Kristín Tómasdóttir, hjónabandsráðgjafi með meiru, hefur gengið til liðs við DV og mun svara spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börn og ástina. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem er fastur í rifrildishring.
_____________________
Sæl, Kristín. Ég og sambýlismaður minn erum föst í rifrildishring sem er verulega farið að hafa áhrif á allt heimilislífið og börnin okkar. Mér finnst hann tuða yfir öllu og ég er farin að hreyta í hann ónotum. Hann kann ekki að velja sér orrustur og er alltof smámunasamur. Hann til dæmis tuðar stanslaust yfir því að strákarnir raði ekki skónum og að ég gleymi að taka úr þurrkaranum. Mig langar hreinlega að rota manninn! Ég veit að ég er ekki fullkomin en sumt er ekki þess virði að stúta stemningunni fyrir.
Okkar eini rétti
Það er misskilningur að við getum fundið maka sem er okkar „eini rétti“. Það getur enginn uppfyllt allar langanir og þrár annarrar manneskju, né verið sammála í einu og öllu þegar kemur að skoðunum og lífsgildum.
Algjörlega óraunhæft dæmi.
Öll pör deila og takast á. Mismikið að sjálfsögðu og með ólíkum hætti en allir þurfa að finna takt og leiðir til þess að takast á við ólíka sýn. Skiptir þá mestu hvernig ósamstöðu er mætt og hvaða leiðum er beitt. Mörgum hættir til að treysta á hugsanalestur en það er ekki sérlega vænlegt til árangurs. Þess vegna getur reynst vel að tala saman, segja hvað liggur að baki „pirringnum“ og reyna að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir hann.
Þú nefnir að hann stúti stemnningunni og kunni ekki að velja sér orrustur. Getur verið að það skipti hann meira máli en þig að skórnir séu á sínum stað? Þetta hljómar eins og þið séuð með ólíkar hugmyndir um hvernig þið viljið hátta umgengni á heimilinu frekar en að annað ykkar sé betur til þess fallið að meta og halda uppi stemningunni en hitt.
Röddin hækkar og hjartslátturinn verður örari
Í hita leiksins þegar taugakerfið er komið á yfirsnúning nær enginn að tala með skynsemistöðvum heilans. Það þýðir að þegar rifrildin byrja, röddin hækkar og hjartslátturinn verður örari þá er næsta víst að rifrildið skilar ekki skynsamlegri niðurstöðu. Sum pör velja sér „timeout-orð“ sem merkir að þau hætta og sammælast um að ræða þennan atburð síðar þegar allt er rólegra. Þarf þá að fylgja reglunni hvenær umræðan skuli fara fram.
Í rifrildum hættir fólki til að alhæfa, ásaka og dæma, nokkuð sem kallar á varnarviðbrögð mótherja. Ef við reynum heldur að útskýra og skilja finnum við frekar lausnir sem samherjar.
Tuð er hegðun
Til þess að uppræta rifrildin þarf að komast á dýptina. Tuð er hegðun, en að baki hegðun liggja tilfinningar. Hans hegðun, tuð, hefur áhrif á þínar tilfinningar sem láta þig sýna honum ákveðna hegðun, vonandi ekki að rota hann, en mögulega hreyta í hann ónotum. Þegar þú gerir það framkallar þú hjá honum líðan sem kallar ekki fram hans bestu hegðun. Þannig festist þið í rifrildisvítahring sem lítur svona út:
Hegðun – ýtir á tilfinningar – sem kalla á hegðun – sem aftur framkallar tilfinningar.
Til þess að rjúfa svona mynstur þarf því að greina annars vegar hegðun og hins vegar tilfinningar.
Hvað þarft þú svo að rifrildin brjótist ekki út?
Án þess að þekkja ykkur tel ég líklegt að skórnir og þurrkarinn séu einungis birtingarmyndir undirliggjandi titrings hjá manninum þínum. Það er eitthvað að trufla hann og þið þurfið að komast að því hvað það er og hvernig þið getið fyrirbyggt það. Getur verið að honum líði þannig að það sem þú telur til smáatriða geti honum þótt stórmál? Ég leyfi mér að velta því upp hvort honum finnist lítið hlustað á sig í tengslum við umgengni og sé því farinn að hækka róminn. Það er vond tilfinning og ef hann fær ekki skilning á sinni líðan þá brýst það út í pirringi. Sömuleiðis hefur þú fullan rétt á því að tjá þig um hvernig þú vilt forgangsraða heimilisstörfum. Kannski viltu hafa þvottinn í þurrkaranum lengur en hann? Eða viltu að hann minni þig á fötin á þurrkaranum? Hvað þarft þú svo að rifrildin brjótist ekki út?
Ekkert rétt eða rangt
Það er ekkert rétt eða rangt varðandi þvott í þurrkara eða óraðaða skó. Um það hafa a.m.k. ekki verið skrifaðar margar vísindagreinar. Aftur á móti eru til skýrar vísbendingar um að pör sem setja sér umgengnisreglur, skipta með sér verkum og endurmeta reglulega hvernig fyrirkomulagið hentar rífist sjaldnar en pör sem hafa hoppað yfir þann reit á spilaborðinu.
Mitt ráð til þín, kæra vinkona, er að setjast niður með manninum þínum, reyna að kryfja erfiðar stundir og finna merki sem geta þýtt upphaf að rifrildum. Ef þið getið „hætt“ áður en þið „byrjið“ þá eru þið að fyrirbyggja. Með því að tjá líðan og reyna að skilja hvort annað finnast frekar sameiginlegar leiðir til þess að draga úr togstreitu. Þannig sigrist þið á þessari súru stemningu og heimilislífið verður aftur gott.
Ég átta mig á því að það getur verið töluvert auðveraldara að skrifa þetta en framkvæma, en ég hef séð dæmi þess að fólk nær mjög góðum tökum á vítahring sem það hélt að það myndi aldrei losna úr.