fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fókus

Tímavél – Old Spice ræninginn í Sandgerði

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 18. desember 2020 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Er blaðamenn komu í fljúgandi hálku og hörkugaddi til Sandgerðis í gærdag var þar ekkert óvenjulegt að sjá við fyrstu sýn þó að þeir skimuðu kringum sig haukfránum sjónum eins og góðum rannsóknarblaðamönnum sæmir. Þar hafði þó verið framið vopnað póstrán um morguninn, líklega hið fyrsta í sögu Íslands, og varð að segja sumum þá sögu þrisvar til þess að þeir tryðu því,“ svo sagði í Þjóðviljanum í febrúar 1979. Rán þetta þótti afar fréttnæmt enda ekki mikið um vopnuð rán á þessum slóðum, hvað þá rán þar sem ræningjanum tókst að komast burtu með hundruð þúsunda í reiðufé.

Rétt tæplega ári síðar var skrifað í Tímanum: „Um hálf níuleytið í gærmorgun réðist maður inn í pósthúsið á Sandgerði og hafði á brott með sér um 400.000 kr.“ Ekki var um að ræða upprifjun á ráninu 1979 heldur hafði pósthúsið í Sandgerði verið rænt aftur.

 

 

Ég skýt þig

Póst- og símstöðvarstjóri í Sandgerði á þessum tíma var Unnur Þorsteinsdóttir. Þann 31. janúar 1979, mætti hún til vinnu að venju, hálftíma fyrir opnun pósthússins þar sem hún fékk far með manni sínum.

„Ég kom í vinnuna klukkan hálf níu eins og ég geri venjulega, því mér finnst gott að ganga frá ýmsu áður en símstöðin opnar klukkan níu. Ég hafði að sjálfsögðu læst, en þegar ég var nýkomin inn var bankað. Það kom mér ekki á óvart í sjálfu sér, því að það er ekki óalgengt að fólk fái að bíða eftir rútunni hérna inni, sérstaklega ef kalt er í veðri eins og var í dag. Ég var því alveg grunlaus þegar ég opnaði dyrnar en þá ruddist maðurinn inn, hrinti mér aftur á bak og lýsti með vasaljósi framan í mig um leið og hann slökkti loftljósið,“ sagði Unnur í samtali við Morgunblaðið í febrúar 1979. Hún hélt áfram:

„Ég skýt þig ef þú lætur mig ekki hafa alla peningana,“ kallaði maðurinn um leið og hann rak eitthvað hart í bakið á mér og skipaði mér að fara inn á skrifstofuna.“ Unnur sagði að maðurinn hefði virst vita hvað hann var að gera. Hann vissi hvar peningakassa væri að finna og vildi bara taka þúsund krónu seðla og fimm þúsund krónu seðla, en ekki ávísanir.

 

Old Spice rakspíri

Unnur kvaðst hafa verið dauðskelkuð. Maðurinn lýsti með vasaljósi framan í Unni svo hún sæi ekki útlit hans. Engu að síður gat Unnur komið með eftirfarandi lýsingu:

„Ég gat aðeins gert mér grein fyrir því að maðurinn var í meðallagi hár og klæddur í bláleita úlpu með loðfóðri, úlpu af algengustu gerð. Hann hafði hettuna á höfðinu og hún var reyrð þétt að höfðinu svo hæpið var að ég hefði getað séð vel framan í manninn hvort sem er. Um aldur mannsins er erfitt að segja en líklega hefur hann verið ungur. Það var áberandi rakspíralykt af honum, lykt af Old Spice rakspíra.“ Maðurinn hafði þó ekki eins mikið upp úr krafsinu og hann hefði getað því Unnur hafði gætt þess vel að hafa sem minnst reiðufé á staðnum, þar sem hana hafði dreymt fyrir ráninu.

„Mig dreymdi nýlega draum sem ég réð þannig að eitthvað myndi gerast í líkingu við það sem nú hefur gerst. Mig dreymdi að ég væri stödd inni á skrifstofunni minni og þá sá ég svarta veru. Þessi vera ágirntist það sem var í peningaskápnum og hún sagði hvað eftir annað „ég vil fá allt nema ávísanir.“ Og þegar ég vaknaði glumdi þessi setning lengi á eftir í höfðinu á mér. „Ég vil fá allt nema ávísanir.“ Mér finnst þetta allt mjög einkennilegt því mig hefur aldrei dreymt neitt merkilegt áður,“ sagði Unnur í samtali við Morgunblaðið. En eins og fram kemur hér ofar þá vildi ræninginn einmitt ekki ávísanir, rétt eins og maðurinn í draumi Unnar.

Líklegast jólagjöf

Rannsóknarlögreglan í Keflavík og rannsóknarlögregla ríkisins unnu hörðum höndum að því að upplýsa málið. Var meðal annars yfirheyrður ungur maður sem átti heima í sama húsi og pósthúsið, en honum varð þó að sleppa þar sem engar handbærar sannanir fundust til að tengja hann við ránið.

Málið vakti mikla athygli í Sandgerði. Í frétt Morgunblaðsins frá febrúar 1980 sagði að sú saga hefði gengið að sala á Old Spice rakspíra hefði dottið niður úr öllu valdi í bæjarfélaginu. Morgunblaðið hafði eftir starfsmanni í versluninni Öldunni í Sandgerði að þetta gæti ekki staðist, þar sem rakspírinn hefði ekki fengist í Sandgerði síðan fyrir jól: „Líklega hefur ræninginn fengið rakspírann í jólagjöf,“ sagði starfsmaðurinn.

Slegin í rot

Ári síðar var málið enn óupplýst. Og þá var pósthúsið rænt að nýju. Í þetta skipti reyndi Unnur að verjast ræningjanum og var því slegin í rot.

„Ég varð öskureið, þegar ég varð vör við manninn, því ég vildi ekki að þetta færi eins og í fyrra og tók á móti, en með þeim afleiðingum að ég var barin niður,“ sagði Unnur í samtali við Vísi í janúar 1980. Vildi hún að þessu sinni sem minnst tjá sig við fjölmiðla enda sagði hún að málið árinu áður hefði tekið verulega á sig og fjölskyldu sína og vildi hún ekki verða „að skemmtiatriði á vörum fólks“.

Lögregla taldi að líklega væri um sama mann að ræða og hafði rænt pósthúsið árinu áður. En þó væri ekki útilokað að um hermikráku væri að ræða. Málsatvik eru þó keimlík.

„Unnur veitti mótspyrnu og við það brotnuðu gleraugu hennar en ræninginn greip þá til þess ráðs að veita Unni þungt höfuðhögg svo hún missti meðvitund. Tók ræninginn því næst lyklana af Unni, opnaði peningaskáp pósthússins og tók þar peningabauk, sem innihélt allmikið af seðlum og hafði þá á brott með sér. Meira var af peningum í skápnum, svo og ávísanir, en það skildi ræninginn eftir.“

Samkvæmt rannsóknarlögreglumanni sem fór fyrir rannsókninni grunaði lögreglu aftur hinn unga mann, en sem áður var ekki hægt að sanna það. Málin eru því bæði óupplýst í dag. Íbúar í Sandgerði biðu með eftirvæntingu eftir áramótunum 1980 til að sjá hvort ræninginn léti aftur til skarar skríða í ársbyrjun 1981. Hann virðist þó hafa snúið sér að öðrum verkefnum og látið pósthúsið framvegis eiga sig

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram