Góðskáldið kunna, Anton Helgi Jónsson, hefur skrifað undir útgáfusamning við Forlagið. Um er að ræða væntanlega prentaða bók með ljóðabálki.
Anton Helgi á langan og farsælan feril að baki en undanfarin misseri hefur hann birt margskonar ljóð og kveðskap á netmiðlum sem hafa vakið athygli. Þess vegna vill hann taka fram að efnið í nýju bókinni er áður óbirt, en hún kemur út undir merkjum Máls og menningar:
„Ég hef verið duglegur að birta stutt ljóð og vísnakorn á netmiðlum að undanförnu en bálkurinn sem samið var um í dag kallaði á pappír og prentverk. Ég vænti þess að margir vina minna fagni því að fá bók eftir mig í hendur á haustdögum og hugsanlega fá líka einhverjir að heyra í mér lesa ljóð og ljóð. Þetta verður sjöunda bókin sem Mál og menning gefur út eftir mig en ég vona þó að ferill minn hjá félaginu sé bara rétt að byrja.“
Hólmfríður Matthíasdóttir, útgáfustjóri, undirritaði samninginn fyrir hönd Forlagsins.