Forsíðuviðtal Jólablaðs DV 18.12.2020. birtist hér í heild sinni.
Saga Garðarsdóttir, leikkona og grínvalkyrja með meiru, er ferskur blær í sótthreinsuðu jólaamstrinu. Saga hefur sterkar skoðanir á staðalímyndum og skilur ekki af hverju stelpa sem spilar fótbolta er strákastelpa. Hún er bara stelpa sem spilar fótbolta – líkt og Saga sjálf.
Saga var hávært barn og þykir nokkuð líklegt að hún hafi fengið fyrstu hnútana á raddböndin sem barn og varð í kjölfarið hás um árabil en það lækkaði þó lítið í þessari björtu og hláturmildu grínhetju. Hún er alin upp af tæknifræðingi og fréttakonu sem höfðu sterkar skoðanir á umhverfi sínu. Fréttir eru ástríða á heimili foreldra hennar og stjórnmál ber gjarnan á góma. „Pabbi minn myndi ekki segja að ég væri pólitísk því honum finnst ekkert nógu pólitískt,“ segir Saga sem er einnig alin upp við sterka listhneigð móður sinnar og systur. Eldri systir hennar er myndlistarkona og móðir hennar hefur gefið út ljóðabækur.
„Ég var mikið í fótbolta og íþróttum sem barn og var fullkominn unglingur. Ég æfði handbolta, fótbolta og á tímabili sund og smá tennis. Var líka eitthvað í frjálsum. Ég stóð mig mjög vel í skóla, fékk 10 í mætingu og var kladdavörður,“ segir Saga sem renndi íþróttagallanum upp í háls fram á þrítugsaldur og var metnaðurinn uppmálaður.
„Ég lagði mig mikið fram um að vera 100%. Ég var ekkert að skríða út um glugga eða drekka áfengi. Ég byrjaði ekki í uppreisn fyrr en rétt fyrir þrítugt. Ég fékk mér bleikan hanakamb í leiklistarskólanum og hafði gaman af að hneyksla fólk í kringum mig. En svo bara hitti ég Snorra og hætti því.“
Morgunæfingar og jarðvísindi
Aðspurð hvort það hafi aldrei komið til greina að gera íþróttir að ævistarfi þar sem Saga er klárlega með mikla hreyfigreind og hreyfiþörf, svarar hún að það hafi vissulega hvarflað að henni. „Ég er fyrst og fremst íþróttamanneskja. Ég hugsa stundum hvort ég hefði getað orðið afrekskona í CrossFit. En íþróttafélög eiga það til að vera frek á mann. Ég man eftir því að það hafi verið sett morgunæfing á því það var árshátíð í menntaskólanum kvöldinu áður og það átti að kenna okkur lexíu. Það var mjög pirrandi en þá kemur í ljós hverjir ætla að gera þetta að atvinnu sinni, verða hrikalega góðir og hverjir vilja gera eitthvað annað. Ég vissi reyndar þá að ég vildi frekar fara í leiklist. Ég hafði verið í Morfís og í leikfélagi MR, Herranótt, og hafði fengið smjörþefinn af því að láta fólk hlæja,“ segir Saga sem hefur ekki aðeins gert það gott sem leikkona heldur er hún einnig ein eftirsóttasta veislustýra landsins og grínisti.
„Þegar ég var í handbolta var talað um nýtingu þegar þú skýtur á markið. Ég var mjög góð í vörn en skaut eiginlega aldrei á mark því mér fannst það svo mikil pressa að skjóta á markið og hitta ekki og fá slæma nýtingu. Ég vil gera allt vel. En ég ætlaði mér alltaf í leiklist. Á tímabili þegar ég var hrædd um að komast ekki innf í Leiklistarskólann þá var ég með plan B um að læra jarðeðlisfræði og ferðast um heiminn og tala um jarðvísindi. Vera með TED-fyrirlestra. Ég var með svo góðan jarðfræðikennara í MR, hún var svo mikil negla og mér fannst hún svo töff,“ segir Saga og viðurkennir að hún sé mjög hrifnæm.
„Ég get verið mjög hrifnæm á fólk í kringum mig. Hreinlega skotin í því. Á tímabili átti ég mjög erfitt með að átta mig á því hvort fólk væri vinir mínir eða elskhugar. Þetta rann allt saman. En núna læt ég það bara eftir mér að falla andlega fyrir fólki. Fólk er svo æðislegt,“ segir Saga af einlægni.
Djöfulsins ofurhetja
Í leiklistinni er mikil líkamleg vinna þar sem íþróttakonan blómstrar. Leikfimisæfingarnar í Leiklistarskólanum voru þó vissulega vonbrigði fyrir mjög hrausta konu sem átti erfitt með að sjá tjáningardans sem líkamsrækt enda nýkomin úr ársdvöl í dönskum íþróttalýðháskóla þar sem allt gekk út á íþróttir. Þar voru stundaðar stífar æfingar og jafnvel stokkið frá úr partíi til að fara á auka æfingu og svo komið aftur.
„Ég hef alltaf haft mjög mikla hreyfiþörf og tapa hugsunum mínum ef ég næ ekki að hreyfa mig. Ég tekst líka á við erfiðleika með því að fara í sund, hreyfa mig og fá útrás. Ef hausinn á mér byrjar að spíralast í kringum vandamál hjálpar það mér að færa það í líkamann og losa það út. Höfuðið á mér er stundum langt á undan líkamanum. Ég fæ ótrúlega mikið út úr hreyfingunni og því að fá endorfínið til að flæða og blóðbragð í munninn. Svolítið eins og eftir uppistand. Svona „vá, djöfulsins ofurhetja er ég“.
Hún segir að hugmyndirnar flæði líka mun betur eftir góða æfingu og hún sé sérlega fyndin eftir átök. Saga segir að í þessu samhengi hafi tjáningardans ekki veitt henni þá útrás sem hún þurfti svo hún laumaði sér gjarnan fram á salerni á dansæfingum og tók nokkrar armbeygjur. „Þetta var viss þráhyggja og ég drakk líka rosalega mikið vatn. Var með þráhyggju fyrir því. En ég fæ absalútt hluti á heilann. Til dæmis í vinnunni. Ef einhver brandari er ekki að virka þá get ég ekki hætt að hugsa um af hverju hann virkaði ekki og hvernig ég get breytt honum til þess að hann virki.“
Kýla upp á við
Sökum smæðar þjóðarinnar segir Saga að það komi stundum fyrir að skotspónn brandarans eigi einhvern nákominn í salnum, jafnvel dóttur eða bróður. „Ég hef sagt brandara sem hafa mistekist og sært. Mér finnst það alveg hryllilega leiðinlegt og verð alveg fullkomlega miður mín. Ég reyni auðvitað að segja ekki brandara nema að ég geti staðið við þá. Það er heldur ekki hægt að byrja allt uppistand á að spyrja fólk hvort það þekki Björn Jörund.“
Gleðigjafinn með hraustlegu upphandleggsvöðvana er með skýra sýn á hvað sé fyndið og að hverju megi gera grín. „Allt getur verið fyndið. En grín er auðvitað aðstæðubundið og mismunandi eftir því hver segir það en mér finnst fín regla þegar maður er að gera grín, að kýla upp á við. Gera grín að þeim sem hafa völdin og þá ætti fólkið sem stendur þeim næst að skilja grínið og hafa húmor fyrir því.“
Þú vilt væntanlega ekki heldur missa bitið úr gríninu? „Nei, en svo finnst fólki yfirleitt það sem er satt vera beitt. Þannig að oft þegar maður er bara að segja satt virkar það svo beitt, þó þú sért bara að segja það sem allir vita og eru að hugsa.“
Meira í sleik
Saga elskar sund og eru þau hjónin og hin tæplega þriggja ára hamingjusprengja Edda ekki óalgeng sjón í Vesturbæjarlauginni en það var einmitt þar sem Saga sá eiginmann sinn, Snorra Helgason tónlistarmann, fyrst. „Ég var búin að taka eftir Snorra áður og þá sérstaklega hvað hann var alltaf glaður. Ég var búin að dást að honum í svona hálft ár áður en nokkuð gerðist. Snorri er svo beinskeyttur. Það sló mig dálítið út af lag-inu hvað hann gekk hreint til verks. Það er venjulega ég sem geri það og ég varð eiginlega bara feimin. Hann náði eiginlega bara í mig. Snorri var að vinna á skemmtistaðnum Húrra og hann bauð mér heim með sér eitt kvöldið og mér fannst það svo frakkt og dónalegt að ég svaraði: Nei, því miður, ég veit ekki hvað klukkan er! Ég þóttist bara hafa misskilið hann. Ég drakk ekki áfengi á þessum tíma,“ segir Saga og hlær.
„En ég fór nú samt heim með honum eftir að ég var búin að anda í bréfpoka,“ segir Saga og síðan eru liðin sex ár, Snorri og Saga orðin hjón og eiga dóttur og fallegt heimili í Vesturbænum. Þau hafa orð á sér fyrir að vera einstaklega samrýnd og sjást oftar en ekki saman – og ósjaldan að kyssast. „Ég segi að fólk eigi að fara meira í sleik! Ég man reyndar að við vorum ekki búin að vera lengi saman þegar frænka mín ávítaði mig fyrir að fara í sleik í einhverri skírn, sem henni fannst ekki vera í lagi. Ég bara tengdi ekki við það og skildi bara ekki hvernig það var óviðeigandi að fagna lífinu með sleik. Ég var ekkert að hugsa um að þetta væri óviðeigandi – heldur bara mikið er þetta gott móment,“ segir Saga og hlær björtum hlátri. „Þetta var líka maðurinn minn, ekki bara einhver maður í skírn. Það hefði verið skrítið.“
Tveggja tíma rembingur
Eftir nokkur ár af innilegum sleikjum varð Saga ólétt að Eddu sem verður þriggja ára í febrúar. Saga lýsti á opinskáan hátt í pistli á Kjarnanum hversu erfitt það er að koma manneskju í heiminn. Með pistlinum deildi hún mynd af blóðsprungnum augum og andliti sínu sem leit frekar út fyrir að hafa lent í átökum í húsasundi en mesta kraftaverki lífsins. „Það að fæða barn er fullkomlega hræðilega erfitt,“ segir Saga sem hélt að hún væri vel undirbúin undir átökin enda í góðu formi og vön mikilli áreynslu.
Í pistlinum góða lýsir hún aðdraganda fæðingarinnar: „Ég hafði vissulega heyrt misgóðar fæðingarsögur á með-göngunni og einhverjar konur höfðu sagt mér að þetta væri hellað dæmi. Ég kinkaði alltaf kolli og virtist skilningsrík en hugsaði með mér: Jájá, fæðing er kannski erfið fyrir svona venjulega snakkpokakonu eins og þig sem hefur aldrei fengið tíu í leikfimi í MR eða drukkið tvo lítra af vatni á tveimur mínútum án þess að gubba. En ég mun hins vegar fara létt með þetta. Ó, mikil var heimska mín og hroki.“
Það er ekki hægt að lýsa því hvað þetta er mikið álag á líkamann, segir Saga, sem var um tíma farin að efast um að þetta væri eðlilegt. „Ég trúði því bara ekki að fólk væri bara að þessu. Ég skildi alls ekki að þetta væri díllinn. Mér var sagt að þegar ég væri komin í rembinginn væri þetta kannski korter, tuttugu mínútur í barnið. Ég rembdist og öskraði í tvo klukkutíma. Ég hélt tvisvar að ég væri búin að örmagnast og gæti alls ekki meir. Og þá fór ég að hugsa: Hvað gerist þegar ég get ekki meira? Klára þau þetta fyrir mig? Eða vakna ég eftir tvo tíma og þarf að byrja upp á nýtt? Hvernig virkar þetta eiginlega?“ segir Saga og skellir upp úr.
„Snorri tók gítarinn sinn með,“ bætir hún við og segir að það hafi aldrei myndast stemming fyrir því. „Snorri er svo rólegur að hann sýndi aldrei að hann væri hræddur en við horfðumst í augu eftir að barnið var komið og hugsuðum bæði: Þetta var rosalegt!“
Saga viðurkennir að hafa í kjölfarið lofað sjálfri sér að gera þetta aldrei aftur en í dag sé staðan önnur. „Það er svo yndislegt að eiga lítið barn sem vill láta knúsa sig að núna er ég smá hrædd um að ég verði að eignast barn á þriggja ára fresti.“ Það að vera ólétt var hins vegar gaman að hennar sögn. „Fólk var svo glatt að ég væri ólétt og gott við mig. Mér fannst stundum eins og fólk héldi að ég væri að ganga með barnið þeirra. Áhuginn og gleðin var svo einlæg.“
Ævintýri í lest
„Fyrir fjórum árum langaði mig svo að flytja til útlanda, fara í nám eða breyta eitthvað til. Mér fannst ég vera að gera það sama ár eftir ár. Ég sá að það var verið að kenna afbrotafræði í Kanada og sagði við Snorra að það væri kannski sniðugt. Hann benti mér á að ég hefði engan áhuga á því – sem ég hef ekki. Mig langaði bara svo í eitthvað nýtt,“ segir Saga sem sá fyrir sér að það væri sniðugt að geta sagst vera leikkona og afbrotafræðingur.
Lífið tók hins vegar óvænta stefnu svo útlönd þurftu að bíða. „Svo varð ég ólétt. Þegar Edda var að verða eins árs, þá fórum við að ræða Interrail – fara bara eitthvað í þrjá mánuði. Snorri kaupir svo miðana og allt í einu var bara vika í að við færum og við ekki með neitt nema miðann. Við flugum sum sé út og Interrailmiðinn hljóðar upp á ákveðið marga ferðadaga í lest. Það er svo geðveikt að ferðast með lest. Það var svo fallegt að horfa á útsýnið í gegnum gluggann, borða nesti; osta, brauð og drekka rauðvín á meðan barnið svaf í lestinni. Þetta var stórkostlegt. Þetta var eins og að vera í Harry Potter-mynd/Villta vestrinu/Chocolait – þarna 90‘s negl-unni með Johnny Depp.
Sumar lestarferðirnar eru ótrúlega eftirminnilegar. Við vorum heldur ekki með neinn sérstakan tilgang annan en að „njóta“. Við fórum til dæmis til Genova og fannst það frábært og þá vorum við bara lengur.“ Hún segir ferðina hafa verið mjög afslappaða og að stundum hafi þau ekki bókað gistingu nema með tveggja daga fyrirvara. „Við notuðum Airbnb mikið og þetta var aldrei vandamál – fyrir mig. Snorri hamaðist í þessu.“
Saga segir eiginmanninn vera duglegan að sjá um það sem hún kallar flóknu hlutina. „Áður en við kynntumst átti ég ekki sjónvarp. Ég hringi ennþá einu sinni í mánuði í Snorra og spyr hann að því hvernig ég kveiki á sjónvarpinu. Sjálf er ég ekki tæknivædd og er frekar áttavillt. Á ferðalögum veit hann hvert við erum að fara og hvað er bókað. Ég segi honum hvað mig langar að gera og hann hjálpar því að verða að veruleika. Ef ég væri ekki með honum þá væri ég að gera færri hluti, gera þá verr og væri örugglega villt.“
Jesús sem kona
Styrkur og sjálfstæði Sögu liggur á öðrum sviðum og ekki síst í því að leyfa sér að einblína á styrkleika sína í stað þess að gera allt sjálf. „Ég fæddi barnið og ég fer alltaf út með papparuslið. Það er svona mitt hlutverk. Hann eldar allan mat og hann vill ganga frá ef hann eldar. Ég svæfi svo oftast. Það er ekki hægt að segja að það sé mikið jafnvægi í þessu hjá okkur. Snorri er frekar mikill meistari. Ég hlýt að hafa eitthvað. Bíddu, ég ætla aðeins að hugsa. Ég held að það sé mjög gaman að vera giftur mér. Ég er til í allt og sting upp á mörgu. Ég tek líka sokka upp af gólfinu. Ég leyfi honum að henda fötum á gólfið því hann er svo góður í öllu hinu,“ segir Saga sem hefur eldað einu sinni á síðustu þremur árum.
„Ég gerði mjög góða lauksúpu. Ég kann alveg að elda en hann vill gera það. Kannski ætti ég að elda hana aftur eftir svona tvö ár,“ segir Saga sem setur það ekki fyrir sig að vera móðir sem eldar ekki. Hún hefur engan áhuga á hlutverkum sem staðalímyndir vilja eigna konum. Þvert á móti.„Mér finnst kynhlutverk mjög áhugaverð. Þegar ég var lítil tók ég tímabil þar sem ég vildi bara vera Emil í Kattholti og klippti mig stutt og svaraði ekki öðru nafni. Ég var í Landakotsskóla og þar var kynjaskipt í smíði og handavinnu og ég var sett í hóp með strákunum. Mér fannst það mjög gaman. Ekki að ég hafi ekki tengt við stelpurnar en mér fannst spennandi að fara yfir þessa línu. Svo tekur maður eftir þessum línum víðar í lífinu og kynhlutverk eru náttúrulega hamlandi. Mér finnst við verða að gera í því að ögra þeim og má þau út. Auðvitað á kirkjan að birta mynd af Jesú sem konu. Það er bara mjög þakklát tilbreyting og það er líka ágætt að komast að því að boðskapur kærleikans breytist ekki sama hvort hann kemur frá karli eða konu. Og hvað vitum við líka um það hvort Jesú hafi upplifað sig sem konu en ekki meikað að tala um það í kringum árið 16 eftir Krist. Við eigum að ögra hinu hefðbundna. Það er ekki bara spennandi, það er líka nauðsynlegt og oft fyndið.“
Batmanprinsessa
Saga ögrar staðalímyndum ítrekað í starfi sínu sem leikkona og grínisti en hún er með einstaklega áhugavert verk í vinnslu sem hefur hlotið vinnuheitið Batmanprinsessan og Mjallhvít kóngur. „Ég held reyndar að Batman sé höfundarréttarvarið en það kemur í ljós, en það fjallar um að Batman getur vel verið prinsessa líka. Þú þarft ekki að vera annað hvort. Eitt útilokar ekki hitt. Eins og þegar fólk talar um stelpustrák. Það er bara stelpa sem hefur áhuga á kannski fótbolta eða er æst og agressíf. En það gerir hana ekkert að strák. Hún er bara æst stelpa. Það er óþolandi að það sé búið að eigna einu kyni einhverja ákveðna eiginleika. Þessi kvöð að skilgreina sig sem konu eða mann er svo hamlandi.“
Saga les mikið fyrir dóttur sína og segist ítrekað leiðrétta myndmálið í bókunum og gefa kvenpersónunum ný nöfn. „Eina leiðin til að kom-ast í gegnum til dæmis Erilborg er að hætta að tala um hvort dýrin eru karl eða kona og segja bara: Þarna er flotta kanínan að versla í matinn. Og ef dóttir mín spyr hvort þetta sé mamman segi ég: Eða pabbinn í nýjum fínum kjól. Svo er alltaf verið að setja einhverjar risa slaufur á konur eins og konur séu alltaf með risa slaufu. Þá geri ég í því að segja: Sjáðu hvað pabbinn er með fallega slaufu á hausnum. Hún mótmælir þá strax en ég lýg því blákalt að pabbi hennar gangi með slaufu oná hausnum á sumrin þegar hann er ekki með hatt. Annars reyni ég að segja satt.“
Kamína og gleðileg jól
Saga átti að stíga á svið í Borgarleikhúsinu í mars í leikritinu Veisla sem hún samdi ásamt leikhópnum sem stendur að sýningunni. Tilhlökkunin var mikil, tónlistin samin af Berndsen og öll umgjörð verksins lofaði sannkallaðri veislu. Faraldurinn tók þó í taumana og ítrekað hefur sýningunni verið frestað. „Ég var svo spennt að fá fasta vinnu með kaffivél. Þetta er stærsta tækifærið mitt í leikhúsinu, árið sem leikhús er bannað. Við erum líklega að fara að frumsýna ári eftir að æfingar hófust, þetta er mögulega mest æfða leikrit heims.“ Frumsýningunni hefur verið frestað þrisvar en Saga heldur í jákvæðnina og gleðina. „Það tekst oftast – en það tekur sinn toll. Það er enginn sem ég þekki sem hefur ekki sömu sögu að segja. Stundum nær fólk að halda í jákvæðnina í COVID-aðstæðunum en ekki alltaf. En mikið verður gaman að hitta fólk og segja því brandara og halda veislu.“
Saga er jólabarn og hlakkar til jólanna þó að hún vilji helst skilgreina sig sem sumarbarn. Hún er þó ekki búin að kaupa neina gjöf en er laus við alla örvæntingu. „Ég veit ekkert hvað ég ætla að gefa neinum. En við eigum kamínu! Við vorum að flytja og fengum okkur kamínu. Það er ekkert jólalegra,“ segir JólaSaga – sem er rétt að hefja sína eigin sögu. Full af orku og eldmóð.