fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Strætisvagnar í sóttkví vegna alnæmisótta – Talað var um „hommaveikina“ og „kynvillingapláguna“ – „Kæmi til greina að merkja hugsanlega smitbera líkt og gyðinga“

Auður Ösp
Laugardaginn 21. mars 2020 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í upphafi níunda áratugarins stóð heimsbyggðin frammi fyrir óþekktum faraldri sem engin lækning var við. Það var alnæmi. Umræðan sem spratt upp á sínum tíma einkenndist af ótta og óvissu og var í raun ekki ósvipuð þeirri umræðu sem á sér stað í dag um COVID-19.

Enginn þorði að stíga upp í „Aids vagnana“

„Sífellt fleiri verða fórnarlömb AIDS og nú er vitað um kringum 2.000 tilfelli. Sjúkdómurinn leggst aðallega á homosexualista og eiturlyfjaneytendur. Þegar hefur orðið vart nokkurs ótta meðal almennings hér á landi vegna AIDS og rætt til hvaða ráðstafana sé hægt að grípa svo sjúkdómurinn berist ekki hingað til lands,“

segir í frétt Tímans árið 1983, rúmlega tveimur árum eftir að fyrstu fréttir af hinni nýju og óþekktu veiru birtust í bandarískum miðlum. Í frétt Tímans kom fram að það væri „aðeins tímaspursmál hvenær veiran myndi berast til Íslands.“

Umfjöllun íslenskra fjölmiðla á þessum árum bar merki um hversu mikil vanþekking var á sjúkdómnum og einnig hversu stutt var í fordóma. Talað var um „hommaveikina“ og „kynvillingapláguna.“

Þann 13. nóvemer 1985 var greint frá því í DV að tveir strætisvagnar hefðu verið settir í sóttkví í tíu klukkustundir á þvottastöð SVR á Kirkjusandi vegna ótta starfsmanna um að „AIDS-veiran“ leyndist í vögnunum. Enginn starfsmanna þorði að stíga inn í vagnana.

Nóttina áður hafði illa haldinn útigangsmaður haft uppi ólæti í báðum vögnunum og lét vagnstjórana og aðra nærstadda vita af því að hann væri með eyðnisjúkdóminn. Við Hlemm komu fjórir lögreglumenn, vopnaðir gúmmíhönskum, og fjarlægðu manninn. Seinna kom þó í ljós að um einhvers konar misskilning var að ræða, allavega reyndist útigangsmaðurinn ekki vera smitaður af sjúkdómnum.

„Það var ekki fyrr en SVR-menn höfðu fengið fullvissu frá heilbrigðisyfirvöldum og lögreglunni um að sagan um sjúkdóminn hræðilega væri uppspuni að strætisvagnarnir tveir voru aftur teknir í notkun,“ segir í frétt DV.

„Við tókum þá ákvörðun að koma ekki nálægt þessu fyrr en við hefðum fengið einhverjar leiðbeiningar frá heilbrigðiseftirlitinu eða læknum um hvernig ætti að umgangast svona,“ sagði starfsmaður á þvottastöð SVR í samtali við DV.

Stakk upp á að smitberar yrðu merktir

Rúmlega viku síðar birtist pistill undir liðnum Dagfari í DV. Þar minnist greinarhöfundur á ofangreinda frétt um strætisvagnana:

„Sannleikurinn er sá, að það er víðar en í strætó sem fólk er farið að gera varúðarráðstafanir. Á fjölmennum vinnustöðum eru yfirlýstir hommar settir í einangrun og eru vinsamlegast beðnir um að nota sérstök salerni, hreinlætistæki og vistarverur.

Nú er það svo að það er ekki hægt að loka slíkt fólk inni í búrum þegar það ferðast með strætó en auðvitað kæmi til greina að merkja hugsanlega smitbera líkt og gyðinga forðum og vísa þeim á sérstaka bása í vögnunum öðrum til viðvörunar. Það er að minnsta kosti betra og ódýrara heldur en að aka hverjum og einum vagni í sóttkví í hvert skipti sem grunur leikur á farþega sem fengið hefur veiruna eða gæti hafa fengið veiruna eða mundi geta fengið veiruna.“

Þá lagði greinarhöfundur til lögreglufélagið gerði þá kröfu í næstu kjarasamningum að bæði gúmmihanskar og gasgrímur fengjust endurgjaldslaust á liðið ef lögreglan ætti ekki að vera „helsti Aids smitberi landsins“.

„Eða hvers eiga stálhraustir glæpamenn og þjófar að gjalda þegar lögreglan stendur þá að verki ef þeir geta búist við því að smitast við handtökuna af þessum déskota án þess að koma nokkrum vörnum við?“

„Ekki blóð, ekki AIDS“

Í frétt NT árið 1985 segir:

„AIDS-hræðslan hefur gripið Íslendinga. Strætisvagnar eru taldir hættulegir, salerni á opinberum stofnunum og margt fleira. Spítalarnir finna líka fyrir þessu. Læknum féllust hendur nú fyrir skömmu á Borgarspítalanum, þegar verið var að svæfa sjúkling fyrir aðgerð. Rétt áður en óminnið tók við reis sjúklingurinn upp og grátbað læknana að láta sig frekar fara, heldur en dæla í sig blóði. Ekki blóð, ekki AIDS voru síðustu orð mannsins áður en hann sofnaði.“

Það sama ár sagði Haraldur Briem sóttvarnarlæknir í samtali við DV: „Við fáum fyrsta AIDS-tiIfelIið hér á Íslandi innan tveggja ára, á því er lítill vafi.“

Vildu koma á fót einangrunarstöð

Guðjón Ragnar Jónassonar var ungur samkynhneigður maður á Íslandi þegar fyrstu tilvik alnæmissjúkdómsins komu fram. Í bók sinni Hin hliðin lýsir hann því meðal annars hvernig andrúmsloftið var á þessum tíma. Allt umhverfið var markað „Plágunni“ og margir töluðu fyrir því að einangra þennan „hættulega“ hóp.

„Ég minnist þess að móðir mín sem þá starfaði sem hjúkrunarfræðingur hafði miklar áhyggjur af þessu og taldi að hér væri um heimsfaraldur að ræða. Fjölmiðlar tóku í sama streng og þar voru og á tíðum yfirlýsingar um hvað þyrfti að gera til að sporna við plágunni.“

Á öðrum stað ritar Guðjón að á sínum tíma hafi alnæmisveiran verið sett í sama flokk og svartidauði. „Svo fáránleg var umræðan að sumir framámenn töluðu í fullri alvöru um mikilvægi þess að koma á fót einangrunarstöð fyrir eyðnismitaða homma. Nokkurs konar sóttvarnarbúðum til að einangra þá eyðnisjúklinga sem kynnu vísvitandi að fara ógætilega í samskiptum við annað fólk. Þar átti að vera nóg pláss og auðvelt að koma upp öflugri sóttkví fyrir skítugu börnin hennar Evu.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“