fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Sakamál: Konan sem dó á gamlárskvöld

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 12. september 2020 20:00

Rod Delvin. Youtube-skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Shele Danishefsky var glæsileg kona á Manhattan í Bandaríkjunum, moldríkur fjármálaráðgjafi hjá fjárfestingabanka. Árið 1998 giftist hún Rod Delvin sem var 11 árum yngri, myndarlegur ungur maður en sérstæður náungi með mikla ástríðu fyrir teningaspilinu Kotru (Backgammon). Þau eignuðust þrjú börn saman. Rod var verðbréfasali en hann var ekki auðugur eins og Shele.

Á gamlárskvöld árið 2009 kom dóttir Shele að henni meðvitundarlausri í baðkarinu í íbúð fjölskyldunnar á Manhattan. Vatnið í baðinu var blandað blóði. Hún hafði samband við föður sinn, Rod Delvin, sem kom á vettvang, dró konu sína upp úr baðkarinu og reyndi lífgunaraðgerðir við hana, en án árangurs. Er lögregla og sjúkralið komu á vettvang var Shele látin og Rod var óhuggandi. Hin glæsilega auðkona, 47 ára gömul, virtist hafa látist í sérkennilegu og illútskýranlegu slysi. Athygli vakti að baðskápshurð fyrir ofan baðkarið var laus og svo virtist sem Shele hefði rifið í hana og fallið niður.

Hjónin voru af gyðingaættum og algengt er meðal gyðinga að leggjast gegn krufningu. Lík Shele var því ekki krufið enda þótti ekki ástæða til þess – svo virtist sem hörmulegt slys hefði orðið. En ekki leið á löngu þar til grunsemdir vöknuðu hjá fjölskyldu Shele, ekki síst þegar rann upp fyrir þeim hvernig hjónaband Shele og Rods var orðið, og þau urðu áskynja um eitt og annað sem hafði gengið á í aðdraganda harmleiksins.

Shele Danishefsky. Youtube-skjáskot

Atvinnulaus og ótrúr skaphundur

Hjónaband Shele og Rod var fyrir löngu farið í vaskinn. Rod var skapofsamaður, hann hélt fram hjá Shele, hann var atvinnulaus og hann var forfallinn spilafíkill þar sem hið gamla teningaspil Kotra eða Backgammon átti hug hans allan, en hann var formaður Kotru/Backgammonsamtaka Bandaríkjanna, og um það leyti sem Shele dó var það eina raunverulega trúnaðarstaða hans. Hann hafði verið rekinn frá verðbréfafyrirtækinu þar sem hann starfaði um skeið og var varla með nokkur launuð verkefni.

Shele hafði sótt um skilnað og Rod bjó í raun ekki lengur með henni og börnunum heldur í annarri íbúð á sama stigagangi sem var í eigu Shele. Shele vildi að hann hefði tækifæri til að vera í nánu sambandi við börnin þó að hún vildi ekki vera gift honum lengur; en hún var farin að hitta annan mann. Rod hafði ekki verið við eina fjölina felldur í kvennamálum árum saman.

Enn fremur kom í ljós að Shele hafði breytt erfðaskrá sinni aðeins tveimur dögum fyrir andlát sitt. Börnin hennar áttu að erfa allar hennar eignir og Rod ekki neitt.

Skömmu eftir jarðarförina krafðist fjölskylda Shele þess að líkamsleifar hennar yrðu grafnar upp og krufnar. Við krufningu vakti helst athygli að bein í hálsi hennar var brákað. Ekki tókst við krufningu að kveða upp úr um dánarorsök. En lögregla var byrjuð að rannsaka dauða Shele sem hugsanlegt morð.

Furðulegt atferli ekkilsins

Við rannsókn kom meðal annars í ljós að Shele hafði gengið á reikninga eiginkonu sinnar og sameiginlega reikninga þeirra eins og hann frekast gat og meira að segja dregið sér fé úr háskólasjóði barnanna. Eftir lát Shele flutti Rod með börnin heim til foreldra sinna. Hann lenti iðulega í hörðum deilum við þau en þau ásökuðu hann um að sóa peningum barnanna sinna. Þau grunuðu hann hins vegar ekki um að hafa myrt Shele.

Svo fór að foreldrar hans ráku hann út og skiptu um lás að húsnæðinu. Börnin voru hins vegar áfram hjá þeim.

Atferli Rods var hið undarlegasta. Kærasta hans á þessum tíma vitnar til dæmis um það að hann hafi lagt drög að því að myrða foreldra sína en hún fékk hann ofan af þeim áformum. Þá hafði hann uppi ráðagerðir um að gifta 13 ára dóttur sína til Mexíkó. Sem betur fer varð ekkert úr því.

Lögreglurannsóknin leiddi í ljós að á tímabilinu eftir að Shele krafðist skilnaðar hafði Rod hakkað sig inn á tölvupóstreikning hennar. Enn fremur fundust sérkennileg drög að tölvubréfi inni á Gmail-reikningi 9 ára dóttur hans, þeirri sem hafði komið að Shele látinni og kallað Rod til. Þar segist hún bera ábyrgð á dauða móðurinnar en eftir rifrildi hafi hún hrint henni ofan í baðkarið. Lögreglan trúði því ekki að barnið hefði skrifað þetta sjálft og talið var að Rod hefði skrifað þetta og þannig reynt að varpa sök á barn sitt.

Rannsóknin leiddi enn fremur í ljós að losaði hafði verið um skrúfur á baðskápshurðunum. Þar með virtist sú atburðarás að Shele hefði rifið í baðskápshurðina fyrir ofan baðkarið um leið og hún féll niður hafa verið sviðsett.

Niðurstaða tíu árum eftir atburðinn

Rannsóknin tók langan tíma en Rod Delvin var ákærður fyrir morð á eiginkonu sinni árið 2015. Réttarhöldin drógust á langinn en hann var á endanum fundinn sekur og dæmdur í 25 ára fangelsi. Sá dómur féll árið 2019.

Athygli vekur hvað sönnunargögn voru í raun fátækleg og varla er hægt að álykta annað en Rod hafi verið sakfelldur einfaldlega vegna þess að hann hagaði sér mjög grunsamlega. Krufningin leiddi vissulega í ljós brákað bein í hálsi en verjendur Rods bentu á að það hefði getað átt sér stað þegar líkið var grafið upp.

Í raun veit enginn hvað nákvæmlega gerðist þegar Shele Danishefsky dó. Sviðsmyndir af því hvernig það gekk fyrir sig þegar Rod á að hafa orðið eiginkonu sinni að bana eru í raun bara hugarleikfimi.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir