Rithöfundurinn og hjónabandsráðgjafinn Kristín Tómasdóttir og eiginmaður hennar Guðlaugur Aðalsteinsson hönnunarstjóri hjá Íslensku Auglýsingastofunni eiga von á barni. Hjónin eru alsæl með fréttirnar en Kristín er gengin rúma þrjá mánuði og er þetta fjórða barnið þeirra en þau giftu sig sumarið 2017. Lesendur DV þekkja Kristínu vel en hún er með vinsæla vikulega pistla í helgarblaði DV þar sem hún svarar fyrirspurnum lesenda.
Kristín hefur skapað sér gott orð sem fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi en hún er með BA í kynjafræði og MA í fjölskyldumeðferð. Kristín er ein margra kvenskörunga úr sinni ætt en hún er systir bæði fjölmiðlakonunnar Þóru Tómasdóttur og fyrrverandi borgarfulltrúans Sóleyjar Tómasdóttur, auk þess að vera dóttir Guðrúnar Jónsdóttur, fyrrum framkvæmdastýru Kvennaathvarfins.
Kristín hefur á undanförnum áratug þróað og kennt sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga sem notið hana mikilla vinsælda. Þar að auki hefur hún skrifað fjölda bóka og starfað sem blaðakona. Í dag sinnir Kristín aðallega parameðferð og hefur óbilandi áhuga á öllu sem viðkemur ástinni.
Kristín hvetur lesendur til að senda sér fyrirspurnir sem hún svarar í helgarblaði DV. Hægt er að senda Kristínu fyrirspurnir á hjonbandssaela@gmail.com