Loksins er búið að staðfesta að leikararnir í gamanþættinum sáluga Friends koma aftur saman fyrir einn þátt sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni HBO Max. Allir leikararnir, Jennifer Aniston, Courteney Cox, Lisa Kudrow, Matthew Perry, David Schwimmer og Matt LeBlanc deildu fréttunum á samfélagsmiðlum fyrir helgi en þetta verður í fyrsta sinn síðan í lokaþætti Friends árið 2004 sem allir leikararnir koma fram saman í sjónvarpi.
https://www.instagram.com/p/B82FMKcBKHL/
Leikararnir fá væna summu fyrir að gera þáttinn eins og Variety segir frá. Þau fá að minnsta kosti 2,5 milljónir dollara hvor í sinn hlut, eða tæpar 320 milljónir króna. Fyrir einn þátt.
Samkvæmt heimildum Wall Street Journal bauðst leikurunum upphaflega 1 milljón dollara fyrir þáttinn, tæplega 130 milljónir króna. Það er upphæðin sem hver leikari fékk fyrir hvern þátt í síðustu tveimur þáttaröðunum af Friends. Hins vegar tóku leikararnir ekki þessu boði, en þekkt er að þau semja öll saman um kaup og kjör.
Þættirnir um vinina sex hófu göngu sína árið 1994 og gengu í tíu ár. Um er að ræða eina vinsælustu þætti fyrr og síðar og bíða aðdáendur með eftirvæntingu eftir endurkomu þeirra, þó aðeins sé um einn þátt að ræða.