Edda Hermannsdóttir hélt þrusupartí í gærkvöldi á Kjarvalsstofu í tilefni þess að bók hennar, Framkoma, er komin í verslanir. Edda hefur gert garðinn frægan sem fjölmiðlakona um árabil áður en hún hóf störf hjá Íslandsbanka. Edda starfar í dag sem markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka en hún hefur starfað bæði hjá RÚV sem spyrill í Gettu betur og var aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðsins. Á undanförnum árum hefur hún haldið námskeið um framkomu ásamt systur sinni, Evu Laufeyju Kjaran Hermannsdóttur, fjölmiðlakonu, og þjálfað stjórnendur í framkomu.
Bók hennar Framkoma þykir hið mesta þarfaþing fyrir ungt fólk en þar er stiklað á stóru um hvernig standa að greinaskrifum, fréttaskrifum, ræðum og kynningum auk framkomu í sjónvarpi, útvarpi og hlaðvarpi, viðtölum og samfélagsmiðlum. Einnig er komið inn á hvernig skuli virkja tengslanet, slá í gegn í atvinnuviðtölum og stýra fundum.
Edda er vinsæl og vinamörg eins og sést á stjörnustóðinu sem mætti til að fagna með henni.