Tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson, sem á dögunum hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu og var útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2020, hélt tónleika með Reiðmönnum vindanna í sínum gamla heimabæ, Ísafirði, í gærkvöldi.
Er þetta liður í tónleikaherferð Helga um landið, sem byggja á þáttunum Heima með Helga, sem nutu fádæma vinsælda í kórónuveirufaraldrinum.
Var þetta í fyrsta skipti í sex ár sem Helgi heldur tónleika á Ísafirði og óhætt að segja að honum hafi verið vel tekið.
Héraðsmiðillinn Bæjarins besta greinir frá því að um 300 manns hafi sótt tónleikana og að stuðið hafi verið allsráðandi þar sem vel hafi verið tekið undi í söng og almennri gleði.
Helgi tók einnig lagið með Mugison og Árna Sigurðssyni, úr hinni goðsagnakenndu hljómsveit BG og Ingibjörgu, en lög sveitarinnar fengu góðar undirtektir hjá heimamönnum.
Eftirfarandi myndir eru birtar með góðfúslegu leyfi bb.is, en ljósmyndari er ritstjórinn Kristinn H. Gunnarsson: