Viftur inni á heimilum eiga það til að safna að sér ansi miklu ryki og drullu á skömmum tíma og þá sérstaklega viftur fyrir ofan eldavélar. Það er alveg einstaklega leiðinlegt að þrífa viftur sem bæði hafa mikla olíu og ryk á sér þar sem saman mynda þessi efni hálfgert klístur sem ómögulegt er að ná af.
Vifturnar eru yfirleitt líka með mörgum pínu litlum loftgötum sem erfitt er að komast á milli nema með örlitlum bursta og tekur það allt of langan tíma. Kona ein sem var orðin leið á því að þrífa viftuna á heimilinu kom með gott ráð á hópnum „Mums Who Clean“.
Byrjaði hún á því að leggja lokið á viftunni ofan í sjóðandi vatn í smá stund. Eftir það lét hún viftuna ofan í vaskinn ásamt tveimur uppþvottavélatöflum á sitthvora hlið viftunnar, þá lét hún renna heitt vatn ofan í og leyfði viftunni að liggja í hálftíma. Eftir það var nánast öll fita og drulla farin af nema örfáir blettir sem hún nuddaði auðveldlega af með uppþvottabursta.
Sagði konan að eftir að hún prófaði þetta einfalda ráð hafi viftan litið út eins og ný.