frábærra lækna og umvafinn umhyggju og fyrirbænum. Segir Karl að sjúkdómurinn sé ólæknandi.
„Ég hræðist ekki dauðann,“ segir Karl en lífslöngunin sé vissulega sterk í mannssálinni:
„Auðvitað vill maður ekki dauðann. Allt sem lifir er í stöðugri baráttu á móti dauðanum. Hver einasta fruma er að berjast við dauðann. Dauðinn er hið algera óþekkta og við skelfumst hið óþekkta; það er í eðli alls sem lifir. En í trúnni á ég vonina. Sú von gefur mér styrk til að segja, eins og hefur verið sungið við nánast allar jarðarfarir síðan Ragnheiður Brynjólfsdóttir var jörðuð í Skálholti forðum: „Dauði, ég óttast eigi, afl þitt né valdið gilt, í Kristí krafti’ eg segi: Kom þú sæll, þá þú vilt.“ Í Kristí krafti; ekki í mínum eigin krafti. Ég get ekki boðið dauðann velkominn sí svona, hann er óvelkominn gestur. Hann er staðreynd sem ég veit að er þarna en ég hef engan áhuga á honum. Ég vona bara að ég fái að fara í friði þegar tíminn er kominn.““
Fjölmargt annað bera á góma í viðtalinu og segir Karl meðal annars frá æskuárum sínum og embættisferli. Einnig kemur fram að Karl er mjög virkur á Facebook:
„Mér finnst þetta góður vettvangur til að koma á framfæri orðinu, trúnni. Ég hef fundið að það er þörf fyrir það og það er kallað eftir þessu. Það voru svo börnin mín sem ýttu mér út í það að taka upp myndbönd þar sem ég er með hugleiðingar. Þessi hugmynd kviknaði í kófinu í vor og ég fékk ótrúleg viðbrögð. Það er töluvert áhorf og ég er þakklátur fyrir það. Mér finnst þegar ég er að fikta við þennan vettvang að ég eigi að skilja eftir eitthvað jákvætt þar. Nóg er af neikvæðni og háði.“