Sara Oskarsson opnar málverkasýninguna ‘Ratljós’ á milli klukkan 17:00 og 20:00 fimmtudaginn 7. maí, að Laugavegi 74 í Reykjavík
Þar verða til sýnis um 40 málverk sem Sara hefur verið að mála síðan að faraldurinn tók heiminn heljargreipum: „Ég hef verið að mála að meðaltali 10 til 14 tíma á dag, oftast 7 daga vikunnar. Svo sterkur hefur drifkrafturinn verið og þörfin fyrir það að túlka þessa viðsjárverðu tíma á striga. Enda er það eitt af hlutverkum listarinnar að spegla tíðarandann hverju sinni og sögulega hefur myndlistin gengt jafnveigamiklu hlutverki í þeim efnum og td. ritlistin,“ segir Sara.
Málverkin eru framsetning listakonunnar og túlkun hennar á heiminum og veröldinni, bæði innri sem og ytri á tímum heimsfaralds.
Athugið að gætt verður að öllum tilmælum yfirvalda um fólksfjölda, hreinlæti og fjarlægðir á milli manna.
Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Léttar veitingar verða í boði.
Sýningin stendur út maí.
Ferill Söru Oskarsson spannar 18 ár. Sara útskrifaðist með B.A. (Hons) gráðu með ágætiseinkunn frá einum virtasta listháskóla heims, Edinburgh College of Art í Skotlandi og hefur hún haldið fjölmargar einkasýningar.
Fjallað hefur m.a. verið um verk Söru í Telegraph í Bretlandi og á Arte.Tv í Frakklandi, Þýskalandi og Austur Evrópu.
Verk hennar hafa selst til listaverkasafnara um allan heim; meðal annars í Bretlandi, Írlandi, Frakklandi, Danmörku, Indlandi, Bandaríkjunum, Hollandi og Ástralíu. Verk eftir Söru var tilnefnt til Art Gemini Prize í Bretlandi árið 2013.
http://listasafn.reykjanesbaer.is/sara-oskarsson
https://www.facebook.com/saraoskarssonart
Með þessari frétt gefur að líta nokkur sýnishorn af myndverkum Söru en vart þarf að taka fram að myndirnar njóta sín engan veginn í þessu formi og er því fólk hvatt til að fara á sýninguna og skoða verkin þar.