Ný íslensk þáttaröð, Sisterhood, lítur dagsins ljós á næsta ári, en serían er framleidd af Sagafilm í samstarfi við sjónvarpsrisann Sky Studios og verður sýnd á Viaplay og í Sjónvarpi Símans. Um er að ræða þáttaröð í sex hlutum, en þetta er fyrsta verkefnið sem kemur úr samstarfs- og dreifingarsamningi Sagafilm við breska fyrirtækið Sky Studios sem skrifað var undir síðasta haust.
Jóhann Ævar Grímsson og Björg Magnúsdóttir skrifa handritið en leikstjórn er í höndum Silju Hauksdóttur. Þáttaröðin fjallar um Veru, rannsóknarlögreglukonu sem fær í hendurnar dularfullt mál þegar beinagrind ungrar stúlku sem hvarf sporlaust fyrir tuttugu árum finnst í smábæ á Íslandi. Samstarfsfélagar Veru telja málið einfalt en annað kemur á daginn þegar hópur af konum kemst í uppnám við fund beinagrindarinnar, hópur sem hefur þagað yfir ljótu leyndarmáli um morðið á þessari ungu stúlku.
„Með því að gera aðalumfangsefnið fullorðnar konur sem frömdu hryllilegan glæp í fortíðinni verður Sisterhood undirtegund glæpaseríuflokksins, sem margir hafa spreytt sig á,“ segir Jóhann Ævar í viðtali við Variety. Pálmi Guðmundsson, hjá Símanum, segir í sömu grein að hann innsigli sjaldan samninga þegar seríur eru enn á frumstigi en að hann hafi gríðarmikla trú á sögunni og karakterunum á bak við Sisterhood.